Skip to main content
HeilbrigðismálUmsögn

Heilbrigðis­þjónusta (stjórn Landspítala). 433. mál.

By 20. apríl 2022september 27th, 2022No Comments

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
101 Reykjavík

Reykjavík, 20. apríl 2022

Umsögn ÖBÍ um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007 (stjórn Landspítala)

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) lagði fram umsögn um frumvarpið í Samráðsgátt í janúar síðastliðnum, sjá neðar.

Áherslum ÖBÍ og annara umsagnaraðila um að rétt sé að stjórn Landspítala sé ekki aðeins skipuð embættismönnum og fulltrúum fagstétta heldur einnig notenda heilbrigðisþjónustu, var vel mætt af heilbrigðisráðherra sem sagði í viðtali að hann hyggist „breyta frumvarpi sínu um stjórn Landspítala á þá leið að notendur fái aðkomu“ og að „verið sé að vinna að breytingum á frumvarpinu með hliðsjón af þessu“ („Notendur fái aðkomu að stjórn Landspítala“, 10. febrúar 2022, frettabladid.is).

Breytingar á frumvarpinu tryggja ekki að notendur fái aðkomu með fulltrúa í stjórn Landspítala. Mikilvægt er að því verði breytt í samræmi við vilja heilbrigðisráðherra.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Stefán Vilbergsson, verkefnastjóri


Heilbrigðisráðuneytið
Skógarhlíð 6
105 Reykjavík

Reykjavík, 31. janúar 2022

Umsögn ÖBÍ um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007 (stjórn Landspítala)

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að ráðherra skipi sjö manna stjórn Landspítala, þar af séu „tveir aðilar með sérþekkingu á rekstri og áætlanagerð og tveir með sérþekkingu á heilbrigðisþjónustu og vísindarannsóknum á heilbrigðissviði eða menntun heilbrigðisstétta,“ auk tveggja fulltrúa starfsmanna með málfrelsi og tillögurétt, án atkvæðisréttar. Sjöundi fulltrúi stjórnar Landspítala er óskilgreindur í frumvarpinu.

Athygli vekur að ekki er gert ráð fyrir að sjúklingar eigi málsvara í stjórn stofnunarinnar. Brýnt er að stjórn Landspítala sé ekki aðeins skipuð embættismönnum og fulltrúum fagstétta og starfsfólks, heldur einnig þeim sem þjónusta spítalans snýr að.

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) er heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi og samanstendur af 41 aðildarfélögum fatlaðs fólks, öryrkja, einstaklinga með langvinna sjúkdóma og aðstandenda þeirra.

ÖBÍ leggur til að fulltrúi fólks með fötlun og langvinna sjúkdóma verði skipaður í stjórn Landspítala skv. 1. gr. frumvarpsins.
ÖBÍ á þegar fulltrúa í ráðgjafarnefnd Landspítala og telur ennfremur mikilvægt að nefndin verði styrkt enn frekar með frekari aðkomu sjúklingafélaga til að veita stjórn Landspítala ráðgjöf og álit um þjónustu, starfsemi og rekstur spítalans.

Að gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Stefán Vilbergsson, verkefnastjóri