Skip to main content
Frétt

Stingum stimplunum í skúffuna

By 2. febrúar 2017No Comments

Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, gerir fátækt og löngun fólks til að stimpla hvert annað að umræðuefni í grein sem birt var í Fréttablaðinu og á fréttavefnum Vísi 1. febrúar 2017. Með prentútgáfu greinarinnar birtist ekki mynd af Ellen heldur af formanni Samfylkingarinnar. Fréttablaðið hefur greint ÖBÍ frá því að það hafi gerst fyrir mistök í umbroti greinarinnar. Ekki var hægt að verða við ósk um að birta hana á ný með réttri ljósmynd en beðist var velvirðingar á mistökunum í Fréttablaðinu daginn eftir. Rétt höfundarmynd var við greinina á Vísi.

 

Stingum stimplum í skúffuna og iðkum mannréttindi

Margir virðast hafa meðfædda löngun til að merkja allt og alla. Oft er þetta gert óviljandi, merkimiði sem verður til á sekúndubroti og stimpillinn er mundaður um leið. Í öðrum tilvikum er um úthugsaða og jafnvel kerfisbundna stimpilstefnu að ræða.

Fólk er fljótt að ákveða hvaða eiginleika næsti maður hafi út frá útliti, framkomu eða bakgrunni.

Gleggsta dæmið um kerfisbundna stimpilstefnu nú um stundir er tilskipun nýs Bandaríkjaforseta um bann við komu fólks til Bandaríkjanna frá sjö sjálfstæðum ríkjum. Með þessari aðgerð er fólk frá þessum löndum stimplað. Það er flokkað með grunuðum vígamönnum á grundvelli þjóðernis og trúar. Stefnan er skýrð þannig að gripið sé til hennar til að vernda fólk.
Í nærsamfélagi okkar er stimplun einnig beitt en dæmin segja að það sé gert af góðvild. Fyrir skömmu var um slíkt dæmi að ræða, pelsagjöf til fátæks fólks.

Umræðan um merktu pelsana fjallaði mest um stimplunina. En mig langar til að beina umræðunni að fátæktinni, hún er ekki náttúrulögmál. Verði fátækt upprætt mun samfélagið verða betra og auðugra. Að gefa pelsa eða mat upprætir ekki vandamálið. Heldur er það neyðarráðstöfun vegna stöðunnar eins og hún er, plástur, sem virkar í raun eins og stimpill.
Velferðarkerfið verður að vera nægilega öflugt til að uppræta fátækt. Annars vegar þarf að styðja fólk til sjálfshjálpar og hins vegar með beinum fjármunagreiðslum. Of margir telja að greiðslur verði að vera lágar til þess að fólk komi sér út úr fátækt, að með fátæktarpíningu vaxi fólki ásmegin. Sannleikurinn er hins vegar sá að lágar greiðslur koma fólki lengra út á jaðarinn og skapa kvíða. Með aukinni fátækt eykst sjálfsmorðstíðni á meðal fátæks fólks.

Við hljótum öll að vilja samfélag þar sem allir eiga möguleika óháð uppruna, trú, móðurmáli, fötlun, kynferði, kynhneigð og efnahag svo eitthvað sé nefnt.

Merkimiðar og stimplun, óviljandi eða ekki, viðhalda fordómum og stuðla að sundrung. Við skulum ekki vera þar!