Skip to main content
HeilbrigðismálUmsögn

Stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Mál nr. 58

By 22. mars 2022september 27th, 2022No Comments

Heilbrigðisráðuneytið
Skógarhlíð 6
105 Reykjavík

Reykjavík, 22. mars 2022

Umsögn ÖBÍ um tillögu til þingsályktunar um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030

Öryrkjabandalag Íslands, ÖBÍ, fagnar því að í stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 sé lögð áhersla á forvarnir og snemmtæk úrræði, heildstæða nálgun og samhæfingu milli þjónustukerfa. Það á að veita fólki góðan aðgang að sálfræðiþjónustu eins og kveðið er á um í lögum. En ekki síður þarf að koma til móts við þá einstaklinga sem kerfið hefur þegar brugðist.

Eins og fram kemur í greinargerð þarf að brúa kerfið milli þjónustustiga innan heilbrigðisþjónustunnar, við félagsþjónustuna og aðra velferðarþjónustu, þ.e. útrýma sk. gráu svæðunum milli ríkis og sveitarstjórnarstigs, koma til móts við fjölskyldur og tryggja föngum sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustu. Tryggja þarf fólki geðheilbrigðisþjónustu við hæfi óháð búsetu eða efnahag. Áherslur geðheilbrigðisstefnu eiga að vera í þágu heildarinnar.

Það þurfa að vera til mismunandi úrræði, rétt þjónusta á réttum tíma sem er tiltæk án þess að fólk í erfiðri stöðu þurfi að bera sig eftir henni sjálft, enda er það oft á tíðum óraunhæft og alveg miskunnarlaust.

Lykilatriði er að aðgerðaáætlun til fimm ára verði samin og komist til framkvæmdar sem fyrst. ÖBÍ óskar hér með eftir að taka þátt í þeirri vinnu.

Aðgengi að sálfræðiþjónustu

Tekið eru undir þá áherslu að styrkja þurfi heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað sjúklinga og fjölga sálfræðingum og styrkja geðheilsuteymi. Rétt er að horfast í augu við það að heilsugæslan annar ekki þörf. Það vantar barnasálfræðinga í 22 stöðugildi og fullorðinssálfræðinga í 13,4 stöðugildi á heilusgæsluna. Þar sem sálfræðingar eru starfandi er margra mánaða bið eftir viðtali, sían er þröng og tímarnir eru fáir. Það er sömu erfiðleikum bundið fyrir fólk í brýnni þörf að komast að hjá geðheilsuteymum.
Það þarf tilvísunarkerfi og samninga við sjálfstætt starfandi sálfræðinga innan greiðsluþátttökukerfis í heilbrigðisþjónustu, eins og gert er ráð fyrir með lögum nr. 93/2020 um niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu og annarar gagnreyndrar samtalsmeðferðar. Lögin sem voru samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á Alþingi tóku gildi 1. janúar 2020 en hafa ekki komið til framkvæmdar og hvorki verið útfærð í reglugerð né fjármögnuð.

Samningar þurfa að vera vel skilgreindir og þannig úr garði gerðir svo að þeim verði ekki rift við fyrsta tækifæri svo sjúklingar standi uppi með há komugjöld utan greiðsluþátttökukerfisins, en að sama skapi svo að vel sé farið með skattfé borgaranna. Niðurgreiðsla sálfræðiþjónustu fyrir fólk sem þarf á henni að halda er fé sem vel er varið.

Mönnun og menntun

Í stefnunni segir að „heildræn geðheilbrigðisþjónusta verði samþætt og byggð á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð og endurhæfingu. Þá verði þjónustan veitt af hæfu starfsfólki á viðeigandi þjónustustigum í árangursríku samstarfi við þjónustuveitendur í velferðarþjónustu.“ Til að þessi áhersla geti gengið eftir verður að tryggja mönnun og útrýma biðlistum sem seinka bata. Mennta þarf fleiri sálfræðinga og geðlækna en einnig sjúkraliða og aðrar heilbrigðisstéttir. Gert er ráð fyrir því að innbyggt sé í stefnuna sem lið í aðgerðaráætlun mat á þörf fyrir mannafla í heilbrigðisþjónustu árið 2030, settar upp vörður á leiðinni og þegar fari af stað áætlun um að mennta heilbrigðisstéttir svo hægt sé að uppfylla þörfina.

Aðgerðaáætlun til fimm ára

Til að aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum geti náð markmiðum sínum þarf að gera kostnaðarmat og tryggja fjármagn til verkefna, en ekki síst tryggja það að verkið sé vel skilgreint og að ábyrgðaraðilar séu upplýstir og virkir þátttakendur í ferlinu.
Aðgerðir þurfa meðal annars að snúast um aðgengi almennings að sálfræðiþjónustu, útrýmingu biðlista, mönnun og menntun í heilbrigðiskerfinu, geðheilbrigðisþjónustu á heilsugæslunni, í skólum, fangelsum, á landsbyggðinni. Stöðva þarf þvinganir og nauðung. Auka skilning og bæta viðhorf.

Af gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Stefán Vilbergsson, verkefnastjóri