Skip to main content
Frétt

Villandi tölur fjármálaráðherra í minnisblaði.

By 12. nóvember 2020No Comments
Benjamin Disraeli, breskur íhaldsmaður, sagði eitt sinn um lygina: Það eru þrjár skilgreiningar á ósannindum, lygi, haugalygi og tölfræði.
Innlendur íhaldsmaður, sem þó vildi eitt sinn vera frjálslyndur, setti fram tölfræði: Fjármálaráðherra hefur áhyggjur af hinum „aukna þunga í tilfærslukerfum“. Í minnisblaðinu sem hann kynnti ríkisstjórn í gær segir að „í ljósi þess tekjufalls sem ríkissjóður stendur frammi fyrir vegna heimsfaraldurs kórónuveiru mun hlutfall framlaga almannatrygginga að óbreyttu nema tæpum fjórðungi tekna ríkissjóðs af skatttekjum og tryggingagjaldi á næsta ári, í stað 14-15% áður“

 

Sem sagt, tekjur ríkissjóðs minnka, og föst útgjöld verða þar með hærra hlutfall af minnkandi tekjum. Þá er rétt að segja hlutina eins og þeir eru. Hlutfallið eykst fyrst og fremst vegna lækkandi tekna, ekki hækkandi gjalda. Framsetningin sem ráðherra velur er villandi. Og gleymum ekki kosningaloforðinu sem ráðherra gaf eldri borgurum fyrir nokkrum árum, stærsti hluti aukningar útgjalda til almannatrygginga hefur farið í að efna það. Öryrkjar hafa ekki fengið neitt.

 

Fjármálaráðherra vill líka sýna fram á hve gríðarleg fjölgun örorkulífeyrisþega hefur orðið og birtir máli sínu til stuðnings línurit.

 

Þar má sjá hlutfall örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og endurhæfingalífeyrisþega sem hlutfall af fólki á vinnufærum aldri. Einhverra hluta vegna tekur ráðherra þó sérstaklega út úr jöfnunni innflytjendur, eða erlent vinnuafl, eins og þessi hópur skipti engu máli í verðmætasköpun landsins.

Að taka þennan hóp út, er eiginlega óskiljanlegt. Innflutt vinnuafl er jú hluti af öllum öðrum þjóðhagsstærðum, skattgreiðslum, landsframleiðslu og svo mætti lengi telja.

 

Ráðherra er einnig ofarlega í huga fjölgun öryrkja á tímabilinu sem hann velur sér. 4300 einstaklingar, eða jafn margir og búa í Vestmannaeyjum. Setjum þessa tölu í samhengi. Á sama tíma hefur íbúum landsins fjölgað um 45.250. Það er aðeins rúmlega íbúatala Kópavogs og Seltjarnarness.

Hvað skyldi 4300 manns vera hátt hlutfall af þessari fjölgun? Jú 9,5%, en tafla ráðherra sýnir einmitt að fjöldi öryrkja sem hlutfall af mannfjölda er 9,2% og hefur verið undanfarin ár. Munurinn er 0,3 prósentustig, en hér höfum við í huga dugnað starfsmanna TR árið 2016 er þeir unnu niður uppsafnaðar umsóknir. Það skiptir nefnilega máli hvernig hlutirnir eru bornir fram.

 

 

Enda ef skoðað er hlutfallið, sem ráðherra vill meina að sé að ríða ríkissjóði að fullu, með öllum sem leggja til landsframleiðslunnar, sést að það breytist nær ekkert. Í raun hefur hlutfall örorkulífeyrisþega af fólki á vinnualdri, lækkað eða staðið í stað undanfarin ár. Það er nú öll hörmungin.

 

Eftir stendur sú tilfinning að tilgangur minnisblaðsins sé fyrst og fremst til að ýja að því að það séu öryrkjarnir sem frekastir eru á fleti.