Skip to main content
AðgengiFréttRéttarkerfi

Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu þarf að taka af skarið um að aðgengi sé mannréttindamál

Hinn 31. maí 2022 kvað Mannréttindadómstóll Evrópu upp dóm í máli Arnars Helga Lárussonar gegn Íslandi. Málið snýst um skort á hjólastólaaðgengi að tveimur opinberum byggingum sem hýsa menningar- og félagsmiðstöðvar á vegum sveitarfélags. Dómstóllinn taldi að skortur á hjólastólaaðgengi að þessum byggingum væri til þess fallinn að hafa áhrif á rétt kæranda til persónulegs þroska og til að koma á og þróa tengsl við aðra menn og umheiminn og að málið varðaði þar af leiðandi einkalíf kæranda í skilningi 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Af þessu leiddi jafnframt að 14. gr. sáttmálans, sem leggur bann við hvers kyns mismunun, átti við.

Þrátt fyrir að hafa talið að kærandi hefði með skýrum hætti tilgreint tvær byggingar sem virst hafi gegna mikilvægu hlutverki í menningar- og félagslífi sveitarfélags kæranda, og þrátt fyrir að hafa komist að því að skortur á aðgengi að þessum byggingum hefði hindrað þátttöku kæranda í verulegum hluta þess, komst dómstóllinn engu að síður að þeirri niðurstöðu að kæranda hefði ekki verið mismunað með tilliti til réttar hans til einkalífs skv. 8. gr. MSE andstætt 14. gr. sáttmálans. Þess í stað taldi dómstóllinn að krafa um aðgengi fyrir kæranda að byggingunum hefði í þessu tilviki falið í sér að óhófleg eða óeðlileg byrði væri lögð á sveitarfélagið.

Rökstuðningurinn á skjön við leiðbeiningar

Rökstuðningur dómstólsins í málinu er á skjön við leiðbeiningar nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að því er varðar túlkun samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. almennar athugasemdir nefndarinnar nr. 2 og 6, og erfitt að sjá að niðurstaða dómsins samrýmist orðalagi 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem skýrt er tekið fram að réttindi sáttmálans skuli tryggð án nokkurs manngreinarálits. Í niðurstöðu dómsins felst efnislega að útilokun fatlaðs einstaklings frá þátttöku í verulegum hluta menningarlífs í því sveitarfélagi þar sem hann býr jafngildi ekki mismunun í skilningi 14. gr. sáttmálans.

Beiðni kæranda um að málinu verði vísað til yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu er nú til meðferðar hjá dómstólnum. Verði fallist á beiðnina verður málið tekið til endurskoðunar hjá yfirdeildinni sem mun kveða upp nýjan dóm í málinu. Búist er við að ákvörðun um hvort málinu verði vísað til yfirdeildar dómstólsins liggi fyrir á næstu dögum.

Áhyggjur ÖBÍ

ÖBÍ hefur þungar áhyggjur af rökstuðningi og niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í þessu máli og telur afar mikilvægt að það verði tekið til endurskoðunar hjá yfirdeild dómstólsins. Fyrir milljónir Evrópubúa hefur Mannréttindadómstóll Evrópu verið dyggur vörður mannréttinda. Því miður hefur það ekki alltaf verið raunin fyrir fatlað fólk. Sá tilfinnanlegi skortur, sem birtist í þessu máli og fyrri málum dómstólsins, á því að viðurkenndur sé réttur fatlaðs fólks til að njóta mannréttinda til jafns við aðra, er því miður enn ein birtingarmynd þeirrar jaðarsetningar og mismununar sem mannréttindasáttmálum er ætlað veita vörn gegn.