Skip to main content
Frétt

Yfirlýsing málefnahóps ÖBÍ

By 20. september 2018No Comments

Yfirlýsing málefnahóps ÖBÍ um sjálfstætt líf vegna kröfu Sambands íslenskra sveitarfélaga um frestun gildistöku ákvæða um notendastýrða persónulega aðstoð

 

Með bréfi síðastliðinn föstudag fór Samband íslenskra sveitarfélaga þess á leit við félags- og jafnréttisráðherra að gildistöku laga sem taka eiga gildi þann 1. október verði frestað til áramóta.

Þessum tillögum hafnar málefnahópur Öryrkjabandalagsins um sjálfstætt líf algerlega. Tími seinkana og mannréttindabrota er liðinn.

Með því að tryggja rétt fatlaðs fólks til samninga um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) uppfylla opinberir aðilar skyldur sem ríkið hefur undirgengist samkvæmt Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Eftir fullgildingu samningsins árið 2016 ber ríkinu skylda til að tryggja öllu fötluðu fólki rétt til sjálfstæðs lífs og þátttöku í samfélaginu til jafns við aðra, sbr. 19. gr. samningsins. NPA samningar eru sú leið sem almennt er viðurkennt að sé besta leiðin til að tryggja sjálfstætt líf fatlaðs fólks.

NPA samningar veita fólki frelsi til samfélagslegrar þátttöku. Staðan í gegnum árin á Íslandi hefur verið sú að fötluðu fólki hefur verið haldið í stofufangelsum vegna þess að opinberir aðilar hafa ekki náð að tryggja rétt þess. Hver og einn mánuður sem dregst í að tryggja fólki sjálfstætt líf felur einfaldlega í sér frekari brot á mannréttindum fatlaðs fólks. Bið fólks í stofufangelsum er liðin og þolinmæði gagnvart mannréttindabrotum löngu þrotin.

Þær ástæður sem sambandið beitir fyrir sér í yfirlýsingu sinni eru niðurlægjandi fyrir fatlað fólk. Í fyrsta lagi ber sambandið það fyrir sig að ekki hafi tekist að hafa samráð við fatlað fólk í hverju sveitarfélagi og því skuli fara hægar í sakirnar. Svarið við þessu er augljóst: Rétt fatlaðs fólks til samráðs við opinbera aðila má aldrei nýta til þess að takmarka rétt þess að öðru leyti.

Önnur rök eru þau að reglugerð um NPA er ekki tilbúin. Rétt skal vera rétt. Lokaútfærsla hennar hefur ekki verið birt. Vinnu við reglugerðina er hins vegar lokið af hálfu ríkis, sveitarfélaga og hagsmunasamtaka Þetta er með öðrum orðum fyrirsláttur. Hér gilda jafnframt einnig sömu rök og áður. Það að tafist hafi að birta útfærslu á grunnréttindum fatlaðs fólks í formi reglugerðar, getur á engan hátt talist vera rökstuðningur fyrir því að skerða mannréttindi fatlaðs fólks.

Þriðju rökin sem komið hafa fram eru að ekki hafi farið fram kostnaðarmat á reglugerðinni. Tafir á réttindum fólks getur aldrei verið réttlættur á grundvelli þess að mat á kostnaði hafi ekki farið fram. Sveitarfélögin verða einfaldlega að átta sig á því að þeim hefur verið falin ábyrgð á því að tryggja grundvallarmannréttindi fólks. Umræða um kostnað á aldrei að takmarka réttinn, eins og sveitarfélög virðast því miður halda.

Með ofangreindum rökum er með öllu hafnað þessum tilraunum Sambands íslenskra sveitarfélaga til að tefja full og virk mannréttindi fatlaðs fólks. Jafnframt er lagt til við ráðherra félagsmála að flýta sinni vinnu til að eyða óvissu í málinu. Seinkun á gildistöku laganna er engum í hag.

Frestun á réttindum jafngildir neitun!

Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, formaður málefnahóps ÖBÍ um sjálfstætt líf