Skip to main content
FréttMálefni barnaMálþing og ráðstefnur

Vel heppnaður hugmyndafundur ungs fólks

By 7. nóvember 2022No Comments
Emmsjé Gauti heilsar upp á hópinn.

Hugmyndafundur ungs fólks var haldinn á Grand hótel í Reykjavík um helgina. Þangað mætti fatlað fólk, systkini þeirra og ungt fólk með fatlaða foreldra og voru þátttakendur á aldrinum 13 til 18 ára. Efni fundarins var hvað sé gott og hverju þurfi að breyta í íslensku samfélagi. Til dæmis í skólakerfinu, tómstundum, íþróttum, aðgengismálum og öðru.

Leiðbeinendur frá KVAN riðu á vaðið og hristu hópinn saman með leikjum og fjöri. Við tók svo vinnutörn þar sem rætt var um stöðuna í samfélaginu. Miklar umræður sköpuðust og ýmsar ábendingar og hugmyndir að lausnum komu fram.

Emmsjé Gauti setti svo punktinn yfir i-ið þegar hann heilsaði upp á hópinn, flutti nokkur lög og ræddi um sína reynslu og mikilvægi þess að hafa trú á því að draumar geti ræst.

Málefnahópur ÖBÍ um málefni barna stóð fyrir fundinum sem var mjög vel heppnaður og var skipulagning og utanumhald í höndum þeirra Elínar Hóe Hinriksdóttur formanns og Andreu Valgeirsdóttur starfsmanns hópsins.

Elín Hóe sagðist af þessu tilefni fagna því að raddir ungs fólks fengju að heyrast, að hlustað væri á hugmyndir þess og skoðanir og lagði áherslu á mikilvægi þess að aðstoða ungt fólk við að koma ábendingum sínum á framfæri við stjórnvöld.