Skip to main content
Frétt

Tekjulágir fara á mis við vaxtabætur

By 18. mars 2016No Comments
Sigríður Hanna IngólfsdóttirEftir Sigríði Hönnu Ingólfsdóttur:
„Hvernig stendur á að einstaklingar með lágar tekjur fá ekki vaxtabætur þrátt fyrir að greiða verulegan hluta ráðstöfunartekna sinna í húsnæðislán?“
 
Í núverandi vaxtabótakerfi geta einstaklingar og fjölskyldur með lágar tekjur og í skuldsettu húsnæði farið á mis við greiðslu vaxtabóta. Á sama tíma er ljóst að ef einstaklingar og fjölskyldur þurfa að verja verulegum hluta ráðstöfunartekna sinna í greiðslu húsnæðislána án þess að fá vaxtabætur eykst hættan á að þeir missi húsnæði sitt og þurfi að leita sér að leiguhúsnæði eða félagslegu húsnæði. Ófáir hafa lent í þessari stöðu eins og lesa má í umsögnum umboðsmanns skuldara um ýmis þingmál er varða húsnæðismál. Hvernig stendur á því að einstaklingar með lágar tekjur fá ekki greiddar vaxtabætur þrátt fyrir að greiða verulegan hluta ráðstöfunartekna sinna í húsnæðislán? 

Verulega íþyngjandi húsnæðiskostnaður

Mikil umræða hefur verið um grafalvarlegt ástand á leigumarkaði, meðal annars vegna skorts á leiguhúsnæði og hás leiguverðs. Verulega íþyngjandi húsnæðiskostnaður getur einnig átt við um fólk sem býr í eigin húsnæði. Með verulega íþyngjandi húsnæðiskostnaði, samkvæmt skilgreiningu Hagstofu Íslands, er átt við að fólk greiði 40% eða meira af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðiskostnað. Það ætti ekki að koma á óvart að verulega íþyngjandi húsnæðiskostnaður er mun tíðari hjá fólki í lægsta tekjufimmtungi en hjá tekjuhærri hópum. Örorkulífeyrisþegar eru að stórum hluta með tekjur í lægsta tekjufimmtungi. Hlutfall örorkulífeyrisþega og langveikra í leiguhúsnæði er mun hærra en þeirra sem eru í fullu starfi og hefur það hækkað/aukist meira síðustu ár en hjá fólki í fullu starfi. 

Yfir 40% ráðstöfunartekna í afborganir

Örorkulífeyrisþegi með heildarárstekjur um 2.700.000 kr. á árinu 2014 greiddi 87.500 kr. á mánuði í afborganir af lánum til kaupa á húsnæðis til eigin nota. Heildarráðstöfunartekjur þessa einstaklings voru 187.507 kr. á mánuði. Því fóru rúmlega 46% af ráðstöfunartekjum hans til að standa skil á húsnæðislánum. Rétt er að taka fram að til húsnæðiskostnaðar teljast aðrir útgjaldaliðir en afborganir húsnæðislána og því var hlutfall húsnæðiskostnaðar hærra en 50% af ráðstöfunartekjum. En þrátt fyrir það fékk viðkomandi engar vaxtabætur þar sem hann taldist ekki skulda nógu mikið í húsnæðinu. Fasteignamat íbúðarhúsnæðisins í dæminu hækkaði um 4.900.000 kr. frá 2010 til 2014.

 

Hópur lágtekjufólks er í þeirri stöðu, eins og dæmið sýnir, að reyna að halda í eigið húsnæði þrátt fyrir að hafa varla eða ekki greiðslugetu til að standa í skilum með húsnæðislán sín. Ef þessir einstaklingar missa húsnæði sitt mun það verða talsverðum erfiðleikum bundið að finna leiguhúsnæði, sem er ódýrari kostur fyrir utan óöryggið, sem fylgir því að vera á almennum leigumarkaði. Biðtími eftir félagslegu leiguhúsnæði er einnig langur, en árið 2014 var meðalbiðtími eftir félagslegu leiguhúsnæði á landsvísu 26,6 mánuði. En hvað veldur því að fólk í þessari stöðu fær ekki greiddar vaxtabætur? 

Eignastofn lækkaður árið 2010 og verið óbreyttur síðan

Ef eignastofn fer yfir 6.400.000 kr. fellur réttur til vaxtabóta niður. Með eignastofni er átt við allar eignir að frádregnum öllum skuldum. Eignastofn fyrir vaxtagjöld árið 2009 fyrir einstaklinga/einstætt foreldri var 11.390.599 kr. Hann var lækkaður í 6.400.000 kr. fyrir útreikning vaxtagjalda ársins 2010 og hefur verið óbreyttur síðan. Sama þróun varð hjá hjónum/sambúðarfólki, en upphæðir eru aðrar. Hins vegar hefur fasteignamat íbúðarhúsnæðis víða hækkað mikið frá árinu 2010, þó mismikið eftir þéttbýlisstöðum, eins og sjá má í frétt á heimasíðu Byggðastofnunar.  

Gera þarf úrbætur til að tryggja rétt til húsnæðis

Ljóst er að gera þarf úrbætur á húsnæðisstuðningi hins opinbera fyrir tekjulága einstaklinga í eigin húsnæði. Núverandi vaxtabótakerfi tryggir ekki þennan stuðning. Eigið fé í fasteign skiptir í raun ekki máli ef ráðstöfunarfé stendur ekki undir framfærslu. Húsnæðisstuðningur þarf fyrst og fremst að taka mið af tekjum fólks. Vandkvæði lágtekjufólks, en stór hluti örorkulífeyrisþega tilheyra þeim hópi, liggja ósjaldan í því að ráðstöfunartekjur duga ekki til framfærslu hvort heldur fólk greiði húsaleigu afborganir af lánum af eigin húsnæði. Því til viðbótar eru þeir sem vegna lágra tekna komast ekki í gegnum greiðslumat og eru því fastir á leigumarkaði.

 

Höfundur er félagsráðgjafi ÖBÍ.