Skip to main content
FréttHúsnæðismál

Úthlutun húsnæðis ógegnsæ og ófyrirsjáanleg

By 8. september 2022september 26th, 2022No Comments

Kjartan Ólafsson, ungur fatlaður maður, hefur unnið fullnaðarsigur í máli sínu gegn Reykjavíkurborg. Málið var höfðað vegna verklags borgarinnar í kringum biðlista fatlaðs fólks eftir húsnæði með þjónustu. Það er fordæmisgefandi fyrir þá sem eru á biðlista eftir slíku húsnæði hjá borginni og öðrum sveitarfélögum sem hafa viðhaft sama verklag við röðun á biðlista.

Foreldrar Kjartans höfðuðu málið fyrir hans hönd vorið 2020 og Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Kjartani í vil 16. júní ári síðar. Borgin undi ekki dóminum og áfrýjaði til Landsréttar og var málið komið á dagskrá réttarins á morgun, föstudag. Í vikunni ákváðu svo borgaryfirvöld að falla frá áfrýjun og una dómi héraðsdóms.

Flóki Ásgeirsson, lögmaður Kjartans, segir niðurstöðu dómsins fela í sér að verklag það sem borgin viðhafði hafi í tilviki Kjartans falið í sér miskabótaskylda meingerð gegn honum. Þá sagði hann ljóst að sveitarfélögum sé skylt að breyta verklagi sínu við röðun á biðlista, jafnframt að einstaklingar sem sætt hafa sömu meðferð og Kjartan kunni að eiga samskonar bótarétt og hann á hendur sínu sveitarfélagi.

Í dómi héraðsdóms segir:
„Sökum þessa ógegnsæis er stefnanda í raun ómögulegt að vita hvort hann sé næstur í röðinni eftir húsnæði eða hvort hann er aftastur í röðinni. Af málatilbúnaði stefnda verður sú ályktun þannig dregin að úthlutun húsnæðis til fatlaðra sé með öllu ógegnsæ og algerlega ófyrirsjáanleg fyrir umsækjendur eins og stefnanda.

[…]

Við svo óljósar aðstæður verða réttindi stefnanda til húsnæðis einungis í orði en ekki á borði þar sem stefndi hefur beinlínis ákveðið að gera ekki einstaklingsbundna áætlun um úrlausn umsóknar stefnanda. Eins og málið liggur fyrir hefur stefndi kosið að velja úr hópi umsækjenda þá sem úthlutað er húsnæði hverju sinni á grundvelli eigin mats á umsækjendahópnum og á eigin forsendum, án þess að stefnandi hafi nokkra hugmynd um stöðu sína við þá úthlutun. Eins og mál þetta liggur fyrir er þannig í raun ómögulegt að greina hvort þær úthlutanir fari málefnalega fram.“