Skip to main content
FréttKonur og kvárKynbundið ofbeldi

„Þetta er sú veröld sem ég vil“

By 31. október 2025No Comments
„Úti stendur hópur kvenna við steyptan vegg. Þær standa við lítið borð þar sem verið er að skrifa undir eða skrá fólk. Bakvið hópinn er skilti frá kvennahreyfingu ÖBÍ Við vegginn standa tvö mótmælaskilti. Á fyrra skiltinu stendur: „Fatlaðar konur eiga líka börn.“ Hitt skiltið er bleikt og á því stendur: „Ég þori get og vil“ og þar er líka kvennatákn. Fyrir framan skiltin situr Steinunn Þóra Árnadóttir í hjólastól, hlýlega klædd með húfu og trefil. Hún er að tala við fréttamann RÚV sem stendur fyrir framan hana með upptökutæki. Nokkrar konur standa til hlliðar þar má meðal Rósa María Hjörvar.

Mikil þátttaka var við bás kvennahreyfingar ÖBÍ réttindasamtaka í sögugöngu Kvennaárs í síðustu viku og sömuleiðis á útifundi við Arnarhól. ÖBÍ réttindasamtök áttu fulltrúa í skipulagsteymi Kvennaárs og eru á meðal fjölda samtaka sem standa að dagskránni.

Konur og kvár í kvennaverkfalli 24. október á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni söfnuðust saman á horni Sóleyjargötu og Njarðargötu í miðbæ Reykjavíkur þar sem sögugangan hófst kl. 13:30 og stóð til kl. 15. Kvennahreyfing ÖBÍ var þar með bás þar sem gestum og gangandi bauðst að koma á framfæri skilaboðum til stjórnvalda og eiga í samtali um stöðu fatlaðra kvenna og kvára á Íslandi.

Sunna Elvira Þorkelsdóttir, lögfræðingur hjá ÖBÍ, er í skipulagsteymi Kvennaárs og var á meðal þeirra sem tóku síðan til máls á útifundinum við Arnarhól. „Ég vil veröld þar sem fatlaðar konur fá fullan aðgang að menntun, heilbrigðisþjónustu og atvinnu án hindrana. Ég vil veröld þar sem fatlaðar konur fá að lifa lífi sínu án þess að þurfa stöðugt að sanna tilverurétt sinn. Þetta er sú veröld sem ég vil,“ sagði Sunna.

ÖBÍ réttindasamtök, LUF, UN Women á Íslandi og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi stóðu einnig fyrir viðburði í tilefni 50 ára afmælis kvennafrídagsins degi fyrir kvennaverkfallið í ár. Var boðið upp á opinn hljóðnema og sögðu gestir þar frá sinni sýn á það hvað þurfi að gera til að koma á fullu jafnrétti á Íslandi.