Skip to main content
Frétt

Villandi fréttaflutningur um hækkun bóta og launa í Morgunblaðinu

By 29. október 2015No Comments

Á forsíðu Morgunblaðsins í gær (22. október) birtst grein undir heitinu „Bætur að aukast meira en laun: Launin hækkuðu um 6,1%. Greiðslur trygginga um 10,5%“.[1] Greinin byggir á umfjöllun í nýjasta tölublaði Tíundar fréttablaðs RSK. Þar sem nýjasta tölublað Tíundar hefur ekki verið birt á heimasíðu RSK og ekki hefur náðst í starfsmenn RSK vegna verkfalls er hér hvorki hægt að vitna beint í greinina í Tíund né sannreyna tölur eða annað efni hennar. Undirrituð telja það ámælisvert að vitnað sé í grein sem er óaðgengileg.  

Fréttaflutningurinn í grein Morgunblaðsins og fyrirsögn hennar er villandi.  Í greininni er ekki farið rétt með staðreyndir m.a. um hækkun lífeyris almannatrygginga.  Því teljum við brýnt að koma á framfæri eftirfarandi staðreyndum: 

Lífeyrir almannatrygginga hefur frá árinu 2010 hækkað mun minna en launavísitalan  

Samanburður hækkunar lífeyris og launavísitölu 2010 – 2015.

 
2010
2011
2012
2013
2014
2015
Hækkun lífeyris %
0%
4,7%*
3,5%
3,9%
3,6%
3%
Hækkun launavísitölu %**
3,15%
4,4%
9,1%
5%
6,7%
6,3%

* 8,1% hækkun frá júní 2011 í kjölfar kjarasamninga ASÍ og SA. Á ársgrundvelli er hækkunin 4,73%.

**Vísitöluhækkun frá janúar árið á undan til janúar.

Lífeyrir almannatrygginga hefur síðustu ár hækkað mun minna en lægstu laun

Ef hækkanir lífeyris almannatrygginga eru bornar saman við hækkun lægstu launa er munurinn enn meiri. Frá 2010 til 2014 hafa lægstu laun hækkað 25.863 kr. meira en lífeyrir skv. lögum um almannatrygginga. Ef uppbætur skv. lögum um félagslega aðstoð eru teknar með er mismunurinn 22.187 kr. en rétt er að geta þess að eingöngu um þriðjungur lífeyrisþega fær slíkar uppbætur (heimilisuppbót og/eða framfærsluuppbót) greiddar. Ef árið 2015 er einnig tekið með er munurinn mun meiri eða 51.358 kr. meiri hækkun lægstu launa en lífeyris almannatrygginga. 

Fjölgun örorkulífeyrisþega í samræmi við fjölgun þjóðarinnar á aldrinum 18-66 ára

Af greininni má skilja það sem svo að fjölgun bótaþega síðustu ára sé mun meiri en fjölgun þjóðarinnar í heild. Staðreyndin er sú hvað varðar örorkulífeyrisþega að þeim hefur fjölgað einungis um 0,6% umfram fólksfjölgun, eins og sjá má hér að neðan: 

2010 voru 7,2% af öllum á aldrinum 18-66 ára með 75% örorkumat hjá TR

2014 voru 7,8% af öllum á aldrinum 18-66 ára með 75% örorkumat hjá TR.

Aðrar tekjur hafa dregist saman sem veldur hækkun lífeyrisgreiðslna frá TR

Í greininni kemur fram að greiðslur frá TR hafi hækkað um 10,5%, en ekki kemur fram hvaða greiðslur falla hérna undir. TR sér um ýmsar greiðslur til annarra hópa en elli-,  örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Viðskiptavinir TR árið 2014 voru rúmlega 70 þúsund talsins og voru örorkulífeyrisþegar 23% af þeim hópi.

Frá 2010 hafa aðrar tekjur lífeyrisþega en greiðslur frá TR lækkað. Hópur örorkulífeyrisþega missti lífeyrissjóðsgreiðslur sínar frá lífeyrissjóði eða þær lækkuðu vegna samspils almannatrygginga og lífeyrissjóða.  Fjármagnstekjur drógust mikið saman hjá ellilífeyrisþegum. Þetta eru meðal annars ástæður fyrir því að fleiri lífeyrisþegar fá lífeyrisgreiðslur frá TR og/eða hærri greiðslur, en TR bætir örorkulífeyrisþegum lækkunina aðeins að hluta. Auknar tekjutengingar í almannatryggingakerfinu gerðu það ennfremur að verkum að lífeyrisþegar höfðu minna á milli handanna. Á sama tíma voru miklar verðhækkanir á vörum og þjónustu, sérstaklega í heilbrigðisþjónustu [2] og á hjálpartækjum.

Slæm staða örorkulífeyrisþega staðreynd

Slæm staða örorkulífeyrisþega hefur komið fram víða í rannsóknum og öðru sem mælir fjárhagslega stöðu hópa í samfélaginu, s.s. vegvísum Hagstofu Íslands.[3]  Sama dag og greinin birtist í Morgunblaðinu kom fram í viðtali á RÚV[4] við upplýsingafulltrúa hjá embætti umboðsmanns skuldara að tekjulægri hópur leitar helst núna til umboðsmanns skuldara og þeir sem eru í erfiðri stöðu og nefndir hann að fjölgunin sé aðallega hjá öryrkjum.   

Undirrituð lýsa vonbrigðum sínum yfir fréttaflutningi Morgunblaðsins og telja að lífeyrisþegar og reyndar allir þeir sem fá greiðslur frá TR séu í greininni úthrópaðir sem afætur á vinnandi fólki.  Nær allir íbúar landsins fá á einhverjum tímapunkti í sínu lífi greiðslur frá TR og eru jafnframt skattgreiðendur. Greinin elur á fordómum og ranghugmyndum um fólk sem fær einhverjar greiðslur frá TR. 

Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður ÖBÍ

María Óskarsdóttir, formaður málefnahóps ÖBÍ um kjaramál.


[1] http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/10/22/baetur_ad_aukast_meira_en_launin/ oghttp://www.mbl.is/greinasafn/grein/1572176/?t=451011776&_t=1445625489.35
[2] http://www.ruv.is/frett/komugjold-til-laekna-haekka-allt-ad-75. Frétt dags. 22.1.2013.
[3] Hagtíðindi 2015:6. Félagsvísar: Skortur á efnislegum gæðum 2014. Hagstofa Íslands.
[4] http://www.ruv.is/frett/oryrkjar-og-leigjendur-til-umbodsmanns