Skip to main content
Frétt

Viðbrögð Sósíalistaflokksins, Viðreisnar og Vinstri grænna

By 8. maí 2021No Comments
Öryrkjabandalagið leitaði viðbragða allra stjórnmálaflokka við þeim mun á framlagi til velferðarmála milli Íslands og annarra Norðurlanda. Hér fara svör Sósíalistaflokksins, Viðreisnar og Vinstri grænna, óstytt. Stytt útgáfa af svörunum birtist í Fréttablaðinu 8. maí.

Sósíalistaflokkurinn: Flatar bætur – bratt skattkerfi

Af hverju ver Ísland svona mikla lægra hlutfalli til velferðakerfisins en nágrannalöndin?
Sósíalískar lausnir lituðu ekki íslenskt samfélag í sama mæli og þróaðri velferðarríki Evrópu. Forysta flokka sem spruttu úr verkalýðs- og samvinnuhreyfingunni byggði ekki upp raunveruleg alþýðustjórnmál heldur skiptust á að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum og innleiða hægri stefnu hans í stað sósíalisma.
Er vilji til að breyta þessu af hálfu þíns flokks?
Sósíalistaflokkurinn vill að samfélagið sé byggt upp út frá þörfum, vonum og væntingum þeirra sem upplifa óréttlæti, hinna veiku og fátæku. Sósíalistar hafna því alfarið að ríkisvaldinu sé beitt til að bæta hag hinna auðugu og valdamiklu.
Vilt þú draga úr tekjuskerðingum fyrir öryrkja sem fara út á vinnumarkað eða halda þeim óbreyttum?
Skattkerfið er vettvangur fyrir tekjujöfnun, ekki almannatryggingar. Tekjuskerðingar eru tæki nýfrjálshyggjunnar til að brjóta niður almannatryggingar, eins og flatt skattkerfi er tæki hennar til að brjóta niður tekjujöfnun skattkerfisins. Sósíalistar vilja flatar bætur en bratt skattkerfi.
 

Viðreisn: Endurskoða tekjuskerðingar

Af hverju ver Ísland svona mikla lægra hlutfalli til velferðakerfisins en nágrannalöndin?

Í stuttu máli er ástæðan skortur á framtíðarsýn. Viðreisn hefur lagt áherslu á að efnahags- og velferðarmál séu samofin. Öllu máli skiptir að tryggja raunverulegar forvirkar aðgerðir til að koma í veg fyrir langtímavandamál og tryggja öllum mannsæmandi líf. Það hefur alltof lengi verið gripið til þess að plástra vandamálin með tímabundnum átökum í stað þess að ráðast að rótum þeirra, sem veldur því bæði að minna er lagt til málanna og að peningarnir nýtast verr. Ábyrgðin á því liggur hjá þeim stjórnmálaflokkum sem hafa farið með völd í samfélaginu okkar meira og minna frá lýðveldisstofnun.

Er vilji til að breyta þessu af hálfu þíns flokks?

Já. Viðreisn lítur á það sem þjóðhagslega nauðsyn að tryggja gott og öflugt velferðarkerfi. Að verja fjármunum í forvirkar aðgerðir og velferð bætir hagsæld þjóðarinnar og getur einnig sparað ríkinu töluverða fjármuni til lengri tíma. Við verðum að draga úr nýgengi örorku þar sem það er hægt og tryggja fyrsta flokks þjónustu til þeirra sem þurfa á stuðningi kerfisins að halda. Við segjum það ekki aðeins í orði heldur líka á borði. Við lögðum til dæmis fram frumvarp um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu sem var samþykkt í þinginu. Aukið aðgengi að þjónustu og einfaldara kerfi er lykilatriði í stefnu flokksins. Þá er ótalið allt sem ekki er metið til fjár. Ísland er lítið land og öflugt. Við eigum að geta gert betur í þessum efnum. 

Vilt þú draga úr tekjuskerðingum fyrir öryrkja sem fara út á vinnumarkað eða halda þeim óbreyttum?

Við höfum verið þeirrar skoðunar að það kerfi sem öryrkjar búa við í dag er allt of þunglamalegt og flókið. Við þurfum sveigjanlegra kerfi, sem mætir þörfum einstaklingsins en ekki öfugt. Það skortir á raunverulegar leiðir til að tryggja virkni fólks þrátt fyrir skerta starfsgetu. Það dregur úr líkum á félagslegri einangrun og enn frekari stoðkerfisvanda. Það á enginn að þurfa að fá minna en heildartekjur sem nemur lágmarkslaunum. Viðreisn telur mikilvægt að endurskoða almannatryggingakerfið með það að markmiði að einfalda það, gera það manneskjulegra og notendavænna. Einn liður í því er að taka tekjuskerðingar öryrkja til gagngerrar endurskoðunar.

Vinstri græn:  Fullur vilji til að bæta í

Af hverju ver Ísland svona mikla lægra hlutfalli til velferðakerfisins en nágrannalöndin?
Grundvallaratriðið þegar kemur að velferðarkerfinu sem er öryggisnet okkar samfélags er að það sé öflugt og styðji þau sem á því þurfa að halda. Þar þarf sérstaklega að tryggja framfærslu þeirra sem hafa ekki aðrar tekjur en greiðslur frá almannatryggingum. Þegar kemur að samanburði við önnur lönd líkt og vitnað er til þarf að líta til margra þátta þar sem mismunandi er hvernig velferðarkerfi eru samsett. Hér á landi er velferðarkerfið fjármagnað með aðkomu ríkis, sveitarfélaga og verkalýðshreyfingarinnar. Munur á framlögum eins og þau birtast í tölum OECD stafar að stórum hluta af framlögum til öldrunarmála vegna ólíkrar uppbyggingar lífeyriskerfa hér á landi og á Norðurlöndunum en hér á landi eru lífeyrisgreiðslur að stórum hluta greiddar úr söfnunarkerfum, þ.e. starfstengdum lífeyrissjóðum og séreignasparnaði en ekki af almannafé. Þetta gerir það að verkum að útgjöld til velferðarkerfisins verða lægri en í þeim löndum þar sem meirihluti lífeyrisgreiðslna kemur úr gegnumstreymiskerfum, þ.e. fjármagnaðar með skatttekjum á hverjum tíma. Aldurssamsetning þjóðarinnar spilar sömuleiðis inn í ásamt fleiri þáttum. 
 

Um helmingur allra útgjalda ríkisins á Íslandi fer til heilbrigðis- og velferðarmála. Á yfirstandandi kjörtímabili hafa útgjöld til beggja málefnasviða vaxið umtalsvert að raunvirði. Þannig hafa framlög ríkisins til velferðarmála aukist um 82,25% á yfirstandandi kjörtímabili, þar af hafa framlög til örorku og málefna fatlaðs fólks aukist um 53,6%. Það þýðir ekki að verkefninu að bæta velferðarkerfið sé lokið. Á næstu misserum þarf að halda áfram að bæta í, bæði til að bæta kjör þeirra sem reiða sig á bætur almannatrygginga til framfærslu og til að bæta þá þjónustu sem hinir mörgu þættir velferðarkerfisins bjóða upp á.

Er vilji til að breyta þessu af hálfu þíns flokks?

VG telur mikilvægt og leggur áherslu á að styrkja samneysluna og þar á meðal það sem að velferðarkerfinu snýr, til að tryggja að þau sem þurfa stuðning samfélagsins fái hann. Þau skref sem hafa verið stigin á þessu kjörtímabili hafa verið mikilvæg og það er fullur vilji til að halda áfram á þeirri vegferð og gera enn betur.

Vilt þú draga úr tekjuskerðingum fyrir öryrkja sem fara út á vinnumarkað eða halda þeim óbreyttum?
Já, það er mikilvægt að halda áfram að draga úr skerðingum í bótakerfum. Þær breytingar sem verða gerðar þurfa að vera þannig að þær komi þeim sem lakast standa best, og munu gerast í skrefum. Huga þarf sérstaklega að kjörum þeirra sem reiða sig alfarið á greiðslur frá almannatryggingakerfinu og hafa ekki aðrar leiðir til að bæta kjör sín.