Skip to main content
FréttTR

Umboðsmaður krefur ráðherra svara um breytt verklag TR

By 11. júní 2021september 1st, 2022No Comments
Umboðsmaður Alþingis hefur sent félags- og barnamálaráðherra bréf þar sem spurt er hvort hann sé meðvitaður um að afgreiðsla umsókna um örorkulífeyri hjá Tryggingastofnun hafi mögulega breyst. Fyrirspurnin kemur til í kjölfar kvartana og ábendinga sem benda til að þessi framkvæmd kunni að hafa breyst þannig að umsóknum, einkum frá ungu fólki, sé í auknum mæli synjað á þeim grundvelli að endurhæfing sé ekki fullreynd.

Öryrkjabandalagið hefur nú í nokkurn tíma reynt að vekja athygli ráðherra á breyttu verklagi, sem og leitað svara hjá TR. Bæði hafa verið send bréf til ráðuneytisins sem og TR, rætt í persónulegum samskiptum við ráðherra áður en athygli umboðsmanns var vakin á málinu. Nú hefur hann skorist í leikinn, og sent ráðherra bréf, þar sem farið er fram á svör fyrir 28. júní n.k. Svör sem óskað er eftir áður en tekin er afstaða til þess hvort umboðsmaður hefji frumkvæðisrannsókn á þessari breytingu.

Í bréfinu segir m.a. :

„Umboðsmaður hefur veitt því athygli, m.a. vegna kvartana og ábendinga sem honum hafa borist, að svo virðist sem framkvæmd Tryggingastofnunar við afgreiðslu umsókna um örorkulífeyri kunni að hafa tekið breytingum þannig að umsóknum, einkum frá ungu fólki, sé í auknum mæli sybjað á þeim grundvelli að endurhæfing sé ekki fullreynd.“

Þá segir umboðsmaður í bréfinu til ráðherra að rétt sé að nefna dæmi sem búi að baki þeim kvörtunum og ábendingum sem umboðsmanni hafi borist. Til að mynda að einstaklingum hafi verið synjað um örorkumat á þeim forsendum að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd, án þess þó að tiltekið hafi verið hvaða endurhæfingaúrræði viðkomandi geti nýtt sér, eða hvort þau standi yfirhöfuð til boða. Þar tiltekur umboðsmaður til að mynda mál einstaklinga sem bíða aðgerðar, og ljóst að endurhæfing geti ekki hafist fyrr en að henni lokinni. Þetta þýði að þessir sömu einstaklingar bíði tekjulausir eftir aðgerðum, þar sem jafnvel biðlistar séu langir. 

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ: „Það er í raun ótrúlegt að ungmenni með umönnunarmat vegna margþættra fatlana, skuli við 18 ára aldurinn fá synjun á örorkumati, sem væri eðlilegt framhald af umönnunarmati. Endurhæfing breytir ekki fötlun þessara einstaklinga.“

Þá liggi jafnframt fyrir upplýsingar um tilvik þar sem umsóknum hafi verið synjað, þrátt fyrir að fyrir hafi legið afstaða læknis um að frekari endurhæfing breyti ekki stöðu viðkomandi, sem og að TR synji umsókn þrátt fyrir að 36 mánaða endurhæfingu hafi lokið og meðferðar aðilar staðfesti að endurhæfing sé fullreynd.

Ekki síst liggi fyrir upplýsingar um einstaklinga sem meðfæddar taugaþroskaraskanir, „þar sem legið hefur fyrir umönnunarmat samkvæmt 4. gr. laga nr 99/2007 fram að 18 ára aldri. Dæmi sú um að einstaklingum í þessari stöðu hafi verið synjað um örorkumat þótt varanleg skerðing og þörf þeirra fyrir aðstoð hafi ekki breyst við það að ná 18 ára aldri.“

Umboðsmaður óskar eftir að svör berist eigi síðar en 28. júní n.k. og tekur fram að hann óski þessara upplýsinga áður en tekin verður afstaða hvort tilefni sé til að taka framangreint álitaefni til athugunar að eigin frumkvæði.

Bréf umboðsmanns má lesa í heild hér.