Skip to main content
Frétt

Virðing fyrir réttindum allra

By 26. febrúar 2018No Comments
Utanríkisráðherra brýndi aðildarríki Sameinuðu þjóðanna til að virða grundvallarmannréttindi í ræðu sinni fyrir Mannréttindaráði SÞ í morgun.

Hann segir miklar framfarir hafa orðið í mannréttindamálum frá því að mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt. Hann fjallaði sérstaklega um réttindi kvenna og hinsegin fólks á fundi hjá Mannréttindaráði SÞ í morgun. Öryrkjabandalag Íslands fagnar áherslu ráðherra á mannréttindi en saknar þess að mannréttindi fatlaðs fólks hafi ekki ratað í ræðu hans.

„Þrátt fyrir miklar framfarir á þeim sjö áratugum sem liðnir eru frá samþykkt mannréttindayfirlýsingarinnar, til að mynda hvað varðar réttindi kvenna og hinsegin fólks, er ærin ástæða til að þrýsta áfram á víðtækari virðingu fyrir réttindum allra og sporna við afturför,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, að loknum ræðuhöldum á fundi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í morgun. „Við heyrum það hvarvetna að framlag Íslands á sviði mannréttinda skipti máli og Mannréttindaráðið er einn helsti vettvangurinn fyrir ríki að halda hvert öðru við efnið,” sagði ráðherrann enn fremur, en fjallað er um ræðu hans og hún birt í heild sinni á vef utanríkisráðuneytisins. 

Orð ráðherra um víðtækari virðingu fyrir réttindum allra eru gleðileg og undir það má taka að sporna verður við afturför. Hins vegar tekur ÖBÍ eftir því að ráðherra nefndi ekki réttindi fatlaðs fólks sérstaklega. Ekki síst í ljósi þess að Alþingi Íslendinga hefur þegar samþykkt Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samningurinn hefur hins vegar ekki innleiddur hér á landi. Það er eitt mikilvægasta baráttumál Öryrkjabandalags Íslands og rík ástæða til þess að hvetja ráðherrann til að beita sér af öllu afli í mannréttindamálum fatlaðs fólks.

Samningurinn felur í sér leiðarvísi um hvernig skuli tryggja fötluðu fólki mannréttindi til jafns við aðra í lífinu og gera fólki kleift að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Í samningnum segir meðal annars:

„Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar.“