Skip to main content
Frétt

Það þarf enga kerfisbreytingu – Myndband

By 14. desember 2018No Comments

Eftir Bergþór Heimi Þórðarson Njarðvík, fulltrúa í málefnahópi ÖBÍ um kjaramál

 

Allir flokkar á þingi hafa talað um mikilvægi þess að afnema krónu á móti krónu skerðinguna hjá öryrkjum. Það er ekki að ástæðulausu. Þessi skerðing er ein sú versta birtingarmynd ósanngirni og mannvonsku í garð lífeyrisþega sem stjórnvöldum hefur nokkurn tímann dottið í hug að koma á og það í kerfi sem er vel þekkt fyrir ósanngirni og mannvonsku. Kerfi sem er einnig þekkt fyrir flækju og ógagnsæi. Afnám þessarar skerðingar myndi draga úr öllum þessum þáttum kerfisins.

Mikið hefur verið rætt um fjölgun öryrkja og stemma þurfi stigu við henni. Einnig hefur mikið verið rætt að hvetja þurfi öryrkja til virkrar atvinnuþátttöku eftir getu og hæfni hvers og eins. Það er vitað mál að einn mest letjandi þátturinn í núverandi almannatryggingakerfi gegn þátttöku á vinnumarkaði er þessi skerðing. Þá er ónefnt að þessi skerðing hefur gífurleg áhrif á afkomu öryrkja því allar skattskyldar tekjur hafa áhrif. Verstu áhrifin eru vegna tekna úr lífeyrissjóði og eru verri eftir því sem öryrkinn var eldri þegar fyrsta örorkumat viðkomandi var gefið út. 
Einstaklingur sem var yfir sextugu við fyrsta örorkumat þarf að þola krónu á móti krónu skerðingu vegna tekna úr lífeyrissjóði upp á um 100 þús. kr. Það þýðir að afkoma þess einstaklings batnar nákvæmlega ekki neitt þó hann fái hundrað þúsund krónur frá lífeyrissjóði.

Ekki að ástæðulausu

Það er ekki að ástæðulausu að Öryrkjabandalag Íslands hefur sett afnám þessarar skerðingar í forgang í baráttu bandalagsins fyrir bættum kjörum öryrkja. Afnám hennar mun bæta kjör og/eða aðstæður allra öryrkja, hvort sem þau eru á vinnumarkaði eður ei. Ástæðan er, og nú endurtek ég mig, _allar_ skattskyldar tekjur hafa áhrif á meðan þessi skerðing er við lýði. Jafnvel hjá einstakling sem aðeins hefur tekjur frá TR munu aðstæður batna, ef ekki fyrir neitt annað en að virðing kerfisins fyrir tilverurétt hans eykst við afnám þessarar skerðingar.

Með þetta í huga settist ég við tölvuna fyrir ári síðan og skrifaði drög að frumvarpi um afnám krónu á móti krónu skerðingar hjá öryrkjum. Halldóra Mogensen lagði það góðfúslega fram á Alþingi stuttu seinna. Frumvarpið komst ekki í aðra umræðu því það var svæft í nefnd…

Við tók vinna í samstarfi við ÖBÍ við aðra útgáfu þess frumvarps. Það var aftur lagt fram af Halldóru nú í haust.

Svæft í nefnd

Velferðarnefnd er nú búin að fara tvær umferðir við að fá umsagnir og gesti til að fjalla um málið. Það er tilbúið í aðra umræðu. En þá bregður svo við að meirihluti velferðarnefndar telur ekki tímabært að afgreiða málið úr nefnd á grundvelli þess að velferðarráðuneytið er með starfshópa að störfum sem ætlað er að leggja fram tillögur að breyttu almannatryggingakerfi.

Alþingi og þingmenn hafa það hlutverk að semja og setja lög fyrir þjóðina. Ráðuneyti hafa svo það hlutverk að fylgja og framfylgja þeim lögum. Að þetta frumvarp fái þinglega meðferð hefur nákvæmlega engin áhrif á vinnu þessa hópa hjá ráðuneytinu né hefur vinna þessa hópa nein áhrif á frumvarpið.

Kúgunartæki

Það er alveg ljóst að hér er tvennt í gangi. Annars vegar vilja stjórnarflokkarnir ekki sýna í verki að þeim sé alvara með að afnema þessa skerðingu en að sama skapi má það heldur ekki sjást í opinni atkvæðagreiðslu að svo sé. Hins vegar á að nota afnám krónu á móti krónu skerðingar til að kúga öryrkja til að samþykkja nýtt kerfi starfsgetumats og greiðslna lífeyris.

Sorglegast þykir mér að sjá fulltrúa VG taka þátt í þessum leik. Ólafur Þór Gunnarsson og Andrés Ingi eru tveir af fimm fulltrúum meirihlutans í velferðarnefnd. Það væri nóg að annar þeirra tæki höndum saman með minnihlutanum til að hleypa þessu máli úr nefnd og í aðra umræðu.
Til að gæta sanngirnis merki ég hér alla hina nefndarfulltrúa velferðarnefndar:
Anna Kolbrún ÁrnadóttirÁsmundur FriðrikssonGuðjón S. BrjánssonGuðmundur Ingi KristinssonHalla Signý KristjánsdóttirVilhjálmur Árnason, og Hanna Katrin Friðriksson.

Það þarf enga kerfisbreytingu

Öryrkjar neita að leyfa stjórnvöldum að kúga sig til hlýðni. Það þarf enga kerfisbreytingu til að afnema krónu á móti krónu skerðingu. Það þarf aðeins að samþykkja þetta frumvarp. Frumvarp sem felur í rauninni ekkert annað í sér en að hækka tekjutryggingu öryrkja þannig að króna á móti krónu skerðingin fellur niður.