Skip to main content
FréttSRFF

Yfirlýsing: Lögfestum samninginn!

Auglýsingaspjald með textanum: Örlögin eru í ykkar höndum stjórnvöld. Lögfestum samning sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

ÖBÍ réttindasamtök og Landssamtökin Þroskahjálp vilja árétta mikilvægi þess að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem verður mikil réttarbót fyrir fatlað fólk um land allt.

Nærri áratugur er liðinn frá því Ísland fullgilti samninginn og átján ár eru liðin frá undirritun hans. Íslenska ríkið hefur því þegar skuldbundið sig til þess að fara eftir ákvæðum samningsins og verður lögfestingin til þess að efla fatlað fólk til að geta sótt rétt sinn.

Samningurinn snýr ekki eingöngu að félagsþjónustu, heldur er hann öflugt tól fyrir stjórnvöld og samfélagið allt til að tryggja að fatlað fólk fái notið almennra réttinda og grundvallarfrelsis. Þetta er fyrst og fremst alþjóðlegur mannréttindasamningur sem fjallar um kerfisbreytingar, sjálfræði, virka þátttöku og jafnan rétt og stöðu á öllum sviðum samfélagsins.

Að undanförnu hefur verið fjallað um skýrslu sem HLH-ráðgjöf vann fyrir Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um kostnað við lögfestingu en útreikningarnir hafa ekki verið birtir opinberlega og því erfitt að fullyrða neitt um kostnaðinn.

Raunin er hins vegar sú að Ísland hefur nú þegar skuldbundið sig til að fara eftir ákvæðum samningsins. Þjónustan sem um er að ræða er nú þegar lögbundin og snýst um að tryggja full mannréttindi fatlaðs fólks, sem hlýtur að þykja eðlileg og sanngjörn krafa.

Sannarlega má ræða hvernig betur megi fjármagna málaflokkinn, en burtséð frá því er lögfesting samningsins grundvallarmál hvað viðkemur mannréttindum. ÖBÍ réttindasamtök og Landssamtökin Þroskahjálp hvetja ríki og sveitarfélög til að vinna að sameiginlegri lausn hvað varðar fjármögnun og sömuleiðis til að styðja við þetta mikilvæga framfaraskref.