Skip to main content
Umsögn

Lestur SRFF – 21. til 30 gr.

By 21. október 2019No Comments

21. gr.

Tjáningar- og skoðanafrelsi og aðgangur að upplýsingum.

Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk geti nýtt sér rétt sinn til tjáningar- og skoðanafrelsis, þ.m.t. frelsis til að leita eftir, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum, til jafns við aðra, með hvers kyns samskiptamiðlum að eigin vali, samanber skilgreiningu í 2. gr. samnings þessa, þar á meðal með því:
a) að láta fötluðu fólki í té upplýsingar, sem almenningi eru ætlaðar, í aðgengilegu formi og með aðgengilegri tækni, sem tekur mið af mismunandi fötlun, tímanlega og án aukakostnaðar,
b) að viðurkenna og auðvelda notkun táknmáls, punktaleturs, aukinna og óhefðbundinna samskipta og allra annarra aðgengilegra samskiptaleiða, -máta og -forma sem fatlað fólk kýs að nota í opinberum samskiptum,
c) að brýna fyrir einkaaðilum sem bjóða almenningi þjónustu, þar á meðal gegnum netið, að veita upplýsingar og þjónustu í aðgengilegu og nothæfu formi fyrir fatlað fólk,
d) að hvetja fjölmiðla, þ.m.t. upplýsingaveitur á netinu, til þess að gera þjónustu sína aðgengilega fötluðu fólki,
e) að viðurkenna og efla notkun táknmáls.

22. gr.

Virðing fyrir einkalífi.

  1. Engin fötluð manneskja skal, óháð búsetustað eða -formi, sæta ólögmætum afskiptum eða geðþótta afskiptum af einkalífi sínu, fjölskyldu, skriflegum samskiptum eða öðrum samskiptum eða ólögmætum árásum á æru sína og orðstír. Fatlað fólk á rétt á lagalegri vernd gegn slíkum afskiptum eða árásum.
  2. Aðildarríkin skulu vernda trúnað um upplýsingar um persónulega hagi, heilsufar og endurhæfingu fatlaðs fólks til jafns við aðra.

23. gr.

Virðing fyrir heimili og fjölskyldu.

1. Aðildarríkin skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir í því skyni að uppræta mismunun gagnvart fötluðu fólki í öllum málum sem lúta að hjónabandi, fjölskyldu, foreldrahlutverki og samböndum, á sama hátt og gildir um aðra, til þess að tryggja:
a) að réttur alls fatlaðs fólks, sem hefur náð tilskildum aldri, til að ganga í hjónaband og stofna fjölskyldu, með frjálsu og fullu samþykki hjónaefnanna, sé virtur,
b) að réttur fatlaðs fólks til frjálsrar og ábyrgrar ákvarðanatöku um fjölda barna og tíma milli fæðinga og til að hafa aðgang, sem hæfir aldri þess, að upplýsingum og fræðslu um frjósemisheilbrigði og fjölskylduáætlanir sé viðurkenndur og að því séu veitt nauðsynleg úrræði sem gera því kleift að nýta sér þennan rétt,
c) að fatlað fólk, þ.m.t. börn, fái haldið frjósemi sinni til jafns við aðra.
2. Aðildarríkin skulu tryggja réttindi og ábyrgð fatlaðs fólks að því er varðar lögráð, forsjá, fjárhald, ættleiðingar barna eða sambærilega þætti, þar sem þessi hugtök eru til í landslögum; skulu hagsmunir barnsins í öllum málum vera í fyrirrúmi. Aðildarríkin skulu veita fötluðu fólki viðeigandi aðstoð við að uppfylla skyldur sínar sem uppalendur barna.
3. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum jafnan rétt með tilliti til fjölskyldulífs. Til þess að þessi réttur verði að veruleika og í því skyni að koma í veg fyrir að fötluðum börnum sé leynt, þau yfirgefin, vanrækt eða að þau séu þolendur aðgreiningar skuldbinda aðildarríkin sig til þess að veita fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra snemma alhliða upplýsingar, þjónustu og stuðning.
4. Aðildarríkin skulu tryggja að barn sé ekki tekið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra nema til þess bær yfirvöld ákveði, með fyrirvara um endurskoðun dómstóla og í samræmi við gildandi lög og málsmeðferð, að slíkur aðskilnaður sé nauðsynlegur vegna þess sem er barninu fyrir bestu. Barn skal aldrei taka frá foreldrum sínum á grundvelli fötlunar barnsins eða annars foreldris eða beggja.
5. Aðildarríkin skulu reyna til þrautar, ef kjarnafjölskylda getur ekki annast fatlað barn, að sjá barninu fyrir annarri umönnun innan stórfjölskyldunnar, en að öðrum kosti tryggja því umönnun hjá fjölskyldu innan nærsamfélagsins.

24. gr.

Menntun.

1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar. Í því skyni að þessi réttur verði að veruleika án mismununar og á grundvelli jafnra tækifæra skulu aðildarríkin tryggja menntakerfi án aðgreiningar á öllum skólastigum og við símenntun sem beinist að því:
a) að mannleg geta og tilfinning fyrir reisn og eigin verðleikum þroskist til fulls og að virðing fyrir mannréttindum, grundvallarfrelsi og mannlegum margbreytileika vaxi,
b) að fatlað fólk geti þroskað til fulls persónuleika sinn, hæfileika og sköpunargáfu, ásamt andlegri og líkamlegri getu,
c) að gera fötluðu fólki kleift að taka virkan þátt í frjálsu samfélagi.
2. Til að þessi réttur megi verða að veruleika skulu aðildarríkin tryggja:
a) að fatlað fólk sé ekki útilokað frá almenna menntakerfinu á grundvelli fötlunar og að fötluð börn séu ekki útilokuð frá gjaldfrjálsu skyldunámi á grunnskólastigi eða námi á framhaldsskólastigi á grundvelli fötlunar,
b) að fatlað fólk hafi aðgang til jafns við aðra að endurgjaldslausri grunn- og framhaldsskólamenntun án aðgreiningar, sem uppfyllir almennar kröfur um gæði, í þeim samfélögum þar sem það býr,
c) að viðeigandi aðlögun sé veitt í samræmi við þarfir viðkomandi einstaklings,
d) að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning innan almenna menntakerfisins til þess að greiða fyrir árangursríkri menntun þess,
e) að árangursríkur, einstaklingsmiðaður stuðningur sé veittur í umhverfi sem hámarkar námsþroska og félagsþroska sem samræmist markmiðinu um fulla þátttöku án aðgreiningar.
3. Aðildarríkin skulu gera fötluðu fólki kleift að öðlast hagnýta og félagslega færni í því skyni að greiða fyrir fullri þátttöku þess, til jafns við aðra, í skólastarfi og sem borgarar í samfélaginu. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í þessu skyni, meðal annars:
a) auðvelda fólki að læra punktaletur, óhefðbundna ritun, auknar og óhefðbundnar samskiptaleiðir, -máta og -form og færni í skynjun og hreyfifærni, ásamt því að greiða fyrir jafningjastuðningi og jafningjaráðgjöf,
b) auðvelda fólki að læra táknmál og efla sjálfsmynd heyrnarlauss og heyrnarskerts fólks með tilliti til tungumáls,
c) tryggja að menntun fólks, og þá sérstaklega barna, sem er blint eða sjónskert, heyrnarlaust eða heyrnarskert eða fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu fari fram á viðeigandi tungumálum og tjáningarmáta sem hentar viðkom-andi einstaklingi og í umhverfi sem hámarkar námsþroska og félagsþroska.
4. Í því skyni að tryggja að fyrrnefnd réttindi verði að veruleika skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til þess að ráða kennara, þar á meðal fatlaða kennara með sérþekkþingu á táknmáli og/eða punktaletri, og þjálfa fagfólk og starfsfólk sem starfar á öllum sviðum menntakerfisins. Slík þjálfun skal fela í sér vitund um fötlun og notkun viðeigandi aukinna og óhefðbundinna samskiptaleiða, -máta og -forma, kennsluaðferða og námsgagna sem er ætlað að styðja fatlað fólk.
5. Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk hafi aðgang að almennu námi á háskólastigi, starfsþjálfun, fullorðinsfræðslu og símenntun án mismununar og til jafns við aðra. Aðildarríkin skulu, í þessu skyni, tryggja að fatlað fólk fái notið viðeigandi aðlögunar.

25. gr.

Heilbrigði.

Aðildarríkin viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta besta mögulega heilbrigðis án mismununar á grundvelli fötlunar. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu, sem tekur mið af kyni, þar á meðal heilsutengdri endurhæfingu. Aðildarríkin skulu sérstaklega:
a) sjá fötluðu fólki fyrir heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisáætlunum sem eru ókeypis eða á viðráðanlegu verði og eins að umfangi, gæðum og á sama stigi og gildir fyrir aðra, meðal annars á sviði kyn- og frjósemisheilbrigðis og að því er varðar samfélagsáætlanir á sviði lýðheilsu,
b) sjá fötluðu fólki fyrir þeirri heilbrigðisþjónustu sem það þarfnast sérstaklega vegna fötlunar sinnar, þar á meðal að bera kennsl á og grípa til aðgerða eins fljótt og auðið er eftir því sem við á og veita þjónustu sem miðar að því að draga úr fötlun eins og frekast er unnt og koma í veg fyrir frekari fötlun, þ.m.t. meðal barna og eldra fólks,
c) bjóða fram fyrrnefnda heilbrigðisþjónustu eins nálægt heimabyggð fólks og frekast er unnt, þar á meðal í dreifbýli,
d) gera þá kröfu til fagfólks í heilbrigðisþjónustu að það annist fatlað fólk eins vel og aðra, þar á meðal á grundvelli frjáls og upplýsts samþykkis, meðal annars með vitundarvakningu um mannréttindi, mannlega reisn, sjálfræði og þarfir fatlaðs fólks með þjálfun og útbreiðslu siðferðilegra viðmiða fyrir starfsfólk, bæði innan einkarekinnar og opinberrar heilbrigðisþjónustu,
e) leggja bann við mismunun gagnvart fötluðu fólki á sviði sjúkratrygginga og líftrygginga, þar sem slíkar tryggingar eru heimilar að landsrétti, sem skulu veittar á sanngjarnan og réttmætan hátt,
f) koma í veg fyrir að einstaklingum sé synjað um heilsugæslu eða heilbrigðis-þjónustu eða um mat og drykk á grundvelli fötlunar.

26. gr.

Hæfing og endurhæfing.

1. Aðildarríkin skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með jafningjastuðningi, til þess að gera fötluðu fólki kleift að öðlast og viðhalda sem mestu sjálfstæði, fullri líkamlegri, andlegri og félagslegri getu, ásamt starfsgetu, og að taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins án aðgreiningar. Til þess að svo megi verða skulu aðildarríkin skipuleggja, efla og útvíkka heildstæða þjónustu og áætlanagerð á sviði hæfingar og endurhæfingar, einkum að því er varðar heilbrigði, atvinnu, menntun og félagsþjónustu, með þeim hætti að slík þjónusta og áætlanir:
a) hefjist eins snemma og frekast er unnt og séu byggðar á þverfaglegu mati á þörfum og styrkleikum hvers einstaklings um sig,
b) styrki þátttöku í heimabyggð og á öllum sviðum þjóðfélagsins án aðgreiningar, séu valfrjálsar og standi fötluðu fólki til boða sem næst heimabyggð þess, þar á meðal í dreifbýli.
2. Aðildarríkin skulu efla þróun grunnþjálfunar og símenntunar fagfólks og starfsfólks sem vinnur við hæfingu og endurhæfingu.
3. Aðildarríkin skulu stuðla að því að hjálpartæki og tækni, sem eru hönnuð fyrir fatlað fólk og notuð eru til hæfingar og endurhæfingar, séu tiltæk og þekking á þeim sé fyrir hendi.

27. gr.

Vinna og starf.

1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks, til jafns við aðra, til vinnu; í því felst réttur til að fá tækifæri til að afla sér lífsviðurværis með vinnu að eigin vali eða samþykki á vinnumarkaði og í vinnuumhverfi sem fötluðu fólki stendur opið, er án aðgreiningar og er því aðgengilegt. Aðildarríkin skulu tryggja og stuðla að því að rétturinn til vinnu verði að veruleika, einnig fyrir þau sem verða fötluð meðan þau gegna starfi, með því að gera viðeigandi ráðstafanir, þ.m.t. með lagasetningu, til þess meðal annars:
a) að leggja bann við mismunun á grundvelli fötlunar að því er varðar öll málefni sem tengjast atvinnu af hvaða tagi sem er, meðal annars nýliðunar-, ráðningar- og starfsskilyrði, starfsöryggi, starfsframa og öryggi og hollustuhætti á vinnustað,
b) að vernda rétt fatlaðs fólks, til jafns við rétt annars fólks, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða, þar á meðal jafnra tækifæra og sama endurgjalds fyrir jafnverðmæt störf, öryggis og hollustu á vinnustað, þar á meðal verndar gegn áreitni, og úrbóta vegna misréttis sem það telur sig hafa orðið fyrir,
c) að tryggja að fatlað fólk geti nýtt réttindi sín sem meðlimir stéttarfélaga til jafns við aðra,
d) að gera fötluðu fólki kleift að hafa árangursríkan aðgang að almennri tækni- og starfsráðgjöf, atvinnumiðlun og starfs- og símenntun,
e) að efla atvinnutækifæri og þróun starfsframa fyrir fatlað fólk á vinnumarkaði, ásamt því að auka aðstoð við að finna, öðlast og halda starfi og snúa aftur á vinnumarkað,
f) að fjölga tækifærum til að starfa sjálfstætt, stunda frumkvöðlastarfsemi, þróa samvinnufélög og stofna eigin fyrirtæki,
g) að ráða fatlað fólk til starfa innan opinbera geirans,
h) að stuðla að því að fatlað fólk verði ráðið til starfa innan einkageirans með viðeigandi stefnu og ráðstöfunum sem geta falist í áætlunum um sértækar aðgerðir, hvatningu og öðrum aðgerðum,
i) að tryggja að fatlað fólk fái viðeigandi aðlögun á vinnustað,
j) að efla möguleika fatlaðs fólks til að afla sér starfsreynslu á almennum vinnumarkaði,
k) að efla starfstengda og faglega endurhæfingu fatlaðs fólks, að það geti haldið störfum sínum og áætlanir um að það geti snúið aftur til starfa.
2. Aðildarríkin skulu tryggja að fötluðu fólki sé ekki haldið í þrældómi eða ánauð og að því sé veitt vernd, til jafns við aðra, gegn þvingunar- eða nauðungarvinnu.

28. gr.

Viðunandi lífskjör og félagsleg vernd.

1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara, þar á meðal viðunandi fæðis, klæða og húsnæðis, og til sífellt batnandi lífsskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar á grundvelli fötlunar.
2. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til félagslegrar verndar og til þess að njóta þess réttar án mismununar á grundvelli fötlunar og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika, þar á meðal ráðstafanir:
a) til þess að tryggja fötluðu fólki jafnan aðgang að hreinu vatni á við aðra og að tryggja aðgang að viðeigandi þjónustu, búnaði og annarri aðstoð á viðráðanlegu verði vegna þarfa sem tengjast fötlun,
b) til þess að tryggja fötluðu fólki, einkum fötluðum konum og stúlkum og fötluðu eldra fólki, aðgang að áætlunum á sviði félagslegrar verndar og áætlunum um að draga úr fátækt,
c) til þess að tryggja fötluðu fólki og fjölskyldum þess, sem lifa í fátækt, aðgang að aðstoð frá hinu opinbera til þess að standa straum af útgjöldum vegna fötlunar, þar á meðal útgjöldum vegna viðeigandi þjálfunar, ráðgjafar, fjárhagslegrar aðstoðar og hvíldarumönnunar,
d) til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að húsnæðiskerfi á vegum hins opinbera,
e) til þess að tryggja fötluðu fólki jafnan aðgang á við aðra að eftirlaunum og eftirlaunakerfum.

29. gr.

Þátttaka í stjórnmálum og opinberu lífi.

Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki stjórnmálaleg réttindi og tækifæri til þess að njóta þeirra til jafns við aðra og skulu jafnframt:
a) tryggja að fötluðu fólki sé gert kleift að taka virkan og fullan þátt í stjórnmálum og opinberu lífi til jafns við aðra, með beinum hætti eða fyrir atbeina fulltrúa að eigin frjálsu vali, þ.m.t. rétt og tækifæri til þess að kjósa og vera kosið, þar á meðal með því:
i) að tryggja að kosningaaðferðir, kosningaaðstaða og kjörgögn séu við hæfi, aðgengileg og auðskilin og auðnotuð,
ii) að vernda rétt fatlaðs fólks til þess að taka þátt í leynilegri atkvæðagreiðslu í kosningum og þjóðaratkvæðagreiðslum án ógnana og til þess að bjóða sig fram í kosningum, að gegna embættum með árangursríkum hætti og að sinna öllum opinberum störfum á öllum stigum stjórnsýslu, jafnframt því að greiða fyrir notkun hjálpartækja og nýrrar tækni þar sem við á,
iii) að tryggja að fatlað fólk geti tjáð vilja sinn sem kjósendur á frjálsan hátt og að heimilað sé í þessu skyni, þar sem nauðsyn krefur og að ósk þess, að það njóti aðstoðar einstaklings að eigin vali við að greiða atkvæði,
b) vinna á virkan hátt að mótun umhverfis þar sem fatlað fólk getur tekið árangursríkan og fullan þátt í opinberri starfsemi, án mismununar og til jafns við aðra, og hvetja til þátttöku þess í opinberri starfsemi, þar á meðal:
i) þátttöku í starfsemi frjálsra félagasamtaka og samtaka, sem láta sig málefni almennings varða og stjórnmálalíf viðkomandi lands, og í störfum og stjórn stjórnmálaflokka,
ii) þátttöku í því að móta og gerast aðilar að samtökum fatlaðs fólks til að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks á alþjóðavettvangi, heima fyrir á landsvísu og innan landsvæða og sveitarfélaga.

30. gr.

Þátttaka í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi.

1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til þess að taka þátt í menningarlífi til jafns við aðra og skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk:
a) njóti aðgengis að menningarefni í aðgengilegu formi,
b) njóti aðgengis að sjónvarpsefni, kvikmyndum, leikhúsi og öðrum menningar-viðburðum í aðgengilegu formi,
c) njóti aðgengis að stöðum þar sem flutningur menningarefnis eða þjónusta á sviði menningar fer fram, t.d. leikhúsum, söfnum, kvikmyndahúsum, bókasöfnum og ferðaþjónustu og njóti, eftir því sem við verður komið, aðgengis að minnisvörðum og stöðum sem hafa þjóðmenningarlegt gildi.
2. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk fái tækifæri til að þróa og nota sköpunargáfu sína og listræna og vitsmunalega getu, ekki einvörðungu í eigin þágu, heldur einnig í því skyni að auðga samfélagið.
3. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir, í samræmi við alþjóðalög, til þess að tryggja að lög, sem vernda hugverkarétt, feli ekki í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki eða óréttmætar hindranir við aðgang þess að menningarefni.
4. Fatlað fólk skal eiga rétt, til jafns við aðra, á viðurkenningu og stuðningi við sérstaka menningar- og tungumálssjálfsmynd sína, þar á meðal táknmál og menningu heyrnarlauss og heyrnarskerts fólks.
5. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir, í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að taka til jafns við aðra þátt í tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi, til þess að:
a) hvetja til og efla þátttöku fatlaðs fólks, eins og frekast er unnt, í almennu íþróttastarfi á öllum stigum,
b) tryggja fötluðu fólki tækifæri til þess að skipuleggja, þróa og taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi fyrir fatlað fólk og stuðla í því skyni að framboði á viðeigandi leiðsögn, þjálfun og úrræðum til jafns við aðra,
c) tryggja fötluðu fólki aðgang að stöðum þar sem íþrótta- og tómstundastarf fer fram og að ferðamannastöðum,
d) tryggja fötluðum börnum jafnt aðgengi á við önnur börn til þátttöku í leikjum, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi, þar á meðal innan skólakerfisins,
e) tryggja fötluðu fólki aðgang að þjónustu þeirra sem annast skipulagningu tómstundastarfs, ferðamennsku. frístunda- og íþróttastarfs.

 Hlé á lestri. Til að hlusta áfram, smelltu hér