Skip to main content
RéttindabaráttaSkoðun

Hvað hefur áunnist síðustu 10 árin?

By 28. september 2021ágúst 31st, 2022No Comments
Fyrstu 50 árum baráttu Öryrkjabandalagsins voru gerð góð skil í bók sem kom út við þau tímamót. Síðustu ár hafa litast mjög af stórum málum, mörg komist í höfn sem mikil réttarbót, öðrum er enn ólokið.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Það var mikið hagsmunamál þegar það náðist í gegn að sérstakur húsnæðisstuðningur sveitarfélaga væri ekki lengur valkvæður, heldur sveitarfélögum gert skylt að styðja þannig við tekjulægstu íbúa sína. Nýtt kerfi húsnæðisstuðnings tók gildi um áramótin 2016/2017. Í framhaldinu hefur ÖBÍ stöðugt þrýst á að tekjuviðmið þessa stuðnings hækki, svo hann nýtist fleirum, með ágætum árangri.

Leigjendur hjá Brynju hússjóð (og nokkrum fleirum) í Reykjavík fengu loksins sérstakar húsaleigubætur fyrir tilstilli dómstóla, og Úrvel felldi í kjölfarið úrskurð um að leigjendur hjá Hafnarfjarðarbæ og Kópavogsbæ fengju einnig greiddan sérstakan húsnæðisstuðning.

Króna á móti krónu

Enn erum við að berjast gegn svokallaðri krónu á móti krónu skerðingu. Á sama tíma og ráðherrar kalla eftir aukinni virkni, er raunin sú að fatlaður einstaklingur sem vill auka tekjur sínar með vinnu, þarf í raun að borga með sér inn á vinnumarkaðinn. Í könnun um áhuga öryrkja á þátttöku á vinnumarkaði kemur sterkt fram að meira en þriðjungur þeirra hefur ríkan vilja til vinna. Tækifærin eru hinsvegar af skornum skammti.

Þrátt fyrir fögur loforð, sérstaklega fyrir kosningar, er þetta baráttumál enn á dagskrá, þótt skerðingin hafi á síðustu þrem árum minnkað um 35 aura.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Öryrkjabandalagið hefur síðasta áratuginn lagt gríðarlega vinnu í að fá samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks fullgiltan til að byrja með, og nú síðustu ár löggiltan.

Ísland gerðist aðili að samningnum árið 2007 en hann var ekki fullgiltur fyrr en í lok september 2016, eftir mikla baráttu ÖBÍ.

Síðan þá hefur verið þrýst á um lögfestingu hans, án árangurs. Síðasta viljayfirlýsing Alþingis sneri að því að lögfesta samninginn eigi síðar en í desember 2020. Það varð ekki.

Málið er engu að síður komið á rekspöl. Unnið er að stofnun mannréttindastofnunar, sem stjórnsýslan telur að sé nauðsynlegur undanfari lögfestingu samningsins.

Kjarabaráttan

Allt frá efnahagshruni hefur það einnig tekið mikinn tíma í baráttu Öryrkjabandalagsins, að knýja fram leiðréttingar á lífeyri almannatrygginga. Lögskýring fjármálaráðuneytisins á 69. gr. laga um almannatryggingar, hefur gert það að verkum að sífellt hefur aukist bilið milli örorkulífeyris og lægstu launa.

Á árinu 2020 fékk ÖBÍ Kolbein Stefánsson, dósent við Félagsfræðideild HÍ, til að skoða framkvæmd greinarinnar og skilaði hann skýrslu haustið 2020.

Niðurstaða skýrslunnar er að kjör stórs hluta örorkulífeyrisþega hafi dregist aftur úr lægstu launum fyrir fullt starf á almennum vinnumarkaði.

Fyrir kosningar til Alþingis vorið 2013, voru haldnir fundir með öllum framboðum. Öll framboð lýstu því yfir að leiðrétta ætti allar kjara- og réttindaskerðingar frá 2009 að fullu, strax. Þeir tveir flokkar sem tóku við stjórn landsins, Sjálfstæðiflokkur og Framsóknarflokkur undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, voru sérstaklega skýrir með þetta og skyldi leiðréttingin verða gerð strax það sumar. Ekkert varð um efndir á þeim loforðum.

Sami háttur var hafður á fyrir kosningarnar 2017, fundað var með öllum framboðum. Þar kom fram skýr vilji allra, utan Sjálfstæðiflokks, að afnema krónu á móti krónu skerðingar og ekki síst hækka lífeyri almannatrygginga.

Á afmælisárinu 2021, þegar þessi orð eru rituð er munurinn á lægstu launum á vinnumarkaði og örorkulífeyri, án heimilisuppbótar, orðinn um eitt hundrað þúsund krónur, króna á móti krónu er nú 65 aurar mót hverri krónu. Þrátt fyrir yfirlýsingar Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG, um að við eigum ekki að biðja fátækt fólk að bíða eftir réttlætinu, bíður það þó enn, þrátt fyrir að Katrín sé nú forsætiráðherra.

Endurskoðun almannatrygginga

Á áratugnum hefur verið unnið reglulega að endurskoðun laga um almannatryggingar. Þrátt fyrir mikla vinnu, hefur enn ekki myndast almenn sátt um hvaða leið skuli fara. Stjórnvöld tala mjög fyrir starfsgetumati, í stað þess læknisfræðilega örorkumats sem nú er framkvæmt, sem forsendu fyrir breytingu á úreltu greiðslukerfi.

Nefnd um endurskoðun almannatrygginga skilaði af sér lokaskýrslu í febrúar 2016, en ÖBÍ skilaði séráliti ásamt þáverandi stjórnarandstöðuflokkum. Fleiri sérálit komu fram, og ljóst að ekki ríkti almenn sátt um niðurstöður meirihluta nefndarinnar.

Aftur var reynt að ná samkomulagi milli stjórnvalda og hagsmunasamtaka um heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu með starfsgetumat til grundvallar 2017-2018. ÖBÍ skrifaði ekki undir skýrslu starfshópsins sem var þó um margt mjög góð. Álit ÖBÍ var að þörf væri á að gera breytingar á almannatryggingakerfinu sem miðuðu að því að einfalda það og aðlaga að þörfum þeirra sem á það treysta. ÖBÍ lýsti ánægju með margt sem fram kom í skýrslunni og lýsti sig tilbúið til áframhaldandi vinnu að þeim atriðum sem aðilar voru sammála um.

Ekkert er í hendi um hvernig skuli fara með þá einstaklinga sem ekki fengju starf við hæfi í nýju kerfi. Hins vegar vantar ekkert upp á vilja fatlaðs fólks til þátttöku á vinnumarkaði.

Aðgengi

ÖBÍ hefur beitt sér fyrir því að öll umgjörð akstursþjónustu fatlaðs fólks verði bætt, meðal annars með því að fá sameiginlegum reglum um þjónustuna breytt til samræmis við þarfir notenda og ákvæði SRFF og gert athugasemdir við útboðsmál og framkvæmd þjónustunnar með þeim árangri að hún er nú víðast hvar komin í ágætis horf.

Einnig hefur mikið samstarf verið við Isavia og Icelandair um að bæta þjónustu við fatlaða flugfarþega og í því ferli hefur til dæmis bið farþega eftir að fá hjálpartæki sitt eftir flug, minnkað talsvert.

ÖBÍ hefur beitt sér mjög fyrir því að bæta eftirlit með því að byggingar og önnur mannvirki séu aðgengileg fötluðu fólki.

Árið 2019 var starfrækt sérstakt aðgengisátak með tveimur starfsmönnum og sumarið 2021 hefur verið starfandi hópur aðgengisfulltrúa í nokkrum sveitarfélögum í tilraunaverkefni á vegum ÖBÍ, með það að markmiði að koma á aðgengiseftirliti hjá sveitarfélögum. Þá hefur ÖBÍ ráðið starfsmann til að greiða fyrir úthlutunum úr Fasteignasjóði jöfnunarsjóðs til að bæta aðgengi að mannvirkjum.

Jafnframt tók ÖBÍ þátt í átaksverkefninu Römpum upp Reykjavík, þar sem markmiðið er að koma upp 100 römpum við verslanir og þjónustufyrirtæki. Það verkefni hefur gengið mjög vel og fyrirtækjaeigendur áhugasamir um aðgengi hjá sér.

Árið 2014 var skrifstofan flutt í Sigtún. Þar nýttist hinn höfðinglegi arfur Odds Ólafssonar, sem fjármagnaði kaup og aðlögun húsnæðisins svo aðgengi yrði til fyrirmyndar.

Miklar skipulagsbreytingar voru svo gerðar á starfinu árið 2015 og í kjölfarið tóku til starfa fimm málefnahópar. Þeir eru nú sjö talsins.

NPA

Í apríl árið 2018 samþykkti Alþingi ný lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Lögin sem voru endurskoðuð og uppfærð, eru mikil réttarbót fyrir fatlað fólk. ÖBÍ stóð að mikilli vinnu ásamt einstaklingum úr hagsmunabaráttunni og fræðasamfélaginu, NPA miðstöðinni, Rannsóknarsetri HÍ í fötlunarfræðum og fleirum í uppfærslu laganna, og ekki síst til að lögin yrðu uppfærð í anda SRFF.

Lögfesting notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) var stór áfangi og mikið fagnaðarefni. Ný endurskoðun þessara laga stendur nú yfir og tekur ÖBÍ fullan þátt í þeirri vinnu.

Greiðsluþak í heilbrigðiskerfi

ÖBÍ hefur lagt mikla áherslu á að kostnaður sjúklinga verði lækkaður. Áfangasigur vannst með tilkomu greiðsluþátttökukerfis lyfja árið 2013 og aftur árið 2016 er sjúkra-, iðju- og talþjálfun fóru undir greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu. Einnig var sálfræðiþjónusta sett undir sama þak með lögum frá síðustu áramótum, lögin hafa ekki enn komið til framkvæmda enda ófjármögnuð. Þó hefur ýmislegt áunnist, því komugjöld á heilsugæsluna hafa verið afnumin og þá hafa endurgreiðslur vegna tannlæknakostnaðar lífeyrisþega verið hækkaðar umtalsvert eða sem nemur í dag 57% af kostnaði. Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir því að 75% endurgreiðslu, þ.e. fullri endurgreiðslu skv. samningi, verði náð á næstu árum.

Þetta náðist eftir sameiginlegan þrýsting frá ÖBÍ, Landsambandi eldri borgara og Tannlæknafélagi Íslands. ÖBÍ kom því til leiðar að starfshópur um fyrirkomulag hjálpartækja skilaði af sér skýrslu haustið 2019.

Brýnast er að endurskoða allt regluverk sem byggir á gamalli hugmyndafræði og auka heimildir til úthlutunar hjálpartækja í samræmi við vilja og þörf notenda. Því miður stendur kerfið enn á sér við að fullnusta það.

Ýmis baráttumál

Í árslok 2018 varð frumvarp um skattleysi uppbóta að lögum (uppbætur á lífeyri undanþegnar skattlagningu). Þetta þýðir að uppbætur á lífeyri vegna framfærslubyrðar og uppbót vegna reksturs bifreiðar, er undanþegin skatti frá 1. janúar 2019.

Upphaflega kom þetta mál frá ÖBÍ og því er afar ánægjulegt að það hafi fengið góðan endi. Þótt upphæðir séu ekki háar þá skiptir þetta máli, sér í lagi fyrir þá sem hafa lága framfærslu auk þess sem greiðslurnar skerða ekki lengur aðrar greiðslur.

Á tímabilinu náðist fram talsverð hækkun á styrk til kaupa á sérútbúnum bíl.

Barátta ÖBÍ varð til þess að TR felldi niður kröfur vegna fjármagnstekna sem voru tilkomnar vegna þess að Reykjavíkurborg greiddi dráttarvexti í samræmi við dóm um greiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings. Dæmi voru um að TR skerti greiðslur um nánast alla dráttarvextina.

Í júní 2021 náðist það markmið ÖBÍ að ráðherra hækkaði viðmiðunaraldur ungmenna sem búa hjá fötluðu foreldri og stunda nám, úr 20 ára í 25 ára. Enn gildir að ef 18 ára ungmenni er ekki í námi og býr hjá foreldri sínu þá missir foreldrið heimilisuppbót sem í dag nemur um 54.000 kr. f.sk.

Þann 19. maí 2020 urðu merk tímamót í samstarfi ÖBÍ við samtök launafólks þegar ASÍ, BSRB, BHM, KÍ og ÖBÍ skrifuðu undir samstarfsyfirlýsingu um bætt lífskjör. Það að þessi stóru samtök fylkja sér að baki ÖBÍ er mjög mikilvægt, og gefur kröfum Öryrkjabandalagsins aukið vægi. Í samstarfsyfirlýsingunni er hnykkt á að það er hagur allra að bæta kjör öryrkja og sjá til þess að enginn sé dæmdur til fátæktar þótt starfsgeta láti undan. Að festast í fátæktargildru hefur áhrif á starfsgetu til framtíðar. Það er dýru verði keypt, ekki bara fyrir einstaklinga heldur fyrir samfélagið allt að svipta fólk virðingu og getu til athafna.

Lítið svigrúm er fyrir fatlað og langveikt fólk á íslenskum vinnumarkaði. Til að sem flestir geti notið sín á vinnumarkaði þarf þröskuldurinn að vera lægri. Öryrkjum má ekki hefnast fyrir það fjárhagslega að reyna getu sína í starfi þannig að þeir verði jafnvel verr settir eftir.

Heildarsamtök launafólks og Öryrkjabandalag Íslands standa saman að því að krefjast þess að hagur öryrkja verði bættur, öllum til hagsbóta.

Kröfurnar í samstarfsyfirlýsingunni eru skýrar:

  • Lágmarksframfærsla öryrkja verði hækkuð þannig að fólki sé gert kleift að lifa mannsæmandi lífi.
  • Skerðingar verði endurskoðaðar þannig að þær standi ekki í vegi fyrir þátttöku á vinnumarkaði, hvort sem er að hluta eða tímabundið og að dregið verði úr tekjuskerðingum vegna lífeyristekna.
  • Störf með viðeigandi aðlögun og sveigjanlegum vinnutíma verði tryggð fyrir fólk með skerta starfsgetu.

Heimsfaraldur

Covid hefur svo sannarlega sett mark sitt á starfið undanfarið eitt og hálft ár. ÖBÍ barðist ötullega fyrir því að öryrkjar fengju skatta- og skerðingalausa eingreiðslu vegna Covid og bágrar fjárhagsstöðu. Farið var fram á 100.000 kr. í hvert skipti. Stjórnvöld brugðust við og greiddu öryrkjum 50.000 kr. eingreiðslu í desember 2019, júní 2020 og desember 2020.

Fyrsta janúar 2021 tóku gildi varanlegar breytingar á almannatryggingum þar sem breyting á útreikningi sérstakrar framfærsluuppbótar varð til þess að þeir sem engar aðrar tekjur hafa en greiðslur frá TR, hækka sérstaklega. Þessi breyting náði til rúmlega 8.000 einstaklinga.

Í kjölfar þess að félags- og barnamálaráðherra kynnti þessar aðgerðir, beitti ÖBÍ sér kröftuglega til að vekja athygli Reykjavíkurborgar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og félags-og barnamálaráðherra á því að brýn nauðsyn væri að hækka í kjölfarið tekju- og eignamörk samhliða hjá ríki og sveitarfélögum. Hætta var á að þessi hækkun myndi annars brenna upp annar staðar í kerfinu s.s. í húsnæðisstuðningi. ÖBÍ, ASÍ og BSRB beittu sér í sameiningu fyrir því að ráðherra hækkaði eignamörk. Niðurstaðan varð að 1. janúar hækkuðu eignamörk úr 5.971.000 kr. í 6.186.000 kr. á milli ára. Auk þess beindi félagsmálaráðuneytið þeim tilmælum til sveitarfélaga að taka mið af þessari hækkun við endurskoðun reglna þeirra um sérstakan húsnæðisstuðning.

Dómstólar og Umboðsmaður

ÖBÍ hefur á síðustu tíu árum oft leitað liðsinnis dómstóla og umboðsmanns Alþingis. Fjölmörg mál eru nú fyrir dómstólum, m.a. vegna „krónu á móti krónu“. Ánægjulegur sigur vannst fyrir héraðsdómi í máli manns sem neitað hafði verið um NPA vegna ónógrar greiðsluþátttöku ríkisins, sem dómurinn taldi ekki vera rök til að neita um þessi lögbundnu réttindi. Umboðsmaður hefur gefið út nokkur tímamótaálit, meðal annars um ólögmæta skerðingu TR vegna búsetu erlendis, sem þrátt fyrir tilmæli umboðsmanns heldur áfram á sömu braut. Umboðsmaður sendi einnig frá sér tímamótaálit um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga vegna hjálpartækja, þar sem það var álit umboðsmanns að SÍ (úrskurðarnefnd) hefði með því að miða við að hjálpartæki teldist ekki nauðsynlegt ef viðkomandi kæmist af án þess, þrengdi með fortakslausum hætti að mati um einstaklingsbundið og heildstætt mat. Að hjálpartæki sé eitthvað sem fólk geti notað til að þjálfa líkama sinn og þar með bæta líf sitt, hefur ekki enn fengið náð fyrir augum stjórnvalda.

Baráttan fram undan

Það er ljóst að margir góðir áfangar hafa náðst síðustu tíu ár, þótt enn sé langt í land í sumum málum. Áfram er barist og er SRFF okkar leiðarstef enda um gríðarlega mikilvægan mannréttindasamning að ræða. Samningurinn gefur tóninn fyrir alla lagasetningu þar sem hagsmunir fatlaðs fólks er undir. Hann valdeflir og færir fötluðu fólki mikilvæg verkfæri í hendur í allri réttindabaráttu.

Nú er áherslan á einstaklinginn og þarfir hans, en ekki kerfislæga hugsun. Mikilvægi þess að lögfesta samninginn er gríðarlegt, og eitt mesta hagsmunamál fatlaðs fólks sem ÖBÍ berst fyrir. Verum hugrökk!

Umsjón: Jón Þór Víglundsson.

Tímarit ÖBÍ 1. tbl. 2021 | Öryrkjabandalag Íslands (obi.is)