Skip to main content
Frétt

Viljum ekki sýndarsamráð

By 19. apríl 2016No Comments

Stjórn ÖBÍ ályktaði á stjórnarfundi þann 31. mars 2016 að ÖBÍ myndi ekki skipa fulltrúa í samráðshóp húsnæðis- og félagsmálaráðherra sem er falið að gera drög að lagafrumvarpi samkvæmt niðurstöðum skýrslu meirihluta nefndar um endurskoðun laga um almanntryggingar. Nefndinni stýrði Dr. Pétur H. Blöndal heitinn en Þorsteinn Sæmundsson fulltrúi Framsóknarflokksins tók við formennsku.

Fulltrúar ÖBÍ tóku virkan þátt í nefndarstarfinu frá hausti 2013 og allt þar til nefndin lauk störfum nú á vormánuðum 2016. ÖBÍ lagði fram tillögur um hvernig hægt væri að gera breytingar á almannatryggingakerfinu í skýrslunni „Virkt samfélag“ (en hana má finna hér).

Fulltrúar ÖBÍ í nefndinni voru Ellen Calmon formaður, Halldór Sævar Guðbergsson varaformaður tók sæti hennar og Klara Geirsdóttir frá CP félaginu. Varamenn þeirra voru Erna Arngrímsdóttir frá SPOEX og Grétar Pétur Geirsson frá Sjálfsbjörg.

Í stuttu máli þá hafa fáar eða engar af tillögum ÖBÍ ratað inn í lokaskýrslu meirihluta nefndarinnar. Þær tillögur sem liggja fyrir og á að nota við gerð lagafrumvarps þykja óásættanlegar ef litið er til mannréttinda.

Frétt var um málið í Fréttablaðinu 16. apríl 2016

http://www.visir.is/kaera-sig-ekki-um-meira-syndarsamrad/article/2016160419209

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) tekur ekki þátt í vinnu við gerð nýs frumvarps um endurskoðun almannatryggingakerfisins þrátt fyrir boð ráðherra þar um. „Það hvarflar ekki að okkur að taka þátt í frumvarpsvinnu sem við getum ekki skrifað undir mannréttinda vegna. Við getum ekki boðið fólki upp á svona kerfi,“ segir Ellen Calmon, formaður ÖBÍ.

Meirihluti nefndar um endurskoðun almannatryggingakerfisins skilaði skýrslu sinni til Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, 1. mars síðastliðinn. Fulltrúar minnihlutans og ÖBÍ skiluðu sér áliti.

Ellen segir vinnu hafna við gerð frumvarps sem byggi á niðurstöðum meirihlutans og ÖBÍ hafi verið boðið að taka þátt. „Við eigum að sitja þarna með sama fólkinu og við höfum setið með í nefnd í tvö og hálft ár.“ Allan þann tíma hafi ÖBÍ ekki komið neinni af sínum tillögum fram þrátt fyrir að hafa lagt til ítarlega skýrslu þar um. Skýrslan ber heitið „Virkt samfélag“ og var kynnt fyrir um ári síðan en þar koma fram þær helstu breytingar sem gera þyrfti á almannatryggingakerfinu samhliða því að horfið yrði frá örorkumatskerfi yfir í kerfi sem byggi á starfsgetumati.

„Nú á sama fólk og sat í nefndinni að skrifa frumvarpið, nema nú er stjórnarandstöðunni ekki boðið að taka þátt,“ segir Ellen. ÖBÍ er boðið upp á að sitja ein í hópi sem lokað hafi eyrunum fyrir tillögum samtakanna í tvö og hálft ár. Þeim hjá ÖBÍ sé misboðið að ekkert mark hafi verið tekið á faglega unnum tillögum heildarsamtaka fatlaðs fólks og örorkulífeyrisþega, með 41 aðildarfélag og 30 þúsund manns undir. 

„Þetta er sýndarsamráð. Það er ekki hægt að sjá eða finna á félagsmálaráðherra að hún hafi nokkurn tímann ætlað að hlusta á okkar tillögur.“ ÖBÍ gerir fjölda athugasemda við tillögur meirihlutans. Þar á meðal eru gagnrýndar auknar skerðingar á þann hóp fólks sem hafi minnsta starfsgetu. „Við getum ekki sætt okkur við að festa eigi fátækasta fólkið í fátæktargildru og ekki veita þeim neina möguleika á að afla sér aukatekna.“

Þá verði, samkvæmt tillögum meirihluta nefndarinnar, ekkert þak sett á þær tekjur sem fólk með 50 prósenta starfsgetumat megi vinna sér inn. „Þú getur verið með 800 þúsund krónur á mánuði og færð samt borguð 50 prósent frá Tryggingastofnun. Þetta er algjörlega galin hugmynd,“ segir Ellen. Í fyrsta lagi eigi almannatryggingar ekki að þurfa að greiða til fólks með rífandi tekjur og í öðru lagi sé vandséð hvernig haga eigi eftirliti með þessum málum. „Það er algjörlega órætt.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. apríl.