Bætt aðgengi að hleðslustöðvum

Guðjón Sigurðsson við opnun hlöðunnar. Mynd: ON
Guðjón Sigurðsson við opnun hlöðunnar. Mynd: ON

Orka náttúrunnar vinnur að því að tryggja gott aðgengi hreyfihamlaðra að hlöðum fyrirtækisins, sem nú eru 31 talsins, hringinn í kringum landið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ON. Á dögunum var tekin í notkun ný hraðhleðsla í hlöðunni við Bæjarháls 1, þar sem ON er til húsa. Þar reis fyrsta hlaða ON vorið 2014 og var hún ein þeirra þar sem aðgengi var ófullnægjandi.

Fram kemur í tilkynningu ON að Guðjón Sigurðsson, starfsmaður Veitna systurfyrirtækis ON og ötull baráttumaður í aðgengismálum, hafi verið fyrstur til að nota nýju hraðhleðsluna. Við þetta tækifæri þakkaði Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri ON, Gauja fyrir að halda fólki við efnið í aðgengismálum. „Hlöðurnar eru tiltölulega nýtt fyrirbæri og margt að læra. Ábendingar fólks eru okkur því mikilvægar og við tökum mark á þeim,“ er haft eftir Bjarna Má í tilkynningunni.

Komið til móts við réttmætar ábendingar

Í tilkynningunni segir að ON hafi reist hverja hlöðuna á fætur annarri síðasta árið. Bergur Þorri Benjamínsson, formaður Sjálfbjargar og gjaldkeri ÖBÍ, hafi gert ON þann heiður að taka hlöðuna á Hvolsvelli í notkun í september síðastliðnum. Aukinn þungi hafi í kjölfarið færst í aðgengismálin. Gætt hafi verið að tækifærum fatlaðs fólks við allar þær hlöður sem opnaðar hafa verið síðan.

ON telst til að aðgengi sé í lagi við meirihluta hlaðanna en vorið og sumarið verði nýtt til að bæta úr þar sem þarf, segir í tilkynningunni.