Skip to main content
FréttKjaramál

Verðbólga þegar étið upp hækkanir ársins. Ályktun málefnahóps um kjaramál

By 13. mars 2022ágúst 31st, 2022No Comments
Málefnahópur Öryrkjabandalagsins um kjaramál samþykkti á fundi sínum ályktun um stöðu efnahagsmála og þá staðreynd að verðbólga síðustu 12 mánaða er nú komin yfir 6% og lítið í stöðunni sem bendir til að hún fari lækkandi. Áhrif ófriðar í Evrópu hafa enn lítil áhrif haft en ljóst að ef ekki verður á breyting þar, munu þau áhrif birtast okkur í hærri verðbólgutölum, og jafnvel kreppu.

 

ÁLYKTUN MÁLEFNAHÓPS ÖBÍ UM KJARAMÁL 10.3.2022

 

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir: Afkoma örorkulífeyrisþega verður áfram bætt með það að markmiði að bæta sérstaklega kjör þeirra sem lakast standa.

Öryrkjabandalag Íslands skorar á stjórnvöld að grípa strax til aðgerða í þessu skyni, í ljósi

þess að í febrúar 2022 mældist tólf mánaða verðbólga rúmlega 6% og stýrivextir Seðlabanka hækkuðu um 0,75 prósentustig á síðasta vaxtaákvörðunardegi. Hækkun örorkulífeyris hefur ekki áhrif á verðbólgu.

Seðlabankastjóri sagði kaupmátt heimilanna aldrei hafa verið meiri, en varaði við að frekari vaxtahækkanir væru yfirvofandi ef komandi kjarasamningar endurspegluðu ekki aðstæður.

Hann benti jafnframt á að sértækar aðgerðir þurfi fyrir ákveðna hópa samfélagsins.

Örorkulífeyrisþegar hafa ekki orðið varir við aukningu kaupmáttar, kjör þeirra hafa stöðugt dregist aftur úr almennri launaþróun, frá 2009. Örorkulífeyrir hækkaði um 4,6% um síðustu áramót, auk sérstakrar 1% viðbótarhækkunar til þess að bæta fyrir hærri verðlagsþróun ársins 2021 en gert hafði verið ráð fyrir. Í þessu fólst viðurkenning á að hækkun bóta almannatrygginga fyrir árið 2021 var of lág. Sama staða er uppi núna, nú er spáð 5,8% verðbólgu á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en verðbólga er 6,7% ef miðað er við breytingar frá 4. ársfjórðungi 2021.

Seðlabankastjóri sagði heimilin verða að draga úr neyslu, en skýrsla Vörðu frá 2021 um stöðu fatlaðs fólks sýnir að meira en 70% fatlaðra eiga erfitt eða mjög erfitt að ná endum saman. Fatlað fólk er nú þegar komið að ystu þolmörkum. Meira en helmingur þeirra sem hafa framfæri af örorkulífeyri ver 50-80% ráðstöfunartekna í húsaleigu. Í kjölfar hækkaðra vaxta er búist við enn frekari hækkun húsnæðiskostnaðar. Tæplega tveir þriðju fatlaðra geta ekki mætt óvæntum útgjöldum, svo sem tannlæknakostnaði eða viðgerð á bíl. Fjórðungur fatlaðra hefur ekki efni á staðgóðri máltíð annan hvern dag og rúmlega þriðjungur fatlaðra foreldra getur ekki veitt börnum sínum eins næringarríkan mat og börnin þurfa. Að auki geta allt að 20% fatlaðra foreldra ekki greitt áskrift að skólamáltíðum barna sinna.

Kjarasamningar eru í uppnámi í kjölfar hækkunar stýrivaxta og yfirlýsinga seðlabankastjóra. Vert er að minna á að þau sem fá örorku- eða endurhæfingarlífeyri hafa engan samningsrétt, þau fara ekki í kjarasamninga og geta engin áhrif haft á eigin kjör.

Félagsmálaráðherra hefur lýst yfir ríkum vilja til að endurskoða almannatryggingakerfið svo langþráðar leiðréttingar á kjörum fatlaðs fólks komist loks til framkvæmda. Það er hins vegar ljóst að fatlað fólk getur ekki beðið þess við óbreyttar fjárhæðir. Þær einfaldlega duga ekki til framfærslu. Nú er tími til að hefjast handa.