Skip to main content
Frétt

Ungliðahreyfing ÖBÍ harmar dóm Hæstaréttar

By 16. nóvember 2017No Comments

Ungliðahreyfing ÖBÍ harmar dóm Hæstaréttar Íslands í máli Áslaugar Ýrar Hjartardóttur þar sem ekki var ógilt synjun Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertrar (SHH) um túlkaþjónustu í sumarbúðum fyrir daufblind ungmenni sem haldnar voru í Svíþjóð í sumar.

Ungliðahreyfing ÖBÍ beinir þeim tilmælum til dómsvalda að þau virði félagsleg réttindi borgaranna. Einnig skorar hreyfingin á Alþingi að lögfesta Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF), þar sem meðal annars réttur til túlkaþjónustu kemur skýrt fram.

Nánar um mál Áslaugar og dóm Hæstaréttar

 

Yfirlýsing Ungliðahreyfingar ÖBÍ vegna dóms Hæstaréttar í máli er varðar túlkaþjónustu

Nýverið féll dómur í Hæstarétti í máli Áslaugar Ýrar Hjartardóttur gegn Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH) og íslenska ríkinu, þar sem rétturinn hafnaði að ógilda synjun SHH um endurgjaldslausa túlkaþjónustu vegna þátttöku í sumarbúðum erlendis fyrir daufblind ungmenni.

Í dómnum segir: „…kostnaður vegna þjónustunnar hefði numið 18% af því fé sem til umráða var fyrir tímabilið júlí til september 2017…veiting þjónustunnar orðið til þess að fjármagn til þjónustunnar hefði hvorki enst út framangreint tímabil né virt jafnræði notenda hennar.“ 

Það er fráleitt að fjárveitingar Alþingis takmarki stjórnarskrárvarin mannréttindi. Auk þess á jafnræðisreglan ekki síður að gilda um fatlað sem og ófatlað fólk en fatlaða einstaklinga innbyrðis. Að neita daufblindum einstaklingi um túlkaþjónustu takmarkar möguleika viðkomandi til samfélagsþátttöku til jafns við aðra.

Ungliðahreyfing ÖBÍ harmar því ofannefndan dóm Hæstaréttar og beinir þeim tilmælum til dómsvalda að þau virði félagsleg réttindi borgaranna. Einnig skorar Ungliðahreyfingin á Alþingi að lögfesta Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, þar sem meðal annars réttur til túlkaþjónustu  kemur skýrt fram.