Skip to main content
RéttarkerfiUmsögn

718. mál. Meðferð sakamála (réttarstaða brotaþola, fatlaðra og aðstandenda)

By 30. apríl 2021október 6th, 2022No Comments
Dómsmálaráðuneytið

Sölvhólsgötu 7
101 Reykjavík

Reykjavík, 29. apríl 2021

Efni: Umsögn ÖBÍ við frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála (réttarstaða brotaþola, fatlaðra og aðstandenda).

ÖBÍ vill koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum í þeirri von að löggjafinn hafi í huga mikilvægi þess að tryggja enn betur réttarstöðu fatlaðs fólks. ÖBÍ tekur heilshugar undir þær breytingartillögur sem nú þegar hafa verið gerðar en vonast þó eftir að tekið verði tillit til eftirfarandi athugasemda og ábendinga.

Geðræn eða vitsmunaleg skerðing eða skert skynjun
Samkvæmt frumvarpinu mun a-liður 1 mgr 59. gr. ná til brotaþola með geðræna eða vistmunalega skerðingu eða skerta skynjun. Ekki er að finna í frumvarpinu nánari upplýsingar um hvernig lagt er mat á það hvort brotaþoli sé með geðræna eða vitsmunalega skerðingu og skerta skynjun. Tryggja verður að í frumvarpinu séu upplýsingar um hvernig staðið er að því að leggja mat á hvort brotaþoli sé með geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun. Má hér nefna að ef nýlegar upplýsingar eða mat á fötlun liggja ekki fyrir þarf að vera skýrt kveðið á um það í frumvarpinu að meta þurfi hvort rétt sé að dómkveðja matsmann. Auk þessa, ef fötlun er mikil (mikil þroskahömlun eða skyldar skerðingar), gæti þurft nauðsynlegt að kalla eftir réttarsálfræðilegu mati.

Gera má þó ráð fyrir því að upplýsingar um fötlun brotaþola liggi nú þegar fyrir þar sem lögreglunni ber að kanna sérstaklega við rannsókn máls hvort fötlun brotaþola eða sakbornings kalli á sérstakar ráðstafanir af hálfu lögreglu en vissulega getur sú staða komið upp á síðari stigum máls að grunur vaknar um að brotaþoli sé með geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun.

Um 1. gr. frumvarpsins
Samkvæmt frumvarpinu er dómara veitt heimild til þess að ákveða að skýrslugjöf brotaþola eða vitnis fari fram í sérútbúnu húsnæði. Telja verður að heimild dómara til að ákveða hverju sinni hvort skýrslugjöf fari fram í sérútbúnu húsnæði geti haft í för með sér að einstaklingum sé mismunað á grundvelli fötlunar/skerðinga. Markmið þeirra breytinga sem koma fram í frumvarpinu eru skýr um það að bæta eigi réttarstöðu fatlaðs fólks við meðferð sakamála og því getur heimildarákvæði sem þetta ekki náð því markmiði sem að er stefnt. Brýnt er að einstaklingar með geðræna eða vistmunalega skerðingu eða skerta skynjun geti gengið að því vísu að skýrslutaka fari fram í sérútbúnu húsnæði. Nauðsynlegt er að þetta ákvæði verði nánar útfært, hvort sem það er í lögunum sjálfum eða í reglugerð. Réttast væri að skylt væri að útbúa sérútbúið húsnæði og kveða nánar um það hvar það skuli vera staðsett. Ennfremur þarf að vera ljóst hvaða skilyrði húsnæðið þarf að uppfylla.

Í frumvarpinu segir einnig að það falli í hlut dómarans að meta hverju sinni hvort húsnæði taki mið af þörfum þess sem taka á skýrslu af, og eftir atvikum, á dómari að meta það í samráði við hlutaðeigandi. Þetta gæti verið vandkvæðum bundið og því rennir það frekari stoðum undir mikilvægi þess að til staðar sé sérútbúið húsnæði fyrir einstaklinga sem eru með geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun.

Að lokum er tekið undir umsögn Landssamtaka Þroskahjálpar varðandi að tryggja þurfi að sakborningur, sem er með þroskahömlun og/eða einhverfu og/eða geðrænar raskanir, fái meiri aðstoð og viðeigandi aðlögun. Von ÖBÍ er að dómsmálaráðuneytið skoði sérstaklega hvort frumvarp þetta og núverandi löggjöf tryggi rétt sakborninga sem eru með geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun.

Ekkert um okkur án okkar

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Bára Brynjólfsdóttir, lögfræðingur ÖBÍ