Skip to main content
Frétt

Útfærsla breytinga örorkulífeyris frá áramótum

By 23. nóvember 2020No Comments
Sú hækkun örorkulífeyris sem boðuð er frá og með áramótum, felst fyrst og fremst í því hvernig framfærsluuppbót er reiknuð út.

Framfærsluuppbót er flokkur greiðslna með heimild í lögum um félagslega aðstoð.

Sú hækkun sem boðuð er nú, er sérstaklega sniðin að þeim sem ekki hafa aðrar atvinnutekjur, þar með taldar lífeyristekjur, og njóta framfærslu uppbótar. Vegna þessarar aðferðar, nær þessi hækkun ekki til þeirra sem ekki búa á Íslandi.

Sú breyting er gerð að í stað þess að tekjutrygging komi að fullu til frádráttar við útreikning framfærsluuppbótar, verði 95% tekjutryggingar til frádráttar við útreikning framfærslu uppbótar.

Breytingin skilar tekjulægstu öryrkjunum tæplega 8000 króna viðbótarhækkun á mánuði. Hér eru ráðstöfunartekjur, þ.e. upphæðir eftir skatt. Að viðbættum 3.6% almennri hækkun almannatrygginga um áramót, um þessi hópur fá um 19.500 króna hækkun ráðstöfunartekna, á mánuði.

Þessi aðgerð nær til um 7.800 lífeyrisþega, það er, þeir sem fá hámarkshækkun. Það er um 36% allra öryrkja. Þetta er sá hópur sem engar aðrar tekjur hafa en almannatryggingar.

Hér er línurit sem sýnir breytingu ráðstöfunartekna þeirra sem hafa jafnframt lífeyristekjur. Þar sést að aðeins fer að draga úr hækkuninni við 20þ. kr. tekjur úr lífeyrissjóði. Hækkun ráðstöfunartekna er lóðrétti ásinn, tekjur sá lárétti.

 

Hér er samskonar mynd, sem sýnir áhrif atvinnutekna. Lóðrétti ásinn: aukning ráðstöfunartekna, sá lárétti: tekjur.

Desemberuppbót og 50.000 kr. eingreiðslan

Nokkrar spurningar hafa svo vaknað með desemberuppbót, og 50.000 kr. eingreiðsluna.

Ekki er verið að gera breytingar á desemberuppbót. Desemberuppbót er reiknuð sem hlutfall af tekjutryggingu og heimilisuppbót. Nánar tiltekið 30%, og þá hlutfallslega eftir því hvað stóran hluta ársins viðkomandi hefur fengið þær greiðslur.

Þannig er full desemberuppbót þess sem jafnframt fær heimilisuppbót, 61.839 kr. Án heimilisuppbótar er desemberuppbótin 46.217 kr.

Desemberuppbót er skattskyld, og hún skerðist af öðrum tekjum, sökum þess að hún er hlutfall tekjutryggingar.

50 þúsund króna eingreiðslan er aðeins bundin því að viðkomandi hafi átt lífeyrisrétt á árinu 2020. Sú eingreiðsla skerðist ekki, og telst ekki til skattskyldra tekna. Hún kemur því ekki niður á fólki annars staðar.

Tekju og eignaviðmið

Við höfum ekki haft fregnir af því að breyta eigi tekju- og eigna viðmiðum samhliða þessum breytingum, og ÖBÍ er þessa dagana að vinna að þvi að skýra það mál. Framundan eru fundir með m.a. sveitarstjórnarfólki, og vonandi ráðherra.

Það hlýtur að vera vilja ráðherra að þessi hækkun sem boðuð er um áramót, skili sér að fullu í vasa öryrkja, en verði ekki tekin til baka af ríki eða sveitarfélögum í formi lækkaðs húsnæðisstuðnings til að mynda.