Skip to main content
Frétt

Þriðjungur á við þingmenn

By 28. mars 2018No Comments

Þingmenn fá 110 krónur í styrk fyrir hvern ekinn kílómetra. Sjúklingar fá hins vegar 31 krónu og 34 aura í akstursstyrk til þess að sækja læknisþjónustu utan heimabyggðar.

Það blasir við öllum sem vilja sjá að það getur munað um hverja einustu krónu hjá fötluðu fólki, sjúklingum og foreldrum langveikra barna sem þurfa að sækja heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð.

Fjallað er um málið í Stundinni. Þar er bent á að akstursstyrkir sem Alþingismenn og starfsmenn ríkisins fá vegna starfa sinna séu þrisvar sinnum hærri en akstursstyrkir sjúklinga og foreldra langveikra barna.

Hinir fyrrnefndu fá 110 krónur fyrir hvern ekinn kílómetra fyrstu 10 þúsund kílómetrana og síðan 99 krónur fyrir næstu tíu þúsund kílómetra.

Rætt er við Ernu Helgadóttur, móður langveiks drengs, í umfjöllun Stundarinnar. Fjölskyldan býr á Seyðisfirði og þarf oft að fara um langan veg til að sækja heilbrigðisþjónustu. Bent er á það í Stundinni að á leiðinni milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða gæti Erna fengið 4.640 krónur endurgreiddar. Þingmaður sem færi sömu leið fengi hins vegar 16.280 krónur endurgreiddar. Er svo ekið yrði til Reykjavíkur fengi Erna 44.690 krónur endurgreiddar. Þingmaðurinn fengi hins vegar 156.860 krónur.

Erna bendir á að flug frá Egilsstöðum til Reykjavíkur sé niðurgreitt að mestu leyti. En hins vegar vaxi það henni í augum að þegar til höfuðborgarinnar sé komið, þá sé fólk á eigin vegum. „Við þurfum bara að koma okkar á spítalann og gleypa þann kostnað.“ Hún hefur sjálf þurft að greiða fyrir bílaleigubíl eða leigubíl ti þess að komast frá flugvellinum á sjúkrahúsið. Sömuleiðis þarf hún sjálf að greiða fyrir gistingu. „Allur kostnaður leggst á okkur þegar við erum komin til Reykjavíkur.“