Skip to main content
Frétt

„Við hljótum að geta gert betur en þetta“

By 28. apríl 2018No Comments

„Stjórnendur heilbrigðismála, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, já málefni fatlaðra heyra nefnilega undir sveitarfélögin, verða að bregðast við þeirri miklu húsnæðis- og umönnunarþörf þeirra sem lenda í áföllum sem heilablóðfalli og tengdum sjúkdómum.  Það er ekki boðlegt að bjóða ungu fólki pláss á öldrunarheimili, hugsanlega til áratuga dvalar.  Við hljótum að geta gert betur en þetta.“

Þetta segir í vikupósti frá Gísla Páli Pálssyni, forstjóra hjá Mörk hjúkrunarheimili og framkvæmdastjóra Áss í Hveragerði. Yfirskrift bréfins er Ungir á öldrunarheimilum.

Orð Gísla Páls eiga mikið erindi í umræðu síðustu daga. Við tökum okkur það bessaleyfi að birta bréf hans hér í heild sinni:

Ungir á öldrunarheimilum

„Í byrjun þessarar viku var umfjöllun fréttastofu RÚV um ungan mann, 34 ára, sem var tilnefndur til að koma í laust pláss í Mörkinni á venjulegt heimili þar sem meðaldur heimilismanna var 83 ár.  Þessi ungi maður hafði fengið heilablóðfall fyrir nokkrum mánuðum, var að ljúka endurhæfingu á Grensás og eftir því sem ég best veit þá var ekki hægt að gera neitt meira fyrir hann varðandi endurhæfingu.  Vegna heilablóðfallsins er hann allsendis ófær um að sjá um sig sjálfur og vantaði því varanlegan samastað.

Nú er það svo að þegar losnar pláss á öldrunarheimili þá tilnefnir viðkomandi færni- og heilsumatsnefnd tvo einstaklinga sem stjórnendur heimilisins er síðan gert að velja úr.  Í þetta skiptið tilnefndi nefndin á höfuðborgarsvæðinu tvo einstaklinga, annan 34 ára og hinn 35 ára til að koma í pláss á heimili hjá okkur í Mörkinni þar sem meðalaldur er 83 ár.  Í alla staði óviðunandi fyrir viðkomandi einstaklinga, aðstandendur þeirra og aðra sem að málinu koma. 

Ég man sem ungur drengur, upp úr 1970, eftir tveimur einstaklingum á Grund sem fóru þangað mjög ungir og dvöldu þar ævilangt.  Gestur og Anna.  Þau eru látin fyrir einhverjum áratugum.  Bæði áttu við fötlun að stríða og á þeim tíma þegar þau koma inn á Grund, líklega upp úr 1960, var ekki mikið fyrir sambýlum að fara í íslensku þjóðfélagi.  Þetta þótti ef til vill ekkert óeðlilegt á þeim tíma.  Sennilega voru þeir fötluðu heima við í umsjón ættingja ef þeir komust ekki inn á öldrunarheimili.  Ef til vill á sjúkrahúsum.  Síðan þá hefur mjög mikið vatn runnið til sjávar og í raun óskiljanlegt að ofangreind staða með þessa tvo ungu menn skuli vera komin upp í okkar annars ágæta samfélagi.

Stjórnendur heilbrigðismála, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, já málefni fatlaðra heyra nefnilega undir sveitarfélögin, verða að bregðast við þeirri miklu húsnæðis- og umönnunarþörf þeirra sem lenda í áföllum sem heilablóðfalli og tengdum sjúkdómum.  Það er ekki boðlegt að bjóða ungu fólki pláss á öldrunarheimili, hugsanlega til áratuga dvalar.  Við hljótum að geta gert betur en þetta.“