Skip to main content
Frétt

Svör Viðreisnar

By 22. maí 2018No Comments

Viðreisn svarar spurningum sem komið hafa fram á opnum fundum ÖBÍ: Réttur fatlaðs fólks í sveitarfélögum.

 

 

  1. Mun framboð þitt beita sér fyrir því að fjölga fagfólki í grunnskólum og koma til móts við þarfir barna og unglinga með fatlanir og raskanir.

 

Já. Viðreisn vill huga að velferð allra barna og tryggja þeim þá stoðþjónustu sem þau þurfa í skólunum. Það felur í sér fleira fagfólk, fjölgun úrræða þannig að veita megi kennurum þær bjargir að hægt sé að mæta þörfum nemanda.

Viðreisn vill innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hjá Hafnarfjarðarbæ. Það felur í sér að sveitarfélagið lofar að virða og uppfylla réttindi barna. Jafnframt skuldbindur bærinn sig til að vinna markvisst eftir hugmyndafræði sem byggir á:

•          Þekkingu á réttindum barna

•          Því sem barninu er fyrir bestu

•          Jafnræði – að horft sé til réttinda allra barna

•          Þátttöku barna

•          Barnvænni nálgun

Barnasáttmálinn er lykilplagg hvað varðar réttindi barna og stuðlar klárlega að því að brjóta niður múra milli þeirra kerfa sem koma að málefnum barna og fjölskyldna. Kerfin eru til að þjóna fólki en ekki öfugt.

 
  1. Langir biðlistar eru eftir aðgengilegu húsnæði og Félagsbústaðir (í Reykjavík) hafa ekki getað útvegað fötluðu fólki aðgengilegt húsnæði að meinu marki. Mun framboð þitt gera bragarbót á þessu og ef já, með hvaða hætti?

 

Viðreisn vill setja í forgang að útrýma biðlistum eftir félagslegu húsnæði og húsnæði fyrir fatlað fólk. Þeir eru alltof langir og ekki boðlegt að bíða svo árum skiptir eftir viðunandi úrræði. Viðreisn vill leita samstarfs við hagsmunasamtök um uppbyggingu slíks húsnæðis og hafa náið samráð við notendur þjónustunnar. Það eru mannréttindi að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi og tekið fullan þátt á öllum sviðum. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er skýrt kveðið á um skyldur hins opinbera, m.a. að öllum hindrunum sem hefta aðgengi, skuli útrýmt. Viðreisn vill vinna samkvæmt þessu.

 
  1. Hefur framboð þitt hugsað sér að hækka tekjuviðmið vegna sérstakra húsnæðisbóta þannig að fólk geti unnið sér inn aukatekjur án þess að missa húsnæðisbæturnar eða þær skertar til muna?

 

Já, með ákveðnum þökum þó. Hver þau þök verða er ekki hægt að svara nú. Æskilegt er að ýta undir sem virkasta þátttöku allra í athöfnum daglegs lífs, þ.á.m. á vinnumarkaði. Hindrunum eins og skerðingum sérstaks húsnæðisstuðnings vegna aukinnar þátttöku á vinnumarkaði, þarf að ryðja úr vegi, en gæta þarf að sanngjörnum tekjuviðmiðum eða hámarki tekna.

 

 

  1. Við mótun stefnu ykkar, hefur framboð þitt tekið mið af Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?

 

Já, Viðreisn vill virða alþjóðlega sáttmála eins og Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, mannréttindayfirlýsingar og Barnasáttmálann við mótun stefnu og ákvarðanatöku.

 
  1. Mun framboð þitt beita sér fyrir því að bæta ferðaþjónustu fatlaðs fólks?

 

Viðreisn vill endurskoða ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Núgildandi samningur sem Hafnarfjarðarbær er aðili að, sinnir ekki með fullnægjandi hætti þörfum notendanna. Fjölbreyttari úrræði eiga að vera í boði, úrræði sem miðast við þarfir notendanna. Þá þarf við komandi endurskoðun að hafa miklu nánara samráð við notendur og horfa til þess módels sem Blindrafélagið hefur notað.

 
  1. Mun framboð þitt fjölga NPA samningum og liðveisluúrræðum?

 

Já. Viðreisn vill koma til móts við þarfir þeirra sem þurfa á slíkum úrræðum að halda og stuðla að sjálfstæðu lífi þeirra. Viðreisn telur ekki hægt að setja kvóta á mannréttindi.

 
  1. Hyggst framboð þitt gera félagsbústaðakerfið skilvirkara?

 

Já, sjá annars svar við sp.2

  1. Hvað hyggst þitt framboð gera hvað varðar félagslegt húsnæði fyrir fatlað fólk og til að gera úthlutun þess skilvirkari?

 

Sjá svar við sp.2

 
  1. Ætlar þitt framboð að skilyrða fjárhagsaðstoð með einhverjum hætti?

 

Nei en gera þarf allt sem mögulegt er til að ýta undir sem mesta virkni allra í samfélaginu.

 
  1. Ætlar þitt framboð að bjóða upp á frekari sálfræðiþjónustu í grunnskólum?

 

Viðreisn vill sjá sálfræðing í fullu starfi í öllum skólum bæjarins. Heilsubærinn Hafnarfjörður þarf að huga jafnt að andlegri heilsu bæjarbúa sem hinni líkamlegu. Það á að vera jafn sjálfsagt að hafa sálfræðing í skólanum eins og að hafa íþróttakennara.

 

    11. Hver er þín skoðun á skóla án aðgreiningar?

 

Skóli án aðgreiningar hefur ekki virkað sem skyldi þar sem fjármunir fylgdu ekki innleiðingunni. Þar af leiðandi fylgdu ekki viðeigandi úrræði innan skólanna. Því má segja að skóli án aðgreiningar sé innistæðulaus hugmyndafræði eins og hún er sett fram nú.

 

Í grunnskóla eiga allir nemendur rétt á að stunda nám við sitt hæfi. Tækifærin eiga að vera jöfn, óháð atgervi og aðstæðum hvers og eins. Nemendur eiga að geta stundað nám í grunnskóla í heimabyggð eða nærumhverfi þar sem komið er til móts við náms- og félagslegar þarfir nemenda í almennu skólastarfi með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi.

Sveitarfélög eiga að tryggja að sérfræðiþjónusta sé veitt í leik- og grunnskólum,

ákveða fyrirkomulag hennar og stuðla að því að hún fari fram innan skóla. Í sérfræðiþjónustunni felst bæði stuðningur við nemendur og fjölskyldur þeirra og stuðningur við starfsemi skóla og starfsfólk þeirra. Á þessu er mikill misbrestur og þörf á verulegum úrbótum.

Viðreisn styður hugmyndafræðina en efndir verða að fylgja orðum.

 

  1. Vill framboð þitt fjölga NPA samningum umfram því sem ríkið fjármagnar? Já eða nei!

 

Já. Viðreisn telur ekki hægt að setja kvóta á mannréttindi.

 
  1. Telur þú mikilvægt að vinna gegn neikvæðri orðræðu í samfélaginu gegn öryrkjum og fólki með fötlun? Ef já. Hvernig ætlarðu að gera slíkt. Ef nei. Hvers vegna ekki?

Já, því miður er nauðsynlegt að grípa til aðgerða gegn neikvæðri orðræðu í garð öryrkja og fatlaðs fólks. Sveitarfélagið getur beitt sér gegn neikvæðri orðnotkun þegar þessi stóri hópur á í hlut. Allt of algengt er að notuð séu neikvæð og jafnvel niðrandi orð, líkt og t.d. örorkubyrði. Þá er sömuleiðis algengt að talað sé um að þessi hópur “megi sín minna” og þar fram eftir götunum. Viðreisn vill gæta virðingar í samskiptum við alla hópa og umræðum um alla hópa. Viðreisn fagnar fjölbreytileika mannlífsins og vill leggja sitt af mörkum til að uppræta neikvæð viðhorf og fordóma. Það verður best gert með öflugri fræðslu meðal alls almennings. Slíkt er ekki einkamál eins sveitarfélags heldur þarf samstillt átak allra til að árangur náist.