Skip to main content
Frétt

Vilhjálmur Bjarni Vilhjálmsson er látinn

By 5. ágúst 2015No Comments

Fyrrum formaður ÖBÍ og framkvæmdastjóri Íslenskrar getspár í 13 ár.

Vilhjálmur var formaður Öryrkjabandalags Íslands 1983-1986 og sat í stjórn bandalagsins árin 1981-1986. Meðal verkefna sem hann kom að má nefna eftirfarandi: Hann var einn stofnenda endurhæfingarskóla fyrir fatlað fólk sem síðar varð Hringsjá náms- og starfsendurhæfing. Hann kom með hugmynd að tekjuöflun fyrir Öryrkjabandalagið með stofnun lottós. Eftir verulega baráttu varð úr að Íslensk getspá var stofnuð og þá í samstarfi við ÍSÍ og UMFÍ.

Vilhjálmur var fyrsti framkvæmdastjóri Íslenskrar getspár á árunum 1986-1999.

Víðar lét Vilhjálmur mikið til sín taka í félagsstörfum. Hann var í stjórn Foreldra- og styrktarfélags heyrnardaufra frá 1966-1984 og fyrsti formaður þess frá 1966-1969. Hann var formaður Félags hjartasjúklinga á Reykjavíkursvæðinu frá 1977 og í stjórn Landssamtaka hjartasjúklinga frá 1998. Einnig var hann í stjórn Félags íslenskra símamanna 1964-1974 og ritstjóri Símablaðsins 1968-1974.

Öryrkjabandalag Íslands þakkar Vilhjálmi allt hans góða brautryðjendastarf í þágu fatlaðs fólks og öryrkja á Íslandi.

Fjölskyldu hans og vinum sendir ÖBÍ innilegar samúðarkveðjur.