Skip to main content
FréttHvatningarverðlaun

Bíó Paradís fær Hvatningarverðlaun ÖBÍ réttindasamtaka

By 3. desember 2023desember 5th, 2023No Comments

Bíó Paradís er handhafi Hvatningarverðlauna ÖBÍ í ár og fær verðlaunin fyrir frumkvæði að aðgengi fyrir alla með sérstöku tilliti til ólíkra hópa.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Mannréttindahúsinu, Sigtúni 42, í dag á alþjóðadegi fatlaðs fólks. Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradís, tók við verðlaununum.

„Ég er orðlaus. Ég bjóst innilega ekki við þessu. Mig langar líka að segja, að þegar ég sá þá sem eru tilnefndir með mér, mér finnst ég verði að deila þessum verðlaunum með ykkur,“ sagði Hrönn.

„Eins og við vitum skiptir menning, þátttaka og samvera miklu máli fyrir samfélagið. Það er bensínið okkar og gerir okkur að þeim sem við erum. Þess vegna hefur það verið okkur svo mikið kappsmál að fá alla fjölbreytta hópa samfélagsins inn. En ávinningurinn er allur okkar megin því menningarlega auðmagnið sem við fáum inn frá því að geta boðið alla velkomna er okkar megin,“ sagði Hrönn einnig.

Tilnefnd í ár voru eftirfarandi og fengu þau öll viðurkenningarskjal afhent auk blómvandar:

 • Gunnar Árnason
  • Gott fordæmi í þjónustu við fatlað fólk
  • Nálgun sem endurspeglar nútímalegar áherslur um þátttöku, sjálfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks og stuðlar að einu samfélagi fyrir alla.
 • Bíó Paradís
  • Frumkvæði að aðgengi fyrir alla með sérstöku tilliti til ólíkra hópa
  • Nálgun sem endurspeglar nútímalegar áherslur um þátttöku, sjálfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks og stuðlar að einu samfélagi fyrir alla.
 • Kolbrún Karlsdóttir
  • Bergmál líknar- og vinafélag – orlofsdvöl, skemmtun og samvera fyrir fatlað fólk
  • Nálgun sem endurspeglar nútímalegar áherslur um þátttöku, sjáfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks og stuðlar að einu samfélagi fyrir alla.
 • Þórunn Eva G. Pálsdóttir
  • Mia Magic – stuðningur og fræðsla til langveikra barna og foreldra þeirra
  • Nálgun sem endurspeglar nútímalegar áherslur um þátttöku, sjálfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks og stuðlar að einu samfélagi fyrir alla.

Upplýst samfélag

Fjólublár er litur alþjóðlegrar réttindabaráttu fatlaðs fólks. Við óskum þess að fólk leggi baráttunni lið og máli bæinn fjólubláan þann 3. desember, á alþjóðadegi fatlaðs fólks, og leggi þannig þessari mikilvægu baráttu lið. Markmiðið er upplýst samfélag – ekki aðeins þennan dag heldur alla daga, samfélag þar sem fatlað fólk nýtur verðskuldaðrar virðingar og sjálfsagðra réttinda.

Á alþjóðadegi fatlaðs fólks er kastljósinu beint að réttindabaráttu fatlaðs fólks og mikilvægu framlagi þess breiða hóps í samfélaginu. Fatlað fólk er um 15 prósent mannkyns samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, yfir milljarður á heimsvísu – og um 57.000 manns hér á landi. ÖBÍ réttindasamtök standa fyrir átakinu Upplýst samfélag 3. desember þar sem landsmenn allir eru hvattir til að lýsa hús sín upp í fjólubláum lit.