Skip to main content
Frétt

Stattu með sjálfri þér.

By 1. desember 2020No Comments
Hjálparstarf kirkjunnar hleypti af stað, í þriðja sinn, verkefninu Stattu með sjálfri þér – virkni til farsældar, í ágúst síðast liðinn. Verkefnið er ætlað konum sem búa við örorku og eru með börn á framfæri sínu. Hópurinn nú samanstendur af 20 konum.

 

Ljóst varð strax að mikil þörf var fyrir þetta verkefni, hópurinn endaði í 20 konum, og komust samt færri að en vildu. Markmiðið er að koma í veg fyrir félagslega einangrun og bæta sjálfsmynd þátttakenda, auka trú þeirra á eigin getu og efla þær í foreldrahlutverkinu.

Konurnar hittast einu sinni í viku yfir vetrartímann, undir handleiðslu Júlíu Margrétar Rúnarsdóttur, félagsráðgjafa. Þar fyrir utan koma til sögunnar ýmsir sérfræðingar sem flytja erindi af ýmsu tagi, til fræðslu. Til dæmis um foreldrahlutverkið, áhrif áfalla, fjármálalæsi, streituvalda og viðbrögð við streitu, núvitund og sjálfstyrkingu. Leitast er við að svara þörfum kvennanna en þær taka virkan þátt í að móta verkefnið og koma með hugmyndir um fræðslu sem gagnist þeim. 

Verkefnið mun standa yfir í 2ár, og allan þann tíma mun félagsráðgjafi fylgja konunum eftir, veita ráðgjöf í einstaklingsviðtölum og stuðning, svo sem með því að fylgja viðkomandi á fundi, ef hún óskar þess. Einstaklingsviðtölin snúa að markmiðasetningu fyrir konuna, og sérstaklega er horft til áhugasviðs hennar.

Þegar undirbúningur að verkefninu hófst í sumar var haft samband við mögulega þátttakendur, og lýstu konurnar strax yfir miklum áhuga. Í samtölum við þær kom skýrt fram að margar þeirra vildu komast út úr félagslegri einangrun og verða virkari.

Töluverð áskorum hefur fylgt því að ýta svona verkefni úr vör á tímu heimsfaraldurs. Harðar sóttvarnarreglur hafa sett strik í reikninginn, en í ljósi markmiða verkefnisins var talið mikilvægt að leita allra leiða til þess að halda því gangandi. Í aðeins eitt skipti hafa sóttvarnareglur komið veg fyrir að hópurinn gæti hist allur, og lýstu nokkrir þátttakenda því hvernig þeim þótti eitthvað vanta í rútínuna. Það má teljast góður árangur af verkefninu, þó nóg sé eftir. Innan hópsins hafa myndast góð tengsl og reynsla kvennanna skilað sér til alls hópsins í góðum umræðum og aukinni þekkingu.

Verkefninu lýkur hausti 2022, en framhald svona verkefnis ræðst af því hvort fjármagn fáist til þess.