Skip to main content
Frétt

Aðgengisviðurkenning – Tilnefningar

By 1. mars 2018No Comments

Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar óskar eftir tilnefningum til aðgengisviðurkenningar borgarinnar 2018.

Tilnefna má einstaklinga, hópa, félagasamtök, fyrirtæki eða stofnanir sem hafa á eftirtektarverðan hátt staðið vörð um gott aðgengi fatlaðs fólks í Reykjavík.  Hægt er að nefna ákveðin verkefni í þágu aðgengis, starfsemi sem stuðlar að bættu aðgengi, sem og hagsmunabaráttu í þágu aðgengismála. 

Aðgengisviðurkenning borgarinnar var veitt í fyrsta sinn í fyrra en þá hlaut Blindrafélagið   viðurkenninguna fyrir fjölbreytt starf í þágu bætts aðgengis fyrir blinda og sjónskerta.

Tilnefningar til aðgengisviðurkenningarinnar ásamt rökstuðningi sendist rafrænt á netfangið mannrettindi@reykjavik.is

Frestur til að skila tilnefningum er til 5. mars næstkomandi.

Borgarstjórinn í Reykjavík afhendir aðgengisviðurkenninguna á málþingi ÖBÍ, Stóra bílastæðamálið, sem haldið verður 12. mars. Þar verður fjallað um hvaða reglur gilda um bílastæði og stæðiskort fyrir hreyfihamlaða, sem og fyrirhugaðar breytingar þar á. Einnig verða kynntar áherslur ÖBÍ um ný umferðarmerki fyrir hreyfihamlað fólk og um aðgengi að hleðslustöðvum fyrir rafbíla.

Málþingið er haldið í tengslum við alþjóðlegan dag aðgengis sem er 11. mars. Markmiðið með deginum er að vekja athygli á því sem vel er gert í aðgengismálum í og stuðlar að því að fólk hafi jafnt aðgengi að samfélaginu óháð fjölbreyttum aðgengisþörfum.