Skip to main content
Frétt

Textun er mál okkar allra – Áskorun til alþingismanna

By 18. apríl 2017No Comments

Á þessum tímum upplýsinga og tækniframfara er framboð af sjónvarpsefni enn takmarkað fyrir einstaka hópa. Enn er mikill misbrestur á því að íslenskt sjónvarpsefni sé textað. Allt að 16% þjóðarinnar er heyrnarskert að einhverju leyti, sem þýðir að um 54.000manns getur illa notið þeirra mannréttinda að fylgjast með útsendu efni. Það hefur áhrif á samfélagsþátttöku fólks að geta ekki fylgst með stjórnmálaumræðu og öðru sem er í gangi í þjóðfélaginu hverju sinni. Sjónvarpsáhorf er ekki síst félagsleg athöfn.

Textun á innlendu sjónvarpsefni gagnast mun stærri hóp en heyrnarskertu fólki. Hún auðveldar fólki með þroskahömlun að njóta áhorfs, styður við læsi barna og gagnast jafnframt eldra fólki og fólki með annað móðurmál að læra íslenskt mál.

Að auki má benda á að textað efni vekur meiri athygli og fær betra áhorf. Þegar stuðningur er við bæði hljóð og texta er athygli fólks einfaldlega meiri á efninu. Stjórnmálaflokkar hafa þegar áttað sig á þessu formi, eins og sást á myndböndum þeirra sem birtust á samfélagsmiðlum í aðdraganda síðustu alþingiskosninga.

Textun í íslensku sjónvarpi

Af íslenskum sjónvarpsstöðvum stendur RÚV sig best og er eina fjölmiðlaveitan sem er með íslenska málstefnu. Það þýðir þó ekki að RÚV sé til fyrirmyndar. Fréttir eru textaðar kl. 19, en ekki kl. 22 og ekki fréttatengt efni. Kastljós er afar sjaldan textað og þá bara ef talað er við erlenda aðila eða um málefni fatlaðs fólks. Í fréttatímum 365 er íslenskt efni textað ef rætt er við heyrnarskertan einstakling.

Aðrar innlendar sjónvarpsstöðvar texta eingöngu erlent efni. Rök þeirra við kröfum um textun eru að það sé of íþyngjandi vegna kostnaðar. Það hefur þó ekki hamlað þeim að texta erlent efni. 

Fjölmiðlaveitur nýta sér það ákvæði um textun innlends efnis eru mun vægari en um textun erlends efnis í lögum um fjölmiðla. Samkvæmt 29. grein laganna er þeim skylt að texta allt erlent efni í því skyni að efla íslenska tungu, en innlent efni sem fellur undir 30. greinina skuli texta eftir því sem kostur er. Það þýðir í raun að fjölmiðlaveitum er veitt umboð til að mismuna fólki um aðgengi að innlendu efni.

Í samanburði má benda á að sjónvarpsstöðvar á hinum Norðurlöndunum texta allt innlent efni.

Samþykkjum breytingu á lögum um fjölmiðla

Nú liggur fyrir frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 þar sem lagt er til að fjölmiðlaveitum verði skylt að texta allt útsent myndefni, óháð því hvort um erlenda eða innlenda framleiðslu er að ræða. Íslenskt mál á undir högg að sækja og í 29. grein laganna segir að fjölmiðlaveitur skulu eftir því sem við á efla íslenska tungu. Því eru ríkar kröfur settar um textun eða talsetningu erlends efnis. Sömu kröfur ættu að eiga við um innlenda dagskrárgerð af þeim sökum.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er aðildarríkjum samningsins gert skylt að tryggja viðeigandi ráðstafanir til að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins, að tryggja því aðgang til jafns við aðra að upplýsingum og samskiptum auk menningarefnis, til að tryggja að það geti nýtt sér rétt sinn til tjáningar- og skoðanafrelsis. Ísland fullgilti samninginn 20. september 2016 og ber þar af leiðandi að fylgja ákvæðum hans.

Það er brýnt að ráðamenn þjóðarinnar vanmeti ekki þörfina fyrir textun sjónvarpsefnis og þeir eru því hvattir til að samþykkja frumvarpið. Mismunun er óheimil.

Greinin birtist í Morgunblaðinu, þriðjudaginn 18. apríl 2017

 

 

Ingólfur Már Magnússon, varaformaður Heyrnarhjálpar og fulltrúi í málefnahópi ÖBÍ um aðgengi

Stefán Vilbergsson, verkefnastjóri ÖBÍ