Skip to main content
Frétt

Svör Vinstri grænna

By 23. maí 2018No Comments

Vinstri græn svara spurningum sem komið hafa fram á opnum fundum ÖBÍ: Réttur fatlaðs fólks í sveitarfélögum.

1. Mun framboð þitt beita sér fyrir því að fjölga fagfólki í grunnskólum og koma til móts við þarfir barna og unglinga með fatlanir og raskanir.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur skýra stefnu í málefnum fólks með fatlanir og raskanir. Hjálpartæki eins og rafmagnshjólastólar og önnur tæki sem snúa að daglegu lífi er á verksviði hjálpartækjamiðstöðvar. Skólar eiga að útvega námstæki sem hæfa hverjum og einum. Borgin á að sjá um að greiða vegna aðlögunar húsnæðis skóla og frístundaheimila. Við leggjum áherslu á að samræma þessa þjónustu og auka upplýsingagjöf til foreldra svo að það verði einfaldara að rata í gegnum kerfið og fá þá þjónustu sem fólk sannarlega á rétt á.

2. Langir biðlistar eru eftir aðgengilegu húsnæði og Félagsbústaðir (í Reykjavík) hafa ekki getað útvegað fötluðu fólki aðgengilegt húsnæði að meinu marki. Mun framboð þitt gera bragarbót á þessu og ef já, með hvaða hætti?
Núverandi staða er ekki viðunandi, enda ekki boðlegt að bíða svo árum skiptir eftir húsnæði sem hæfir. Nú þegar hefur samþykkt áætlun um að fjölga íbúðum sem mæta þörfum fatlaðs fólks. Samkvæmt samþykktri uppbyggingaráætlun borgarinnar stendur til að fjölga aðgengilegu húsnæði um 80-90 íbúðir. Af þeim munu verða þrír íbúðakjarnar og eitt áfangaheimili. Af þessum íbúðum verða 44 íbúðir þar sem gert er ráð fyrir sjálfstæðri búsetu með viðeigandi stuðningi og 12-20 félagslegar íbúðir sem mæta aðgengisþörfum.

Þá er mikilvægt að halda áfram á þeirri braut sem var mörkuð með fyrsta færanlega stuðningsþjónustuteymisins (liðsaukinn). Það veitir þjónustu inn á heimilum fatlaðs fólks sem er mikilvægt til þess að fólk geti búið í sjálfstæðri búsetu, líkt og Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks kveður á um.

Þjónusta borgarinnar á að mæta þörfum fólks og á að veita á samfélagslegum forsendum

3. Hefur framboð þitt hugsað sér að hækka tekjuviðmið vegna sérstakra húsnæðisbóta þannig að fólk geti unnið sér inn aukatekjur án þess að missa húsnæðisbæturnar eða þær skertar til muna?
Mikilvægt er að uppfæra og endurskoða tekjuviðmið vegna sérstakra húsnæðisbóta í takti við hækkun bóta almannatrygginga. Mikilvægt er að hugsa skerðingahlutfall þannig að fólk missi ekki stuðning þó svo að tekjur hækki vegna hlutastarfa.

4. Við mótun stefnu ykkar, hefur framboð þitt tekið mið af Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?
Já. Hugmyndafræði sáttmálans eru innbyggðir víða í velferðarstefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

5. Mun framboð þitt beita sér fyrir því að bæta ferðaþjónustu fatlaðs fólks?
Margt af því sem Vinstri græn vöruðu við í lok síðasta kjörtímabils rættist því miður við innleiðingu. Við leggjum áherslu á að klára rafvæðingu þjónustunnar svo að upplýsingagjöf til notenda sé bætt til muna. Enda snúast flestar kvartanir um að bílar komi of seint eða snemma og að ferðir séu vitlaust skráðar. Þó að þjónustan hafi batnað á kjörtímabilinu, m.a. með afnámi hámarksferðafjölda þá er mikilvægt að halda áfram að bæta þessa mikilvægu þjónustu og skapa traust á henni á nýjan leik.

6. Mun framboð þitt fjölga NPA samningum og liðveisluúrræðum?
Við styðjum innleiðingu NPA, það þarf að tryggja að framlag borgarinnar (75% á móti 25% framlagi ríkis) sé nægt til þess að fjölga samningum. Sérstaklega þarf að huga að þeim einstaklingum sem þurfa öndunarvélaraðstoð í heimahúsi og tryggja þeim viðunandi heilbrigðisþjónustu til að tryggja sjálfstæði og öryggi þeirra.

7. Hyggst framboð þitt gera félagsbústaðakerfið skilvirkara?
Mikilvægt er að fjölga félagslegum leiguíbúðum og teljum raunhæft að fjölga þeim um 600 á næsta kjörtímabili. Aukið framboð mun stytta biðlista og gera kerfið skivirkara. Einnig er mikilvægt að leigjendur hafi aðgang að ýmsum gögnum rafrænt og að kerfið sé miðað út frá þjónustu við íbúa. Sjá svar við spurningu 2.

8. Hvað hyggst þitt framboð gera hvað varðar félagslegt húsnæði fyrir fatlað fólk og til að gera úthlutun þess skilvirkari?
Fjölga þarf félagslegum leigíbúðum sem er aðgengilegt fyrir fatlað fólk og fjölga búsetuúrræðum. Einnig er mikilvægt að styðja fólk til sjálfstæðrar búsetu með viðeigandi stuðningi með eflingu stuðningsþjóknustu og innleiðingu liðsaukans og þjónustu frá kjarna.

9. Ætlar þitt framboð að skilyrða fjárhagsaðstoð með einhverjum hætti?
Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga gegnir lykilhlutverki í velferðarsamfélagi enda tryggir hún viðkvæmum hópi lágmarksframfærslu þegar öðrum úrræðum sleppir. Upphæð fjárhagsaðstoðar á að vera mannsæmandi og hana ber að veita skilyrðislaust

10. Ætlar þitt framboð að bjóða upp á frekari sálfræðiþjónustu í grunnskólum?
Vinstri græn í Reykjavík vilja efla ráðgjöf sálfræðinga í skólum. Snemmtæk íhlutun sem tekur á tilfinningalegum og geðrænum vanda barna kemur í veg fyrir alvarlegri vanda síðar á lífsleiðinni.

11. Hver er þín skoðun á skóla án aðgreiningar?
Skoðun Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefur verið sú að skóli eigi að vera án aðgreiningar. Enda eigi öll börn rétt á menntun við sitt hæfi í sínu nærumhverfi þannig að hver og einn geti komist til þroska. Það er þó ljóst að fjármunir þurfa að fylgja sem duga til að innleiða hugmyndafræðina að fullu.

12. Vill framboð þitt fjölga NPA samningum umfram því sem ríkið fjármagnar? Já eða nei!
Við ætlum að tryggja framlög sveitarfélagsins og fjölga samningum í takt við innleiðingu á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og teljum mikilvægt að öll sveitarfélög sameinist um það.

13. Telur þú mikilvægt að vinna gegn neikvæðri orðræðu í samfélaginu gegn öryrkjum og fólki með fötlun? Ef já. Hvernig ætlarðu að gera slíkt. Ef nei. Hvers vegna ekki?
Já. Það er nauðsynlegt að vinna gegn neikvæðri orðræðu í samfélaginu gegn öryrkjum og fólki með fötlun. Sveitarfélagið þarf að vanda sig í allri orðræðu og forðast þess að jaðarsetja þessa hópa. Fjölbreytileiki mannlífsins er eitt af því sem gerir Reykjavíkurborg aðlaðandi sem heimabyggð. Sveitarfélög ein geta ekki unnið þessa baráttu, sem er barátta samfélagsins alls um virðingu og náungakærleik, en þau geta verið hluti af lausninni.