Skip to main content
Frétt

Svör Framsóknarflokksins

By 23. maí 2018No Comments

Framsóknarflokkurinn svarar spurningum sem komið hafa fram á opnum fundum ÖBÍ: Réttur fatlaðs fólks í sveitarfélögum.

 

    1.        Mun framboð þitt beita sér fyrir því að fjölga fagfólki í grunnskólum og koma til móts við þarfir barna og unglinga með fatlanir og raskanir?

Svar: Já það mun beita sér fyrir því. Málefni grunnskólans eru í forgrunni hjá Framsókn í Reykjavík og þetta er eitt af mörgu sem þarf að bæta til að skóli fjölbreytileikans „virki“ sem skyldi.

 

    2.        Langir biðlistar eru eftir aðgengilegu húsnæði og Félagsbústaðir (í Reykjavík) hafa ekki getað útvegað fötluðu fólki aðgengilegt húsnæði að meinu marki. Mun framboð þitt gera bragarbót á þessu og ef já, með hvaða hætti?

Svar: Það er því miður húsnæðisskortur í Reykjavík og fatlaðir eins og aðrir súpa seyðið af því. Það þarf að byggja mikið meira og hefja uppbyggingu nýrra hverfa. Fatlaðir myndu njóta góðs af þeirri uppbyggingu eins og aðrir og þar yrði gert ráð fyrir íbúðum sniðnum að þeirra þörfum.

 

    3.        Hefur framboð þitt hugsað sér að hækka tekjuviðmið vegna sérstakra húsnæðisbóta þannig að fólk geti unnið sér inn aukatekjur án þess að missa húsnæðisbæturnar eða þær skertar til muna?

Svar: Við teljum að engar skerðingar eigi að koma til jafnvel þó öryrkjum takist að vinna sér inn einhverjar tekjur. Eigi einstaklingar á annað borð rétt á húsnæðisstyrk hefur það engin „aukaútgjöld“ í för með sér fyrir Reykjavík þó hann auki tekjur sínar eitthvað. Framsókn Reykjavík telur því að fólk eigi að geta unnið sér inn aukatekjur án þess að missa húsnæðisbæturnar.

 

    4.        Við mótun stefnu ykkar, hefur framboð þitt tekið mið af Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?

Svar: Við skoðuðum Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks ekki sérstaklega við mótun stefnu okkar. Þrír fulltrúar sex efstu sætanna hjá Framsókn Reykjavík óskuðu hins vegar eftir fundi með ÖBÍ og áttu fund með formanni þess og varaformanni ásamt nokkrum fleirum fulltrúum þeirra snemma í apríl. Þetta gerðum við til að fá beint frá öryrkjum sjálfum og notendum þjónustunnar sem Reykjavík býður, hvernig hlutirnir væru og hvað þyrfti að bæta. Þessi fundur var mjög gagnlegur og upplýsandi og á þessum samræðum og upplýsingunum sem við fengum höfum við byggt stefnu okkar.

 

    5.        Mun framboð þitt beita sér fyrir því að bæta ferðaþjónustu fatlaðs fólks?

Svar: Já, Framsókn Reykjavík telur að hana þurfi að endurskoða frá grunni. Á fundi okkar með forystumönnum ÖBÍ komumst við að því að um 85% notenda þjónustunnar eru „á fæti“ og þurfa ekki sérhannaða bíla. Við teljum að semja eigi við leigubíla um að sinna þeim hluta notendanna sem það geta. Með þessu myndu mörg vandamál sem notendur þjónustunnar glíma við í dag, leysast af sjálfu sér, eins og t.d. sveigjaleiki, tímamörk og fyrirfram pöntun á ferðum. Jafnhliða þessu yrði að efla þjónustuna við þá sem þurfa á henni að halda, fyrst og fremst með því að auka sveigjanleika hennar. Auk þess yrði að sjá til þess að þeir sem yfirleitt gætu nýtt sér leigubíla gætu skipt tímabundið yfir í ferðaþjónustu fatlaðra ef annað hvort verri heilsa eða færð kallaði eftir því.

Um þetta skrifaði frambjóðandinn í 3. sæti hjá Framsókn Reykjavík grein sem birtist í Kjarnanum þann 4. maí sl. https://kjarninn.is/skodun/2018-05-04-notendastyrd-ferdathjonusta/

 

    6.        Mun framboð þitt fjölga NPA samningum og liðveisluúrræðum?

Svar: Það eru mannréttindi að fá þjónustu við hæfi. Framsókn Reykjavík mun gera sitt besta til að svo sé.

 

    7.        Hyggst framboð þitt gera félagsbústaðakerfið skilvirkara?

Svar: Eitt af því sem hlýtur að há félagsbústaðakerfinu er skortur á húsnæði. Það þarf því auka framboð íbúða til að fækka á biðlustum og til þess þarf að byggja. Að því sögðu þá teljum við að félagsleg úrræði eigi aldrei að vera rekin með hagnaðarsjónarmið í huga. Við teljum leiguverð félagsbústaða vera of hátt.

 

    8.        Hvað hyggst þitt framboð gera hvað varðar félagslegt húsnæði fyrir fatlað fólk og til að gera úthlutun þess skilvirkari?

Svar: Það er erfitt að svara þessu. Í fyrsta lagi er ekki hægt að úthluta fólki húsnæði nema það sé fyrir hendi. Í öðru lagi er erfitt að svara þessu þegar maður sér ekki listana fyrir framan sig og við sjáum ekki þarfirnar sem hugsanlega eru settar í forgang eða látnar mæta afgangi. Að öðru leiti vísum við í svör við spurningum 2 og 8.

 

    9.        Ætlar þitt framboð að skilyrða fjárhagsaðstoð með einhverjum hætti?

Svar: Það er kannski ekki óeðlilegt að einhver skilyrði séu fyrir fjárhagsaðstoð. Hins vegar þurfa þau að vera raunsæ og „manneskjuleg“. Öryrkjum hefur verið haldið í fátækragildru með mjög ströngum skilyrðum og takmörkunum á tekjum sem skerða fjárhagsaðstoð. Framsókn Reykjavík telur þau mörk allt og ströng og í grunninn á fólk sem rétt á á fjárhagsaðstoð af heilsufarsástæðum rétt á henni þó það nái að afla sér einhverra tekna.

 10.        Ætlar þitt framboð að bjóða upp á frekari sálfræðiþjónustu í grunnskólum?

Svar: Skólarnir og þjónusta við börn er í algjörum forgrunni hjá Framsókn Reykjavík. Við munum því beita okkur fyrir bættri þjónustu þeim til handa í samráði við hvern og einn skóla. Stóraukin sálfræðiþjónusta í skólum hlýtur að vera eitt af því sem þarf að bæta.

 11.        Hver er þín skoðun á skóla án aðgreiningar?

Svar: Skóli án aðgreiningar/skóli fjölbreytileikans er kominn til að vera og það hefur sína kosti og galla. Í grunninn á skólinn að vera fyrir alla, en það þarf þá að taka ákvörðun um að fylgja því eftir með sóma. Það er ekki raunin í dag. Þessari stefnu fylgdi ekki nægt fé og því hefur þetta ekki gengið sem skyldi þrátt fyrir góðan vilja starfsfólks skólanna.

Framsókn Reykjavík telur skóla án aðgreiningar vera af hinu góða en þar þurfi þó að bæta verulega í, en auk þess þarf að gefa börnum/foreldrum kost á að velja sérskóla sé barnið ekki að ná félagslegum tengingum í almennum skóla, t.d. vegna þroskaskerðingar.

 12.        Vill framboð þitt fjölga NPA samningum umfram því sem ríkið fjármagnar? Já eða nei!

Svar: Framsókn Reykjavík telur að það sé borginni til skammar að borgaryfirvöld sinni ekki lögboðinni þjónustu við þá sem hana þurfa, vegna þess að þau séu í e.k. „reipitogi“ við ríkið um fjármagn um leið og þau fela sig á bakvið „samráð“ við önnur sveitafélög. Fyrir þetta gjalda notendur þjónustunnar og það er óboðlegt. Reykjavík á að taka forystu í NPA þjónustu þannig að önnur sveitafélög fylgi á eftir – samningar eða ekki samningar við ríkið eru ekki á ábyrgð notenda þjónustunnar.

Frambjóðandinn í 3. sæti hjá Framsókn Reykjavík skrifaði grein sem um samráð sveitarfélaga sem birtist í Kjarnanum þann 19. maí sl. Þar stendur eftirfarandi:

„Sveit­ar­fé­lögin eru mis vel í stakk búin til að takast á við verk­efnin og í þessu svo­kall­aða sam­ráði hefur það því miður gerst að yfir­leitt er miðað við það sem verst stöddu sveit­ar­fé­lögin ráða við.

Jafn­ræðið felst þá ekki lengur í því að allir hafi það jafn gott, heldur því að allir hafi það jafn slæmt. Á þessu tvennu er grund­vall­ar­mun­ur.

Þetta veldur því að Reykja­vík gerir ekki eins vel við öryrkja og eldri borg­ara því í nafni jafn­ræðis mega þeir ekki „hafa það betra“ en í öðrum sveit­ar­fé­lög­um.

Við hjá Fram­sókn Reykja­vík bendum á að staða öryrkja eða eldri borg­ara utan Reykja­víkur versnar ekki við það að Reykja­vík geri eins vel og hún get­ur. Reyndar má leiða líkum að því að staða þeirra sem þjón­ust­una þurfa í öðrum sveit­ar­fé­lögum myndi batna við það að við­miðin hækki.“

https://kjarninn.is/skodun/2018-05-18-samrad-um-verri-thjonustu-og-lakari-laun/

 13.        Telur þú mikilvægt að vinna gegn neikvæðri orðræðu í samfélaginu gegn öryrkjum og fólki með fötlun? Ef já. Hvernig ætlarðu að gera slíkt. Ef nei. Hvers vegna ekki?

Svar: Neikvæð orðræða er aldrei af hinu góða. Best er að svara henni með jákvæðri umræðu. Framsókn í Reykjavík mun ekki reyna að „banna“ neikvæða umræðu, enda dæmir hún sig yfirleitt sjálf. Umræða getur ekki verið á ábyrgð stjórnmálamanna/borgaryfirvalda að öðru leiti en því sem þeir segja sjálfir. Neikvæð umræða um öryrkja og fatlaðra er sem betur fer á undanhaldi og Framsókn í Reykjavík mun með sinni umræðu stuðla að því að svo sé áfram.