Skip to main content
HeilbrigðismálUmsögn

Mál nr. 8-/2022. Mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaráætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða

By 8. febrúar 2022september 1st, 2022No Comments

Heilbrigðisráðuneytið
Skógarhlíð 6
105 Reykjavík

Reykjavík, 7. febrúar 2022

Umsögn ÖBÍ um tillögu til þingsályktunar um mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) leggur áherslu á að fatlað fólk „hafi rétt til þess að njóta besta mögulega heilbrigðis án mismununar á grundvelli fötlunar“ sbr. 25. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Það felur meðal annars í sér að fatlað fólki hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu að sambærilegum gæðum og aðrir landsmenn, ókeypis eða á viðráðanlegu verði, sem næst heimabyggð og að heilbrigðisstarfsfólk annist fatlað fólk eins vel og aðra.

SRFF kveður á um rétt einstaklingsins til að njóta mannréttinda að fullu án mismununar og mikilvægi þess að afstofnanavæða úrræði fyrir fatlað fólk.

Hjúkrunarheimili er stofnun skv. 2. tölulið, 1. mgr. 14 gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra. Í sömu grein segir að á stofnunum fyrir aldraða eigi að vera aðstaða fyrir hjúkrun, læknishjálp og endurhæfingu á dvalarheimilum, sambýlum og íbúðum, sérhannað fyrir þarfir aldraðra sem ekki eru færir um að annast heimilishald þrátt fyrir heimaþjónustu. En á hjúkrunarheimilum eða hjúkrunarrými á öldrunarstofnunum ætluð öldruðum einstaklingum sem eru of lasburða til að dveljast á dvalarheimilum, sambýlum eða í sérhönnuðum íbúðum, skuli veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta og vera endurhæfing og sérstök aðstaða skal vera fyrir aldraða með heilabilunareinkenni. Á stofnunum fyrir aldraða skuli þjónusta „byggð á einstaklingsbundnu mati á heilsufarslegum og félagslegum þörfum hins aldraða.“
Því miður er raunin oft sú, enda eðli stofnana, að þjónusta við íbúa er takmörkuð, réttindi þeirra eru skert og einstaklingsbundar þarfir þeirra ekki uppfylltar. Ferðafrelsi er víða skert, tannlæknaþjónusta er ekki veitt, þekking starfsfólks á umhirðu heyrnartækja er lítil sem engin og ekki er alltaf hægt að fá hjálpartæki við hæfi. Þjónustan er löguð að möguleikum, áherslum og takmörkunum stofnunarinnar frekar en þörfum og vilja einstaklingsins.

Aldrað fólk neyðist oft til að yfirgefa heimili sín þegar heilsa og færni þess brestur, þar sem heimaþjónusta er takmörkuð og bygging húsnæðis hefur aldrei miðað að þvi að fólk geti búið þar með með skerta hreyfigetu. Fyrir það hafa verið til sérstök úrræði, stofnanir þar sem fötluðu fólki og öldruðum er komið fyrir. Þetta er hugmyndafræði sem hefur verið á undanhaldi og þarf að útrýma með öllu.

Byggjum okkar kerfi með mannlega reisn og einstaklingsréttindi að leiðarljósi. Reisum mannvirki samkvæmt algildri hönnun og veitum fólki heilbrigðis- og félagsþjónustu þar sem því hentar.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Stefán Vilbergsson, verkefnastjóri