Skip to main content
Frétt

Viðbrögð Pírata, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks

By 8. maí 2021No Comments
Öryrkjabandalagið leitaði viðbragða allra stjórnmálaflokka við þeim mun á framlagi til velferðarmála milli Íslands og annarra Norðurlanda. Hér fara svör Pírata, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, óstytt. Stytt útgáfa af svörunum birtist í Fréttablaðinu 8. maí. 

Píratar:  Lífeyrir ætti að vera 50% hærri

Af hverju ver Ísland svona mikla lægra hlutfalli til velferðakerfisins en nágrannalöndin?
Stutta svarið er að ég veit það ekki. Það er augljóst að það er pólitísk ákvörðun en hvers vegna sú ákvörðun hefur ítrekað verið tekin á undanförnum tveimur áratugum er ekki augljóst því það er tekin ný ákvörðun í hverjum fjárlögum. Staðreyndin er sú að lífeyrir almannatrygginga ætti að vera um það bil 50% hærri en hann er ef hann ætti að halda í við launaþróun og verðbólgu. Það er pólitísk ákvörðun að láta ekki lífeyrir fylgja þeirri þróun. Það sem vantar upp á varðandi lífeyrir dugar eitt og sér ekki til þess að útskýra þennan mun. Það sem vantar upp á útskýrist líklega út af þeim mun sem er á aldri samanburðarþjóða, en það er munur sem við munum
jafna á næstu 20 árum eða svo. Þangað til verðum við líklega með ódýrara velferðarkerfi.

Er vilji til að breyta þessu af hálfu þíns flokks?
Já. Til að byrja með þarf auðvitað að framfylgja lögum um almannatryggingar og láta lífeyri fylgja raunbreytingum á launarþróun eða verðbólgu. Við höfum lagt fram frumvarp um að útreikningurinn fylgi þeirri aðferð sem notuð er til þess að endurreikna laun kjörinna fulltrúa. Það verður svo stærra verkefni að raunleiðrétta lífeyrir undanfarinna tveggja áratuga. Kerfið er of flókið núna, með of mörgum fátæktargildrum sem festir fólk í lágtekjuvítahring. Þann vítahring verðum við að brjóta með því að afnema skerðingar og styrkja nýsköpun í störfum sem henta öllum.

Vilt þú draga úr tekjuskerðingum fyrir öryrkja sem fara út á vinnumarkað eða halda þeim óbreyttum?
Já við viljum draga úr tekjuskerðinum. Við höfum verið að skoða kosti borgaralauna á undanförnum árum og teljum að það sé hægt að stíga þau skref í velferðarkerfinu að útrýma tekjuskerðingum. 

Samfylking: Þurfum algera endurskoðun

Af hverju ver Ísland svona mikla lægra hlutfalli til velferðarkerfisins en nágrannalöndin?

Undanfarin ár hefur það verið helsta forgangsmál ríkisstjórna að greiða niður skuldir ríkisins. Það þarf að gera en með skynsamlegum hætti. Forgangsröðun undanfarin ár hefur haft áhrif á efnahagslífið og komið niður á fjármögnun velferðarkerfisins. Innviðaskuldin hefur í staðinn hlaðist upp í velferðar-, heilbrigðis- og menntakerfinu líkt og í vegakerfinu.

Er vilji til að breyta þessu af hálfu þíns flokks?

Já, Samfylkingin vill ráðast í ákveðnar breytingar á velferðarkerfinu. Ljóst er að margt má þar betur fara. Almannatryggingakerfið byggir í of ríkum mæli á skerðingum og tekjutengingum og er hvorki nógu almennt né nógu sterkt. Alltof margir falla á milli kerfa, festast í fátæktargildru eða lifa í einsemd og einangrun. Alltof margir þurfa að óttast um lífsafkomu sína, neita sér um nauðsynlega læknisþjónustu, nauðsynleg lyfjakaup eða alast upp í fátækt.

Samfylkingin vill snúa vörn í sókn. Enginn á að þurfa að reiða sig á ölmusu í einu ríkasta samfélagi heims. Almenningur á Íslandi á skilið sterka almenna velferðarþjónustu að norrænni fyrirmynd, víðtækar félagslegar tryggingar sem tryggja lífsafkomu okkar gegn áföllum og fátækt, jafnt aðgengi að fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem völ er á, myndarlegan stuðning við börn og foreldra, aðstoð þegar aðstoðar er þörf, húsnæðisöryggi, mannréttindi og síðast en ekki síst virðingu. Ekkert barn á að búa við fátækt eða skert tækifæri til náms og frístunda vegna fjárhagsstöðu foreldra sinna. 

Við teljum eina af meginskyldum okkar í stjórnmálum að standa vörð um réttindi almennings til almanna- og atvinnuleysistrygginga.Það eru mikil verðmæti fólgin í þessum réttindum en því miður hafa þau þróast til verri vegar á undanförnum árum. Við viljum styrkja atvinnuleysis- og almannatryggingar til að þær geti þjónað tilgangi sínum með fullnægjandi hætti. Greiðslur atvinnuleysis- og almannatrygginga eiga að sjálfsögðu að tryggja mannsæmandi framfærslu og hækka árlega í samræmi við raunverulega launaþróun í landinu. Þess vegna lagði Samfylkingin fram frumvarp á Alþingi um hækkun elli- og örorkulífeyris í samræmi við hækkanir lífskjarasamningana. Því miður naut frumvarpið ekki stuðnings nægilega margra stjórnmálaflokka.

Vilt þú draga úr tekjuskerðingum fyrir öryrkja sem fara út á vinnumarkað eða halda þeim óbreyttum?

Samfylkingin einsetur sér að ráðast af krafti gegn allt of háum jaðarsköttum og vinnuletjandi skerðingum, einkum í almannatryggingakerfinu en einnig vegna barnabóta, sem byrja nú að skerðast við lægstu laun.

Við leggjum sérstaka áherslu á að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna öryrkja, því markmiðið er að sem flestir geti verið í vinnu við hæfi. Þá má kerfið ekki halda aftur af fólki þannig að það festist í fátæktargildru.

Raunar teljum við í Samfylkingunni nauðsynlegt að ráðast í algjöra endurskoðun á almannatryggingakerfinu. Við viljum endurskoða það í heild sinni með það fyrir augum að móta betra og réttlátara kerfi. Draga úr flækjum og gera kerfið mannúðlegra og skiljanlegra. 

Aðalatriðið er að vinda ofan af kjaragliðnun undangenginna ára með því að hækka lífeyrisgreiðslur en einnig er þörf á að draga úr ýmsum þeim hindrunum, skerðingum, skilyrðingum og bið eftir réttum greiðslum, sem gerir almannatryggingakerfið of þungt í vöfum.

Sjálfstæðisflokkur:  Framlög vaxið mest hér

Af hverju ver Ísland svona mikla lægra hlutfalli til velferðarkerfisins en nágrannalöndin?

Hér á landi er þriðjungi útgjalda ríkisins varið til félags-, húsnæðis- og tryggingamála. Að heilbrigðismálum meðtöldum fer meira en helmingur allra útgjalda ríkissjóðs til þessara málaflokka. Mikilvægt er að alþjóðlegur samanburður  fari fram á réttum forsendum, þar sem ólík uppbygging kerfa milli ríkja er tekin inn í myndina. Hér eru lífeyrisgreiðslur að stórum hluta greiddar úr starfstengdum lífeyrissjóðum og séreignasparnaði en ekki  úr ríkissjóði.  Af þeim sökum verða útgjöld til velferðarkerfisins lægri en í löndum þar sem meirihluti lífeyrisgreiðslna er fjármagnaður með skatttekjum á hverjum tíma.  

Í tölum OECD má sjá að hin Norðurlöndin verja stærri hluta sinna útgjalda til lífeyrisgreiðslna en Ísland. Séu þessi útgjöld undanskilin í samanburðinum verður munurinn á þeim hluta landsframleiðslunnar sem varið er til velferðarmála mun minni. Í Finnlandi fer hlutfallið niður í 17% og 18% í Noregi og Svíþjóð, samanborið við 15% hér á landi. Munurinn er því umtalsvert minni en gefið er til kynna.   

 

 

Hlutfall ellilífeyrisgreiðslna af VLF % 

 

Greiðslur til velferðarmála alls sem hlutfall af VLF % 

 

Hlutfall til velferðarmála að ellilífeyrisgreiðslum undanskildum 

Denmark 

8,0 

28,3 

20,3 

Finland 

11,8 

29 

17,2 

Iceland 

2,6 

17,4 

14,8 

Norway 

6,9 

25,3 

18,4 

Sweden 

7,2 

25,5 

18,3 

 

Er vilji til að breyta þessu af hálfu þíns flokks? 

Framlög til velferðarmála hafa vaxið mest hér á landi af Norðurlöndunum milli 2015 og 2019. Á bak við þá aukningu eru m.a. umfangsmiklar kerfisbreytingarnar sem ráðist var í fyrir ellilífeyrisþega árið 2017 og stóraukin framlög til heilbrigðismála á tímabilinu. 

Útgjöld til málefna öryrkja sem hlutfall af heildargjöldum ríkissjóðs jukust úr 6,7% í 7,5% milli 2017 og 2020 og hefur hlutfallið aldrei verið jafn hátt. Í fjárlögum ársins 2021 er gert ráð fyrir að útgjöld til málaflokksins verði 83,6 milljarðar króna eða 8% hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum 2020. Milli áranna 2017 og 2020 hafa örorkubætur hækkað um 30 þúsund krónur á mánuði á hvern örorkulífeyrisþega frá því að þessi ríkistjórn tók við og eru þá undanskildar þær breytingar sem gerðar voru um síðustu áramót til að bæta hag tekjulægstu örorkulífeyrisþeganna. 

Þannig urðu varanlegar breytingar á örorku- og endurhæfingarlífeyri almannatryggingakerfisins frá 1. janúar sl. Þar var dregið úr innbyrðis skerðingum í kerfinu sem skilar tekjulægstu örorkulífeyrisþegunum 8 þúsund króna viðbótarhækkun á mánuði umfram þá 3,6% hækkun sem gert er ráð fyrir í fjárlögum ársins. Heildarhækkun mánaðarlegra bóta almannatrygginga til tekjulægstu lífeyrisþeganna var því 19.700 kr. eða 6,1% um síðustu áramót. Þá voru skerðingarmörk barnabóta hækkuð í byrjun árs.  

Áfram mætti lengi telja, en það er hins vegar mikilvægt að útgjöld séu ekki eini mælikvarðinn á árangur. Það sem mestu máli skiptir er hvernig tekjur og lífskjör hópsins þróast. Þar hefur okkur gengið vel, heildartekjur tekjulægstu örorkulífeyrisþeganna hafa til að mynda hækkað um þriðjung frá því að þessi ríkisstjórn tók við enda markvisst verið farið í aðgerðir til að bæta kjör lífeyrisþega. 

Samandregið höfum við náð miklum árangri í að bæta kjör öryrkja, en ætlum að gera enn betur og halda áfram að bæta lífskjör allra hópa á komandi árum.  

Vilt þú draga úr tekjuskerðingum fyrir öryrkja sem fara út á vinnumarkað eða halda þeim óbreyttum? 

Ég hef lengi talað fyrir því að við tökum upp nýja nálgun, sem m.a. fælist í starfsgetumati. Þar horfum við á kraftinn sem býr í fólki og einblínum á hvað fólk getur, frekar en einungis hvað það getur ekki. Markmiðið væri þannig að hvetja fólk til aukinnar atvinnuþátttöku, eins og hverjum og einum er fært. Til að liðka fyrir slíkum breytingum og auðvelda skrefin út á vinnumarkað hef ég talið rétt að ekki kæmi til tekjuskerðinga í nánar tiltekinn tíma.  

Það er allra hagur að fólk geti verið sem virkast í samfélaginu og ræktað hæfileika sína í auknum mæli og kerfið á tvímælalaust að stefna að því markmiði.