Hvatningarverðlaunin afhent

Hér má sjá verðlaunahafa fyrir miðju ásamt Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, formanni ÖBÍ. Á myndinni eru…
Hér má sjá verðlaunahafa fyrir miðju ásamt Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, formanni ÖBÍ. Á myndinni eru einnig fulltrúar allra þeirra sem tilnefndir voru. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands er lengst til hægri og Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ lengst til vinstri.

Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands 2017 voru veitt við hátíðlega athöfn á Hilton Nordica hótelinu í Reykjavík í dag að viðstöddu fjölmenni. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti verðlaunin, en þau voru veitt í þremur flokkum.

  • Hlín Magnúsdóttir hlaut verðlaun í flokki einstaklinga, fyrir brennandi áhuga og frumkvæði að fjölbreyttum kennsluaðferðum.
  • TravAble hlaut verðlaun í flokki fyrirtækja/stofnana, fyrir hönnun og þróun á smáforriti með upplýsingum um aðgengi.
  • RÚV hlaut verðlaun í flokknum umfjöllun/kynningar, fyrir að kynna og sýna þættina „Með okkar augum“ á besta áhorfstíma.

Þetta er í 11. sinn sem Öryrkjabandalagið stendur fyrir Hvatningarverðlaununum. Þau voru fyrst veitt árið 2007. Verðlaunin hafa verið veitt í tengslum við Alþjóðadag fatlaðs fólks 3. desember. Megintilgangur þeirra er að varpa ljósi á þá sem hafa með jákvæðum hætti stuðlað að einu samfélagi fyrir alla. Þrír voru tilnefndir í hverjum flokki.

Við verðlaunaafhendinguna fluttu erindi þau Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, Katrín Oddsdóttir, hæstaréttarlögmaður og starfsmaður málefnahóps Öryrkjabandalagsins um sjálfstætt líf, Bergþór Grétar Böðvarsson sem hlaut Hvatningarverðlaunin í flokki einstaklinga árið 2011 og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Forseti Íslands er verndari verðlaunanna. Þórunn Árnadóttir, vöruhönnuður, hannaði verðlaunagripinn.