Skip to main content
Frétt

„Ýtt undir staðalmyndir um örorkulífeyrisþega sem byrði og svindlara“

By 31. ágúst 2015No Comments
Í grein Stundarinnar þann 28. ágúst 

síðastliðinn kemur fram að Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins, gagnrýni Vigdísi Hauksdóttur, formann fjárlaganefndarinnar, harðlega vegna rangra fullyrðinga um málefni bótaþega í viðtali við fréttastofu RÚV mánudaginn 24. ágúst.

Í greininni kemur fram að Ellen vilji benda á eftirfarandi atriði sem Vigdís fari ýmist rangt með eða taki ekki með inn í myndina:

  • „Vigdís staðhæfði að lauslega áætlað næmu bótasvik fjórum til fimm milljörðum á ári og óljóst er á hverju Vigdís byggir þessar tölur. Til samanburðar eru áætlaðar upphæðir í skýrslu Ríkisendurskoðunar, Eftirlit Tryggingastofnunar ríkisins með bótagreiðslum, mun lægri eða á milli 2-3,4 milljarðar króna, eða 3 til 5 prósent af heildargreiðslum Tryggingastofnunar. Mikilvægt er að halda því til haga að hér er ekki um rauntölur að ræða. Upphæðir greiðslna sem TR hefur stöðvað síðustu ár eru umtalsvert lægri.“
  •   „Útreikningar í skýrslu Ríkisendurskoðunar á meintu umfangi bótasvika byggja á umdeildri heimild, úttekt hugbúnaðarfyrirtækisins KMD á umfangi bótasvika í danska félagslega kerfinu frá árinu 2011. Í úttektinni, sem byggir á skoðanakönnun, er umfang „bótasvika“ veruleg ofáætlað og allar ofgreiðslur, einnig mistök, felldar undir „bótasvik“. Eftirlit Tryggingastofnunar hefur ekki skilgreint með formlegum og skýrum hætti hvað flokkist sem bótasvik og hvað sem mistök greiðsluþega og/eða Tryggingastofnunar. Því eru greiðslur sem flokkast sem mistök inni í tölum um „bótasvik“.“
  • „Á sama tíma og rætt er um „bótasvik“ eru lífeyrisþegar að fara á mis við greiðslur, meðal annars sökum þess að upplýsingagjöf og aðstoð í kerfinu er ábótavant, flækjustigið hátt og fólk oft ekki í stakk búið að sækja rétt sinn. „Í umfjöllun um „bótasvik“ er ekki tekið tillit til þessa. Sem dæmi geta lífeyrisþegar átt rétt á greiðslum langt aftur í tímann, en geta lögum samkvæmt einungis fengið greitt 2 ár afturvirkt.“
  • „Tryggingastofnun sér um ýmsar aðrar greiðslur en lífeyri, s.s. meðlag og mæðra/feðralaun til einstæðra foreldra. Þessar greiðslur teljast ekki til bótagreiðslna, en eru með í tölum yfir „bótasvik“. Hugtakið „bótasvik“ er mjög villandi. Stór hluti greiðslna sem TR hefur stöðvað voru greiðslur til einstæðra foreldrar (meðlag og mæðra/feðralaun). 

Að lokum er sagt frá því að Ellen taki fram að í umræðu um „bótasvik“ vilji það loða við að verið sé að tengja „bótasvik við örorkulífeyrisþega, samanber áðurnefnt viðtal við Vigdís Hauksdóttur. Í umræðu á þessum nótunum sé oft farið mjög frjálslega með staðreyndir og ýtt undir staðalmyndir um örorkulífeyrisþega sem byrði og svindlara.

Nánar er fjallað um rangfærslur formanns fjárlaganefndar í grein Stundarinnar frá því á miðvikudag.