Skip to main content
AðgengiFrétt

Úrbóta þörf í samgöngumálum

„Strætó segir [að strætisvagnar eigi að vera aðgengilegir]. Við hins vegar fórum í að skoða, í samstarfi við Strætó, hversu aðgengilegir vagnarnir eru og hversu aðgengilegar biðstöðvar eru. Þessir vagnar eiga vissulega að vera aðgengilegir, það eru hlerar sem á að vera hægt að lyfta út fyrir farþega í hjólastól og það er svæði þar sem á að vera hægt að festa stólana með bakið í akstursátt.

En það má segja að bæði Strætó og fatlað fólk hafi í fjölda ára eiginlega ekki áttað sig á því að þetta væri raunhæfur ferðamáti fyrir hreyfihamlaða, þá var ástandið á þessum vögnum alls konar. Einn vagn sem við skoðuðum hjá þeim, í honum var hlerinn bara ryðgaður fastur við gólfið. Beltin sem á að nota til að festa hjólastóla voru þá í mörgum tilfellum biluð eða of stutt,“ segir Stefán Vilbergsson, verkefnastjóri hjá ÖBÍ réttindasamtökum, í viðtali sem Heimildin birti á dögunum og má lesa hér:

https://heimildin.is/grein/18533/

Ljóst er að ýmislegt þarf að laga í samgöngumálum á Íslandi eins og ÖBÍ réttindasamtök benda á í umsögn sinni um samgönguáætlun. Aðeins ein biðstöð fyrir Strætó af alls 168 á landsbyggðinni telst með gott aðgengi fyrir fatlað fólk samkvæmt úttekt sem VSÓ ráðgjöf vann fyrir ÖBÍ í fyrra.

Í þessari sömu skýrslu segir að árið 2020 hafi Reykjavíkurborg gert úttekt á biðstöðvum innan borgarinnar, sem eru alls 556, þar af 375 með biðskýli. Niðurstaðan var að aðeins fjórar stöðvar væru með gott aðgengi og ellefu með gott eða mjög gott yfirborð. „Í kjölfarið var gerð áætlun um uppbyggingu þeirra og nýjar biðstöðvar hafa verið ágætlega aðgengilegar. Áætlun um að laga eldri biðstöðvar er hins vegar stopp vegna fjárhagsstöðu borgarinnar,“ segir Stefán við Heimildina.