Skip to main content
AlmannatryggingarHeilbrigðismálSjúkratryggingarUmsögn

401. mál. Sjúkratryggingar (endurgreiðsla kostnaðar)

By 15. mars 2021september 1st, 2022No Comments
Nefndasvið Alþingis

Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 12. janúar 2021

Umsögn um frumvarp til laga á breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum (endurgreiðsla kostnaðar). Þingskjal 577 – 401. mál.

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) gerir eftirfarandi athugasemdir við ofangreint frumvarp.

Heilbrigðiskerfið er fjársvelt og þrátt fyrir mótvægisaðgerðir lengjast margir biðlistar. Á grundvelli 20. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 hafa sjúklingar rétt á að sækja sér heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki EES- samningsins hafi bið eftir nauðsynlegri meðferð farið yfir ásættanleg tímamörk.

Okkur ber að fara vel með takmarkað fjármagn í heilbrigðisþjónustu og það er sýnt að best er að hún sé veitt eins og hægt er innan félagslega kerfisins. Að sama skapi er illa farið með tíma og fjármagn þegar fólk neyðist til að sækja sér læknisþjónustu erlendis. Ennfremur er það ekki góður kostur á tímum farsótta.

Þá er betra að gera tímabundna samninga við aðila á innlendum markaði til að vinna niður biðlistana. Ennfremur er tekið undir með flutningsmönnum frumvarpins að sú heimild sem sjúkratryggður einstaklingur fær með reglugerð EB til að sækja sér heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki EES samningsins gildi einnig á Íslandi. Réttur sjúklinga til að sækja sér sömu heilbrigðisþjónustu erlendis, sbr. ofangreinda EB-reglugerð, skerðist ekki við það.

Að því sögðu eru stjórnvöld hvött til að byggja upp getu félagslega kerfisins til að vinna þessi verk svo að ekki þurfi að koma til þess að vinna þau utan þess nema í undantekningartilfellum. Auka má skilvirkni í opinbera kerfinu með því að eyða flöskuhálsum. Hátæknisjúkrahús eru ekki og eiga ekki að vera hjúkrunarstofnanir eða sjúkrahótel.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Emil Thoroddsen, formaður málefnahóps ÖBÍ um heilbrigðismál