Skip to main content
HeilbrigðismálUmsögn

Mál nr. 135-2021. Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til 2030

By 23. ágúst 2021september 1st, 2022No Comments

Heilbrigðisráðuneytið
Skógarhlíð 105
105 Reykjavík

Reykjavík, 23. ágúst 2021

Umsögn ÖBÍ um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til 2030

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) fagnar því að heilbrigðisráðherra hafi lagt fram skýrslu um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til 2030. Aukin áhersla hefur verið lögð á geðheilbrigðismál í heilbrigðiskerfinu undanfarin ár sem er mikið fagnaðarefni og mjög tímabært.

Meðal annars hefur heilsugæslan verið styrkt sem fyrsti viðkomustaður sjúklinga, en þrátt fyrir þá uppbyggingu getur heilsugæslan ekki enn annað eftirspurn og þörf eftir sálfræðiþjónustu. Nú er margra mánaða bið eftir viðtali hjá sálfræðingi á öllum heilsugæslustöðvum og eftirspurnin slík að stöðvarnar verða að skammta tímana naumt og forgangsraða stíft. Í erindi Kristbjargar Þórisdóttur, sérfræðings í klínískri sálfræði við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, á málþingi ÖBÍ þ. 20. apríl sl., eru 37 barna- og fullorðinssálfræðingar starfandi á heilsugæslunni í 28,4 stöðugildum en viðbótarþörfin er 35,4 stöðugildi.

Þá er ekki heimild til að vísa sjúklingum til sjálfstætt starfandi sálfræðinga þegar þörf er á slíku. Lög nr. 98/202 sem tóku gildi um síðustu áramót og kveða á um að sálfræðimeðferðir og aðrar klínískar samtalsmeðferðir falli undir greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu hafa ekki komið til framkvæmdar og ekki ljóst hvenær af verður. Eins og fram kemur í skýrslunni er þörf á heildarúttekt á þeirri þjónustu sem veitt er og þörf sem er til staðar til að ákvarða fjármögnun í málaflokknum. Kerfið þarf að vera búið undir að taka á móti fólki sem hefur verið í brýnni þörf en ekki fengið þjónustu. Þarfagreining, framkvæmd og kostnaðarmat ætti þegar að liggja fyrir, enda hefði sú vinna átt að hefjast um leið og lögin voru samþykkt þann 30. júní 2020.

Í kafla 7 er hugsað til framtíðar og aðgerðum forgangsraðað til næstu tveggja ára. Þar er lagt til í fjórða lið að hefja niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu. Það er mikilvægt að þjónusta heilsugæslunnar verði styrkt enn frekar og að úttekt á umfangi og framkvæmd geðheilbrigðisþjónustu, ásamt þarfagreiningu og kostnaðarmati liggi fyrir snemma í haust svo að fjármögnun á niðurgreiðslu sálfræðimeðferða og annarra klínískra samtalsmeðferða sé tryggð frá 1. janúar í fjárlögum ársins 2022. Æskilegt væri að niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu væri forgangsraðað ofar á þessum aðgerðarlista í þeim tilgangi að þrýsta enn frekar á að niðurgreiðslan hefjist á þeim tíma.

Í kafla tvö, forgangsröðun aðgerða til tveggja ára, kemur fram að ráða eigi sálfræðinga í alla framhaldsskóla landsins samhliða því að bjóða upp á aukna netþjónustu og leggja drög að geðheilsuteymum barna. Mikilvægt er að leggja einnig áherslu á aukið aðgengi barna og ungmenna á öllum aldursskeiðum að geðheilbrigðisþjónustu, setja fjármagn í forvarnarstarf og fræðslu, gera geðrækt að hluta af aðalnámskrá leik- og grunnskóla og vinna að aukinni samvinnu fagaðila til að hægt sé að veita börnum snemmtæka íhlutun og samþætta þjónustu sem og að byggja brú milli geðheilbrigðisþjónustu barna og fullorðinna.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir

formaður ÖBÍ

Emil Thoroddsen

formaður málefnahóps ÖBÍ um heilbrigðismál

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri