Skip to main content
FréttMálefni barnaMenntamál

Umboðsmaður skoðaði aðstæður í skólum

By 25. nóvember 2021ágúst 31st, 2022No Comments
Umboðsmaður Alþingis fór í vettvangsskoðun í grunnskóla 23. nóvember í þeim tilgangi að afla frekari upplýsinga vegna athugunar embættisins á aðbúnaði barna sem skilin eru frá samnemendum sínum og færð í sérstakt rými.

Umboðsmaður hefur í nokkurn tíma verið með þessi mál til athugunar, og sendi í október bréf til nokkurra sveitarfélaga og mennta og menningarmálaráðuneytisins þar sem farið var fram á upplýsingar og gögn vegna þeirra upplýsinga sem fram höfðu komið að svokölluð „gul“ herbergi væru í notkun í einhverjum skólum, þar sem börn væru tekin afsíðis og látin vera, oft ein.

Umboðsmaður spurði í bréfi sínu hvort þeir nemendur sem úrræðinu hafði verið beitt á, hafi dvalið í herberginu í stutta stund, eða í lengri tíma, hvort þeir hefðu verið þar einir eða með starfsmanna. Einnig hvort úrræðinu hefði verið beitt í tilefni af atvikum sem vörðuðu nemandann sjálfan, eða vegna athafna annara nemenda sem beindust að honum. Umboðsmaður hefur fengið þau svör sem hann óskaði eftir, og jafnframt, samkvæmt frétt á heimasíðu embættisins, hafa honum borist ábendingar um einstök atvik af þessum toga.

Þessi mál hafa nokkuð verið í umfjöllun frá því síðla sumars, og meðal annars tók stjórn Öryrkjabandalagsins þá ákvörðun að styðja foreldra í hugsanlegum málaferlum þar sem auðsýnt var að barn var ekki að fá þann stuðning sem það á rétt á, og stefnan um skóla án aðgreiningar því í raun virt að vettugi.

Lögmaður ÖBÍ sendi bréf til nokkurra sveitarfélaga og grunnskóla í þeim, þar sem óskað var eftir svörum um ákveðin atriði, vegna barns í viðkomandi skóla. Ánægjulegt er að segja frá því að fljótlega brást einn af þessum grunnskólum við og jók við þau úrræði sem í boði voru fyrir börn sem þurfa meiri stuðning, með þeim árangri að barnið nýtur þess nú að fara í skólann. 

Nýlega fjallaði fréttablaðið ítarlega um þessi mál, og þar sagði Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, að ef  svipta eigi fólk, og þar með talið börn, frelsi þurfi að megin­reglu laga­heimild og rann­sókn hans í þessu máli hafi það sem út­gangs­­punkt. Skúli segir að skoðun em­bættis um­boðs­manns sé af­mörkuð við frelsis­sviptingu, af­leiðingar inni­lokunar á börn og hvernig verk­lagi, skráningu og upp­lýsinga­gjöf sé háttað í þessum málum.

Rannsókn umboðsmanns heldur áfram og í kjölfar þessara heimsókna tekin afstaða til þess hver næstu skref hans verða vegna málsins.