Skip to main content
Frétt

Sunna verður að fá hjálp

By 16. febrúar 2018No Comments

 „Fólk sem lendir í svona verður að fá alla þá hjálp sem það getur fengið. Maður vill ekki gera sínum versta óvini það að lenda í þessu,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ um Sunnu Elviru Þorkelsdóttur, sem liggur illa slösuð á sjúkrahúsi á Spáni án þess að fá viðeigandi heilbrigðisþjónustu.

Hún bendir á það í samtali við Fréttablaðið, að margar vikur séu síðan slysið varð og að Sunna liggi marghryggbrotin og mænusködduð í Malaga, án þess að fá viðeigandi þjónustu. „Við erum náttúrulega tengd systursamtökum úti í heimi. Við gætum talað við Evrópusamtök fatlaðs fólks og mannréttindasamtök – við erum að velta því fyrir okkur hvort við þurfum að bregðast þannig við,“ útskýrir hún. Öryrkjabandalagið vilji þó ekki gera neitt sem gangi í berhögg við það sem utanríkisráðuneytið sé að aðhafast í málinu. „Þess vegna ætlum við að funda með þeim.“

Þuríður Harpa segir við Fréttablaðið að eins og málið líti út fyrir Öryrkjabandalaginu sé verið brjóta mannréttindi á Sunnu. „Burt séð frá öllu þá á hún rétt á viðeigandi læknisaðstoð og hjúkrun. Við höfum verið að velta fyrir okkur hvort við getum á einhvern hátt haft áhrif á að hún fái það.“

Hún gerir ekki ráð fyrir að hitta ráðherra í þessari heimsókn. Öryrkjabandalagið hafi rætt við hann áður vegna málsins, en fulltrúa ráðuneytisins muni þau hitta. „Fólk sem lendir í svona verður að fá alla þá hjálp sem það getur fengið. Maður vill ekki gera sínum versta óvini það að lenda í þessu,“ segir Þuríður Harpa í viðtali við Fréttablaðið