Skip to main content
Frétt

Tölum ekki um „jaðarinn“ -Tölum um viðhorf

By 26. apríl 2016No Comments

Ég las viðtal við fyrrverandi Alþingismann þann 4. apríl sl. og það setti að mér óhugnað. Þar talar þessi fyrrverandi ráðamaður okkar Íslendinga um að venjulega, vinnandi fjölskyldufólkið sé ánægt með þann stöðugleika sem er í samfélaginu í dag. Þegar hann var spurður út í mótmæli um 20.000 Íslendinga, gerði hann lítið úr þeim, kenndi góðu veðri um að fólk hefði verið að flækjast á Austurvelli. Hann átti þá sennilega við að þetta venjulega, vinnustritandi fjölskyldufólk sem óvart hefði villst inn í mótmæli „jaðarins“, því svo sagði hann „Það eru til öryrkjar og veikt fólk, sem alltaf er að verða minna af, en þarf samt að laga“. Þá taldi hann sig hafa sagt nóg um þann þjóðfélagshóp og sagði: „Ef við hættum að tala um jaðarinn og tölum bara um massann“. 

Þá rann þetta upp fyrir mér enda stóð þetta þarna svart á hvítu. Þessi þjóðfélagshópur sem eru öryrkjar og veikt fólk er ekki talið með, samkvæmt orðum hans, skiptum við engu máli. Við erum „jaðarinn“ sem ekki á að hugsa um þegar spáð er í afkomu fólks í landinu, það er alveg ljóst að við, sem hann kallar „jaðarinn“ skiptum engu máli í hans augum. Við þurfum ekki að njóta neinna mannréttinda, við eigum engan rétt á mannsæmandi lífi, né sæmilegri afkomu. Við erum ekki massinn, við erum jaðarinn, tölum ekki um hann!

Ég varð sorgmædd og er það ennþá, og ég verð bara að segja: Hvernig í ósköpunum komst maður með þennan mannskilning inn á Alþingi okkar Íslendinga og hvað sitja margir Alþingismenn með svipaðar skoðanir á mannlegu samfélagi okkar á Alþingi í dag í okkar boði. Við þessi „jaðar“ höfum barist fyrir því að Alþingi lögfesti Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem er mannréttindasáttmáli. Við höfum barist fyrir betri kjörum og jafnrétti til handa jaðarsettum hópum fólks, fyrir aðgengilegu samfélagi og við höfum barist fyrir innleiðingu NPA (notendastýrð persónuleg aðstoð) fyrir allt fatlað fólk sem þarf og vill þá þjónustu. En það gengur ekkert né rekur í neinu af þessu, nema jú, okkur er sagt af stjórnmálamönnum að verið sé að vinna að málunum. Hingað til aðeins orðin tóm og nú stöndum við frammi fyrir því, að innleiðing NPA,sem okkur þessum jaðarsetta hóp er lofað, nú með ákvæðum í gildandi lögum um málefni fatlaðs fólks, verði jafnvel framkvæmd svo afgerandi, með óæðri enda stjórnvalda, að við, NPA notendur, upplifum okkur áfram sem valdsvipta, jaðarsetta og kúgaða Íslendinga, allt skv. fyrirmælum laga. Heimilar Stjórnarskráin slík lög?

Það er í mínum huga dapurlegt að manneskja með þessar skoðanir, þennan mannskilning, skuli hafa setið á Alþingi og jafn skilningsvana fólk sitji þar kannski enn. Ég segi mannskilning þar sem maðurinn telur að það þurfi að laga öryrkja og veikt fólk. Til upplýsingar fyrir hann og aðra þá er þetta svona: Fatlað fólk verður ekki lagað, né mannréttindi þess tryggð, með því að „lækna“ eða „lagfæra“ líkama þess og huga. Það sem þarf að „laga“ er viðhorf og skilningur fólks og að samfélagið geri ráð fyrir þátttöku allra í því á grunni jafnréttis og jafnræðis.

Svo fyrrverandi Alþingismaður og annað ráðafólk sé upplýst um okkur, þennan „jaðar“, þá erum við m.a. fjölskyldufólk, vinnandi fólk, menntað fólk o.s. frv.. En fyrst og fremst erum við fólk eins og annað fólk í okkar dýrmæta, smáa samfélagi og við höfum kosningarétt, …ennþá. Ég vil því hvetja sitjandi þingmenn og framtíðar þingmenn til að skoða huga sinn vel og byrja á að laga sín eigin viðhorf til hinna ýmsu hópa þjóðfélagsins. Gömlum hundi kenni ég varla að sitja úr þessu.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir atvinnurekandi og öryrki