Skip to main content
AðgengiFrétt

Samstarf um upplýsingagjöf um algilda hönnun

By 5. maí 2022ágúst 31st, 2022No Comments

Í dag, 5. maí á 61 árs afmæli Öryrkjabandalagsins, var í húsi Grósku, skrifað undir samstarfsyfirlýsingu Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ), Arkitektafélags Íslands (AÍ), Félags íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA), Félags húsgagna- og innanhússarkitekta (FHI), Byggingafræðingafélags Íslands (BFÍ) og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um bætta upplýsingagjöf í aðgengismálum fyrir hönnuði í mannvirkjagerð.

Við undirskriftina sagði Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ:

„Aðgengi fyrir alla verður ekki tryggt með mælingarviðmiðunum einum, heldur hvílir það á góðri hönnun sem skila sér alla leið í skilningi, skýrri sýn og upplifun. Öryrkjabandalag Íslands fagnar því að hefja samstarf við arkitekta og hönnuði, byggingastjóra og yfirstjórn byggingamála og þetta samstarf markar upphafið að betri lífsgæðum fyrir okkur öll.

Yfirlýsingin er svo hljóðandi:

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ), Arkitektafélag Íslands (AÍ), Félag íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA), Félag húsgagna- og innanhússarkitekta (FHI), Byggingafræðingafélag Íslands (BFÍ) og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) lýsa yfir vilja til samstarfs við að bæta upplýsingar og leiðbeiningar fyrir hönnuði og fagaðila í mannvirkjagerð og skipulagsmálum með áherslu á aðgengi fyrir fatlað fólk og algilda hönnun.

Samningsaðilar munu meðal annars vinna að gerð upplýsinga og leiðbeininga og halda fundi og vinnustofur með það fyrir augum að auka vitund um þarfir fatlaðs fólk í manngerðu rými og þróa hugvitssamar lausnir sem bæta aðgengi og auka lífsgæði.

Sigríður Maack, formaður Arkítektafélags Íslands sagði að gæði í arkitektúr samanstandi af þremur þáttum, hinu haldbæra, hinu nothæfa og hinu fagra. Ef einhvern þessara þátta vantar, þá væru gæði ekki til staðar. Sá mælikvarði sem hvað helst er gripið til þegar meta á gæði er ekki vellíðan manneskjunnar, heldur kostnaður. Gæði eru eðli sínu hagkvæm og það sé mikilvægt að manneskjunni séu búin umhverfisleg gæði svo hún fái þrifist og dafnað sem best, hver sem hún er og hvernig sem hún er.

Stefán Þór Steindórsson, formaður Byggingafræðingafélags Íslands sagði við þetta tilefni að hér væri að fara af stað gríðarlega mikilvægt verkefni sem hann væri stoltur af að BFÍ taki þátt í.

„Ákall fyrir slíku verkefni er mikið, enda má segja að þegar kemur að þessu málefni sé aldrei of vel gert og má að mörgu leiti segja að það sé vegna skorts á aðgengilegum leiðbeiningum fyrir hönnuði til að gera eins vel og ég veit að hönnuðir vilja gera í sínum störfum.“

Harpa Cilia Ingólfsdóttir, sérfræðingur á sviði öryggi mannvirkja hjá HMS sagðist horfa björtum augum til þessa samstarfs og teldi það nauðsynlegt að samstarfsaðilarnir tækju höndum saman um að safna og miðla þekkingu til að trygja að allir, hvort sem það eru fagaðilar, almenningur, eigendur eða notendur, hafi aðgang að upplýsingum og fræðslu um málefni tengd ólíkum þörfum fólks og heildstæðum leiðbeiningum um hvernig við náum að uppfylla kröfur um algilda hönnun og aðgengi fyrir alla í manngerðu umhverfi.