Skip to main content
KjaramálUmsögn

1. mál. Fjárlög 2021

By 15. mars 2021september 1st, 2022No Comments
Alþingi
Nefndasvið
Austurstræti 8-12

150 Reykjavík

Reykjavík, 22. október 2020

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um frumvarp til laga um fjárlög 2021, þingskjal 1. – mál 1.

Öryrkjabandalag Íslands sendir hér með umsögn um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2021. Fjárlög hvers árs eru gríðarlega mikilvæg fyrir fatlað fólk, enda snerta þau alla málaflokka sem varða þennan fjölbreytta hóp fólks. Í umsögn þessari er alloft vitnað í samning Sameinuð þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, og er hann þá skammstafaður SRFF, enda eru íslensk stjórnvöld skuldbundin samkvæmt honum til að undirbúa lagasetningu sem þessa í samráði við fatlað fólk sbr. 3. tl. 4. gr. samningsins.

„Mikilvægt er að fólk með skerta starfsgetu njóti mannréttinda, valfrelsis og sjálfstæðis. Fólk með skerta starfsgetu verður að geta lifað sjálfstæðu lífi, á eigin forsendum, og geta framfleytt sér af tekjum sínum” [1]. Mikilvægt er að þjónustan sem fatlað og langveikt fólk njóti sé framsækin og metnaðarfull og í fullu samræmi við þá alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að, svo sem SRFF, og að sjálfsögðu í samræmi við gildandi lög og reglur. Þar má til dæmis minna á lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, hér eftir stytt í umsögn þessari sem lög nr. 38/2018, þar sem talsvert vantar upp á að annað sé eftirspurn eftir NPA samningum.

Mikilvægt er í öllum aðgerðum ríkisvaldsins, sem fatlað fólk og langveikt á allt sitt undir, sé lögð áhersla á mannréttindi og bann við mismunun á grundvelli fötlunar, og þannig tryggt að fatlað fólk og langveikt, njóti frelsis til jafns við aðra til mannsæmandi lífs.

Það hefur aldrei verið mikilvægara að leiðrétta kjör öryrkja en nú. Við sem þjóð getum ekki boðið fötluðu og langveiku fólki upp á að lifa í fátækt allt sitt líf. Við getum betur. Við getum ekki sætt okkur við, að í því ástandi sem nú ríkir, eigi þessi hópur ekki fé aflögu til að sinna einföldustu sóttvörnum. Öryrkjar sem leita nauðbeygðir á náðir hjálparstofnana um nauðsynjar til daglegs lífs hafa ekki ráð á grímum og sótthreinsiefnum.

Í skýrslu starfshóps fjármálaráðherra um skattundanskot, sem var skilað 20. júní 2017, kemur fram að skattundanskot geti numið milli 3% og 7% af landsframleiðslu hvers árs. Árið 2019 urðum við því af á milli 89 og 207 milljörðum króna. Það er hægt að leiðrétta margt fyrir þær fjárhæðir.

Í hnotskurn:

Mjög mikilvægt er  að uppfæra öll þau tekju- og eignaviðmið sem staðið hafa óbreytt árum saman, og valda gríðarlegum víxl- og keðjuverkunum í annars flóknu og ógagnsæu kerfi almannatrygginga. Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá ágúst 2020, er lögð áhersla á að einfalda kerfi almannatrygginga. ÖBÍ tekur heils hugar undir það.

27 Örorkulífeyrir

Enn eitt árið eru lögð fram fjárlög þar sem ekkert er að gert til að losa fjölda fólks úr þeirri gildru fátæktar sem örorka er. Bil milli lágmarkslauna og örorkugreiðslna breikkar enn. Við gildistöku þessara fjárlaga, ef ekkert er að gert, verða örorkugreiðslur ekki nema ¾ af lægstu launum í landinu. Það er óásættanleg staða, og ekki sæmandi þjóð sem stærir sig á tyllidögum af norrænu velferðarsamfélagi.

ÖBÍ telur gríðarlega mikilvægt að lífeyrir almannatrygginga verði hækkaður verulega og að unnið verði að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu.

Ríkið hefur ekki staðið við eigin áætlanir um fjölgun NPA samninga sem fram koma í bráðabirgðaákvæði laga nr. 38/2018, og því verður að verja meiri fjármunum í fjölgun NPA samninga þar sem sveitarfélög hafa í framkvæmd takmarkað fjölda samninga við veitt mótframlög ríkisins.

Brýnustu breytingar:
Hækka þarf örorkulífeyrisgreiðslur án heimilisuppbótar, til jafns við lægstu laun

20 – 22 Menntamál

Bundið er í lög að nemendur með sértækar þarfir hafi jöfn tækifæri og jafnan rétt til náms og njóti til þess viðeigandi stuðnings. Jafnframt eru íslensk stjórnvöld skuldbundin til þess að veita og tryggja sömu þjónustu og réttindi skv. alþjóðasamningum, sbr. 24. gr. SRFF um menntun og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Samkvæmt stjórnarsáttmálanum boðar ríkisstjórnin til stórsóknar í menntamálum með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi en ekki er að sjá að fjármagn fylgi þeim fyrirheitum.

Brýnustu breytingar:
Tryggja verður að fatlaðir nemendur og nemendur með sérþarfir fái kennslu, stuðning og námsefni við hæfi og geti náð árangri í námi í umhverfi án aðgreiningar.

30 Vinnumarkaður

Nauðsynlegt er að skapaðar verði aðstæður þar sem einstaklingar með skerta starfsgetu verði hluti af hinum almenna vinnumarkaði. Einstaklingar með skerta starfsgetu hafa oft litla möguleika á að komast út á vinnumarkaðinn þar sem framboð af hlutastörfum, sveigjanlegum störfum og störfum þar sem viðeigandi aðlögun er í boði, er mjög takmarkað. Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar átti að hefja átak í að skapa störf fyrir fólk með skerta starfsgetu hjá hinu opinbera. Í ljósi atvinnuástandsins í kjölfar kórónuveirufaraldursins er enn brýnna en áður að standa við gefin loforð og tryggja fólki með skerta starfsgetu fjölbreytt störf hjá hinu opinbera.

Brýnustu breytingar:
Stofnaður verði sjóður sem atvinnurekendur geta leitað í til greiðslu kostnaðar af viðeigandi aðlögun.

31 Húsnæðismál

Eins og ÖBÍ hefur bent á í umsögnum sínum um hlutdeildarlán þá eru þau ekki vænlegur kostur fyrir öryrkja á lægsta tekjubili og því hefði verið nauðsynlegt að sjá eðlilega hækkun á örorkugreiðslum, afnámi skerðinga og hækkun á frítekjumarki til jafns við eldri borgara.  Eftir sem áður búa öryrkjar við þá tekjustöðu að eiga bæði erfitt með að ná endum saman á leigumarkaði sem og að eiga afar erfitt með að safna  fyrir útborgun í íbúð og komast í gegnum greiðslumat.

Mikilvægt er að leigufélög líkt og Brynja-hússjóður, sem á og rekur íbúðir fyrir öryrkja, fái aðild að stofnframlögum til þess að geta komið til móts við mikla þörf fyrir húsnæði á viðráðanlegri leigu. Í dag eru um 500 einstaklingar á biðlista hjá Brynju og lokað hefur verið fyrir nýjar umsóknir í hart nær tvö ár.

Á hverju ári neyðist fjöldi fólks til að flytjast á hjúkrunarheimili þar sem það er orðið of veikburða til að búa á eigin heimili, því þrátt fyrir aðstoð heima gerir óaðgengileiki heimilisins viðkomandi ókleift að búa þar.

Í fjármálaáætlun kemur fram að „framlag Íslands til heimahjúkrunar (sem hlutfall af vergri landsframleiðslu) var árið 2015 0,1% þegar aðrar Norðurlandaþjóðir vörðu 0,8–1,5% af sinni landsframleiðslu til málaflokksins.” Enga styrki eða lán er að fá til breytinga á húsnæði til að bæta aðgengi fólks að heimilum sínum.

Brýnustu breytingar:
Hækkun örorkulífeyris svo öryrkjar geti verið þátttakendur á húsnæðismarkaði, hvort heldur sem leigjendur eða eigendur.

23 – 26 Heilbrigðismál

Í tilkynningu segir að framlög til heilbrigðismála aukist á næsta ári um ríflega 15 ma. kr. að frátöldum launa- og verðlagsbreytingum. Ef rýnt er í frumvarpið má sjá að þar af fari ríflega 10 ma. kr. í byggingarframkvæmdir, mest til nýja Landspítalans. Þá eru framlög til reksturs og uppbyggingu hjúkrunarrýma aukin um ríflega 3,3 ma. kr. Eftir eru um 1,7 ma. kr. til ráðstöfunar í heilbrigðisþjónustuna.

Óvissa, félagsleg einangrun og stóraukið atvinnuleysi þýðir að það þarf að byggja upp geðheilbrigðiskerfið með bættu aðgengi að sálfræðingum og áætlunum í geðheilbrigðismálum. Það er ánægjulegt að sjá að stjórnvöld hafa veitt 540 m. kr. í tímabundið framlag til þess verkefnis. Gera þarf áætlanir til að mæta eftirköstum á heilsu þeirra einstaklinga sem hafa sýkst af kórónuveirunni. Gera þarf ráðstafanir til að mæta þeim neikvæðu áhrifum sem faraldurinn hefur haft á sjúklinga sem hafa neitað sér um að sækja heilbrigðisþjónustu af ótta við faraldurinn, eða til að auka ekki álagið á heilbrigðiskerfið. Það verður að vinna hratt niður biðlista sem síst hafa styst í faraldrinum. Það þarf að gera ráð fyrir talsverðu bakslagi í líkamlegri heilsu fólks sem ekki hefur getað sótt sjúkraþjálfun og aðra endurhæfingu meðan bylgjurnar hafa gengið yfir.

Brýnustu breytingar:
Greiðsluþátttaka sálfræðiþjónustu sem koma á til framkvæmda um næstu áramót verði fullfjármögnuð.

Í ítarlegra máli:

27 Örorka og málefni fatlaðs fólks

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir  3,6% hækkun á upphæðir greiðslna almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir næsta ár, sem þýðir í raun 9.201 kr. hækkun óskerts lífeyris, eða úr 255.834 kr. í 265.044 kr. „Hækkunin byggist á mati á áætluðum meðaltaxtahækkunum á vinnumarkaðinum í heild fyrir árið 2021″. Það er allt of lítið og gerir lítið sem ekkert til að minnka hið mikla bil sem orðið er á milli lægstu launa og örorkulífeyris. 

Í fjárlagafrumvarpinu [2] kemur fram að spáð er 5,2% hækkun launa á komandi ári. Það er afstaða ÖBÍ að skv. 69. gr laga um almannatryggingar ætti að lágmarki  að hækka greiðslur almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar um að minnsta kosti þá prósentutölu. Um margra ára skeið hefur dregið mikið í sundur með öryrkjum og öðrum í þjóðfélaginu hvað kjör varðar.  Atvinnuleysisbætur og lágmarkslaun hafa hækkað mun meira en örorkulífeyrir.

Núverandi ríkisstjórn tók við völdum eftir alþingiskosningarnar 2017. Samanburður upphæða lágmarkslauna, atvinnuleysisbóta og örorkulífeyris á kjörtímabilinu má sjá í eftirfarandi töflum. Forsendur fyrir 2021 eru samkvæmt fjárlagafrumvarpi.

Tafla 1- Samanburður á tekjum

Séu hækkanir á kjörtímabilinu bornar saman, má sjá að sláandi munur er á þessum hópum öryrkjum í óhag. Hækkanir voru í krónutölum eins og eftirfarandi tafla sýnir.

Tafla 2 - samanburður á hækkunum

Það er nöturlegt að bera saman hækkanir atvinnuleysisbóta, lágmarkslauna og örorkulífeyris síðustu ára. Á núverandi kjörtímabili hafa grunnatvinnuleysisbætur náð að halda nokkurn veginn í við lágmarkslaun, eftir að hafa verið hækkaðar sérstaklega 1. maí 2018, á meðan örorkulífeyrir rétt heldur í við verðbreytingar og þá varla það. Nánast aldrei ganga spár um forsendur fjárlagafrumvarps eftir, en á þeim eru hækkanir almannatrygginga byggðar. Aldrei er litið í baksýnisspegilinn og leiðrétt, hafi grunn forsendur fjárlaga ekki staðist. Útkoman er öllum ljós, örorkulífeyrir situr eftir og bilið breikkar. Atvinnuleysisbótum var árum saman breytt um sömu prósentu og lífeyrir almannatrygginga. Bilið á milli grunnatvinnuleysisbóta og óskerts örorkulífeyris hefur nú  hins vegar aukist mjög, er nú rúmar 33.000 kr. á mánuði og verður rúmar 34.000 kr. um áramótin. Það skýtur skökku við að grunn atvinnuleysisbætur, sem hugsaðar eru sem skammtímaúrræði, séu umtalsvert hærri en lífeyrir almannatrygginga, sem er langtímaúrræði fyrir einstaklinga sem ekki geta heilsu sinnar eða fötlunar vegna, verið þátttakendur á vinnumarkaði og margir hverjir eiga ekki kost á að bæta hag sinn. Þá hafa örorkulífeyrisþegar oftar en ekki mikinn viðbótarkostnað vegna fötlunar sinnar og/eða sjúkdóma.  Það er umhugsunarefni sú forgangsröðun ríkisstjórnar og Alþingis, þegar svo augljóslega og freklega er gengið fram hjá lífeyrisþegum.

Til að örorkugreiðslur verði sambærilegar lægstu launum, og bilið sem aukist hefur stöðugt frá árinu 2007 hverfi, þarf að hækka þær um ríflega 30%

Þegar þróun hækkana og upphæða almannatrygginga er borin saman við hækkun lágmarkslauna, atvinnuleysisbóta eða almenna launaþróun (launavísitölu) þá hefur lífeyrir almannatrygginga dregist verulega aftur úr.

Tillaga að breytingu:
Óskertar greiðslur til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega verði hækkaðar að lágmarki, til jafns við lágmarkslaun, með hækkun greiðsluflokksins örorkulífeyri (grunnlífeyrir) um (85.956 kr.) sem uppá vantar til að örorkugreiðslur verði jafnar lágmarkslaunum frá 1. janúar 2021.
Auk þess er lagt til að að óskertar greiðslur til örorku- og endurhæfingarlífeyris hækki afturvirkt frá 1. apríl 2019 í 317.000 kr. á mánuði og frá 1. apríl 2020 í 335.000 kr. á mánuði í samræmi við lífskjarasamninginn.

Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar, Tryggingastofnun ríkisins og staða almanna-trygginga, er það ein af megin tillögum Ríkisendurskoðunar til úrbóta að  “…ljúka sem fyrst heildarendurskoðun laga um almannatryggingar. Lagaumgjörðin er flókin og tiltekin ákvæði eru opin til túlkunar. Þá þarf að útfæra önnur ákvæði nánar með setningu reglugerða, s.s. ákvæða um endurhæfingarlífeyri.”

ÖBÍ tekur heilshugar undir það markmið sem sett er fram með málaflokknum, að einfalda og gera sveigjanlegra greiðslukerfi almannatrygginga vegna skertrar starfsgetu. ÖBÍ er tilbúið til samstarfs um það verkefni enda löngu tímabært  að farið verði í breytingar á almannatryggingakerfinu með það að markmiði að einfalda það og draga úr tekjuskerðingum.

ÖBÍ mótmælir hins vegar því sem sett er fram í markmiði 2 harðlega. Það getur ekki verið  forsenda þess að aukin áhersla verði lögð á getu einstaklinga til þátttöku á vinnumarkaði,  að komið verði á fót nýju matskerfi almannatrygginga. Starfsgeta fatlaðs og langveiks fólks verður að meta út frá líkamlegu andlegu ástandi, samkvæmt læknisfræðilegu mati og félagslegu. Það hlýtur á endanum að vera mat einstaklingsins sjálfs, að meta eigin starfsgetu. Það er hins vegar mjög mikilvægt að efla hverskonar endurhæfingu og fjölga hlutastörfum, mæta fyrirtækjum og stofnunum varðandi viðeigandi aðlögun og auka sveigjanleika á atvinnumarkaði. Ekki síður að fjarlægja þær girðingar sem reistar hafa verið um atvinnuþátttöku öryrkja, og setja inn jákvæða hvata til atvinnuþátttöku. Ekkert af þessu eru þó forsendur fyrir því að hækka örorkugreiðslur.

Aðhaldskrafa

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að hlutdeild málaefnissviðsins í aðhaldskröfu sé samtals 512.2 m kr.  Í kafla 5.1. í þessu sama frumvarpi segir orðrétt: „Engin aðhaldskrafa er sett á bótakerfi almannatrygginga og atvinnuleysis, sjúkratrygginga og dómstóla.“ Ekki er augljóst hvar þetta aðhald á að koma fram, en það er með öllu ótækt að setja aðhaldskröfu á málefnasvið sem hefur verið svelt og dregist aftur úr árum saman.

Tillaga að breytingu:
Fallið verði frá öllum aðhaldskröfum á þessu málefnasviði.

Óráðstafað og óskilgreint fjármagn til að bæta kjör öryrkja

Í fjárlagafrumvarpi síðasta árs var gert ráð fyrir „útgjaldasvigrúmi innan ramma málefnasviðsins í ný eða aukin verkefni, samtals 1.100 m. kr. vegna kerfisbreytinga í almannatryggingum til að bæta kjör öryrkja”2  Þeirri fjárhæð hefur enn ekki verið ráðstafað og óljóst er hvernig henni skuli varið. Til að bæta kjör öryrkja þarf umtalsvert meira fjármagn en 1.100 m. kr. og er ljóst að fjárhæðin dugar skammt fyrir málaflokk sem hefur verið sveltur áratugum saman. Þegar þessi umsögn er rituð er þessum fjármunum enn óráðstafað. Ekki er annað að sjá en þessir fjármunir flytjist yfir á nýtt fjárlagaár í fjárlagafrumvarpi ársins 2021 en ekki hægt að sjá hvort eða hvernig henni verði ráðstafað.

Frítekjumörk 

Í frumvarpinu er ekki að finna nein áform um að draga úr tekjuskerðingum á greiðslum til örorku- eða endurhæfingarlífeyrisþega. Frítekjumörk í lögum um almannatryggingar hafa verið óbreytt frá árinu 2009.  Í umsögnum síðustu ára hefur ÖBÍ ítrekað mikilvægi þess að halda inni frítekjumarki vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega og lögfesta það. Frítekjumark á atvinnutekjur hvetur örorkulífeyrisþega sem hafa vinnufærni til atvinnuþátttöku. Á meðan frítekjumarkið stendur í stað og laun á vinnumarkaði hækka, þá skila launahækkanir sér ekki til örorkulífeyrisþega. Ef frítekjumark vegna atvinnutekna hefði hækkað í samræmi við hækkun launavísitölu frá árinu 2009, væri frítekjumarkið komið yfir  217.000 kr. á mánuði í stað 109.600 kr.

Tillaga að breytingu:
Frítekjumark vegna atvinnutekna örorkulífeyris verði hækkað að lágmarki upp í 217 þúsund kr. í samræmi við hækkun launavísitölu frá árinu 2009. Frítekjumark á örorkulífeyri (grunnlífeyris) verði hækkað með sama hætti.

Víxlverkun örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða 

Í frumvarpinu er lagt til að framlengja bráðabirgðaákvæði til að koma í veg fyrir víxlverkun milli örorkugreiðslna frá almannatryggingum annars vegar og frá lífeyrissjóðum hins vegar. Bráðabirgðaákvæði þetta hefur verið í gildi frá 1. janúar 2014.  

Á meðan ekki hefur verið fundin framtíðarlausn í málinu, er slíkt bráðabirgðaákvæði nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að lífeyrissjóðsgreiðslur til örorkulífeyrisþega lækki enn frekar eða falli jafnvel niður. Allt frá árinu 2009 hefur ÖBÍ lagt áherslu á að fundin verði framtíðarlausn sem ver hagsmuni allra örorkulífeyrisþega. 

Þessi tillaga hefur komið fram í fjárlagafrumvörpum á hverju einasta ári frá árinu 2013 en ekki fengið neina athygli stjórnvalda.

Tillaga að breytingu:
Alþingi setji lög til að koma í veg fyrir að lífeyrissjóðir skerði greiðslur til örorkulífeyrisþega með hliðsjón af tekjum frá TR. 

Þjónusta við börn

Fagna ber því að bæta eigi gæði þjónustu við fötluð börn og börn með seinkun í þroska og fjölskyldur þeirra. Hins vegar er ekki að sjá að fjármagn fylgi þeim fyrirheitum og því óhugsandi að stjórnvöld geti staðið undir slíkum fyrirheitum. ÖBÍ fagnar þeirri stefnu að snemmtæk íhlutun verði í fyrirrúmi í þjónustu við fötluð börn og ítrekar mikilvægi þverfaglegrar þjónustu barninu til heilla. Slík nálgun er barninu fyrir bestu og eykur tækifæri þess til þátttöku í samfélaginu til frambúðar. Í fjármálaáætlun kemur fram að fyrirbyggja eigi að börn falli milli kerfa og fái ekki viðeigandi þjónustu, draga eigi úr biðtíma eftir greiningu og fækka börnum sem þurfa á sértækri greiningu að halda. Slík fyrirheit kalla á snemmtæka íhlutun og samspil milli kerfa. Ákall eftir slíkri þjónustu hefur verið í áraraðir og ljóst er að slíkt kostar bæði fjármagn og aðlögun.

Minnt er á skuldbindingar hins opinbera gagnvart ákvæðum samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sérstaklega 28. gr. um viðunandi lífskjör og félagslega vernd, og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, s.s. númer 1 um fátækt og númer 10 um aukinn jöfnuð.

Tillaga að breytingu:
Verulega þarf að auka þarf fjármagn til að standa undir snemmtækri íhlutun og er lagt til að áhersla verði lögð á að komið verði til móts við öll börn sem þurfa á aðstoð að halda.

Réttindagæslumenn fatlaðs fólks

Réttindagæslumenn fatlaðs fólks eiga sér stoð í lögum nr. 88/2011 og er kveðið á um starfsskyldur þeirra til að styðja við fatlað fólk. Hafa stjórnvöld með aðild sinni að samningi Sameinuðu þjóðanna, skuldbundið sig til að tryggja réttarvernd líkt og réttindagæslumenn eru og s.kv. almennum athugasemdum í 29. málsgrein við samning Sameinuðu þjóðanna fellur starf réttindagæslumanna undir þá skilgreiningu til að styðja við og tryggja réttláta málsmeðferð og réttaröryggi. Sú réttindagæsla er, eins og reynslan hefur sýnt, gríðarlega mikilvæg svo að fatlað fólk fái notið réttinda og tækifæra sem það á rétt á samkvæmt lögum og samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, og fái til þess nauðsynlegan og viðeigandi stuðning.

Á fundi réttindavaktar félagsmálaráðuneytisins sem ÖBÍ á aðilid að, kom fram töluverð aukning á málum hjá réttindagæslumönnum á síðast liðnum árum. Það er því óumdeilanlegt að réttindagæslan hefur verið og er vanfjármögnuð og undirmönnuð miðað við þau mikilvægu og mörgu verkefni sem hún þarf að sinna. Það er því óskiljanlegt að ekki skuli gert ráð fyrir fjárveitingum til réttindagæslunnar í fjárlagafrumvarpinu og þingsályktun um fjármálaætlun í samræmi við það vinnuálag sem þar er til staðar.

Framlag til réttindagæslunnar er í frumvarpinu lækkað um 4 milljónir frá ríkisreikningi 2019 og um 7,6 milljónir frá áætlun fyrir árið 2021. Í fjármálaáætlun er svo fyrisjáanleg enn frekari lækkun til næstu ára.

Tillaga að breytingu:
Frekar þyrfti að auka við fjármagn til réttindagæslu fatlaðra en draga úr.

Hækkun krónutöluskatta- og gjalda

Í frumvarpinu er víða að finna hækkun krónutölu skatta og gjalda um 2.5%.

í ljósi þess að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að verðbólga verði yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans, leggur ÖBÍ til að þessar hækkanir verði felldar út svo að verðbólgumarkmið náist.

Þá verður einnig að hafa í huga að krónutölugjöld eru flatir skattar sem leggja sömu gjöld í krónum talið á þann sem hefur mjög lágar tekjur og þann sem hefur mjög háar tekjur. Þessar hækkanir hafa því mun meiri áhrif á tekjulága en þá sem meira hafa milli handanna og ganga þvert á markmið boðaðra breytinga á tekjuskattskerfinu sem ætlað er að jafna skattbyrði með því að lækka skatta þeirra lægstlaunuðu.

Tillaga að breytingu:
Fella út hækkanir á krónutölu gjöldum og sköttum.

Áhrif fyrirhugaðra skattkerfisbreytinga í fjárlögum á lágtekjufólk

Rannsóknir hafa  sýnt að lágtekjufólk hefur borið sífellt þyngri skattbyrði síðustu árin. [3]  Í byrjun árs 2020 var tekið upp 3ja þrepa skattkerfi með lægri grunnprósentu samhliða lækkun persónuafsláttar með það m.a. fyrir augum að auka ráðstöfunartekjur lægri tekjuhópa. Síðari hluti þessa breytinga kemur til framkvæmda í byrjun árs 2021. Í frumvarpinu er því haldið fram að breytingin muni alls hækka ráðstöfunartekjur þeirra tekjulægstu um rúmlega 120 þúsund krónur á ári. 

Það er ljóst að hér er átt við einstakling á vinnumarkaði og á lægstu launum. Raunverleg aukning ráðstöfunartekna öryrkja er allt önnur. Ef lífeyrir almannatrygginga hækkar um 3,6% munu ráðstöfunartekjur þess sem fær  óskertar örorkugreiðslur (265.044 kr.) einungis aukast um 2.951  kr. á mánuði eða 35.412 kr. á árinu vegna skattkerfisbreytinganna. Í fjárlagafrumvarpinu segir enn fremur að nýtt skattkerfi sé í þágu þeirra tekjulægri og muni létta til muna skattbyrði lágtekju- og millitekjuhópa. Áhrif skattkerfisbreytinganna fyrir örorkulífeyrisþega og aðra með mjög lágar tekjur er langt frá því að hækka mjög lágar ráðstöfunartekjur þeirra um 120 þúsund kr. á ári. [4]

NPA Notendastýrð persónuleg aðstoð

Ríkið hefur ekki staðið við eigin áætlanir um fjölgun NPA samninga sem fram koma í bráðabirgðaákvæði laga nr. 38/2018 um um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og því verður að verja meiri fjármunum í fjölgun NPA samninga þar sem sveitarfélög hafa í framkvæmd takmarkað fjölda samninga við veitt mótframlög ríkisins.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 38/2018 eiga fatlaðir einstaklingar lögbundinn rétt á notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA). Ríkið er hins vegar ekki að mæta því mótframlagi sem þarf til þess að þeir sem tilheyra þessum hópi geti notið þessa lögbundna réttar síns, til sjálfstæðs lífs, þar sem sveitarfélög landsins hafa takmarkað fjölda samninga við mótframlög frá ríkinu.

Sem dæmi um þetta vísast til meðfylgjandi minnisblaðs frá Reykjavíkurborg dags. 4. desember 2019 (fylgiskjal. nr. 1). Þar kemur fram að þegar minnisblaðið er ritað hafi 19 einstaklingar þegar verið á biðlista eftir NPA samningi í sveitarfélaginu. Á blaðsíðu þrjú í minnisblaðinu kemur fram að samkvæmt mati sveitarfélagsins þurfi ríkið að koma með mótframlag upp á samtals 120 milljónir kr., vegna þessara tilteknu einstaklinga. Á minnisblaði frá sama sveitarfélagi, dagsetu 6. maí 2020 (fylgiskjal nr. 2), kemur fram að í maí síðastliðnum hafi biðlistinn lengst og á honum væru 25 einstaklingar með fullunna umsókn um NPA sem biðu eftir að þjónusta yrði virk. Rúmlega 200 milljónir þyrftu að koma í mótframlag frá ríkinu til þess að hægt væri að virkja þessa samninga í samræmi við lögbundinn rétt þeirra. Hér er aðeins tekið dæmi um eitt sveitarfélag á landinu. Blasir því við að ríkið þarf að setja aukin framlög í þennan málaflokk í fjárlögum þeim sem nú er unnið að.

Samkvæmt svari félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Halldóru Mogensen um NPA samninga kemur fram að við árslok 2019 hafi verið 87 virkir NPA samningar í landinu.  Fyrrnefnt bráðabirgðaákvæði gerir ráð fyrir að þeir hefðu átt að vera allt að 103 á árinu 2019. Ljóst er að ekki hefur verið staðið við hlutdeild ríkisins til þess að fjármagna mætti 16 NPA samninga við þá sem bíða eftir slíkri þjónustu, sjá aftur minnisblöð frá Reykjavíkurborg. 

Fyrrgreint svar ráðherrans felur ekki í sér uppfærðar upplýsingar um hvort, og þá hve mörgum samningum, hefur verið bætt við á þessu ári, þrátt fyrir að spurningin hafi falið í sér beiðni um slíkar upplýsingar. Svigrúm til fjölgunar á þessu ári hefði átt að vera 42 samningar, m.v. fjölda samninga í árslok 2019. Samkvæmt upplýsingum sem ÖBÍ hefur er augljóst að slík fjölgun hefur ekki átt sér stað á þessu ári, þvert á móti virðist samningum hafa fjölgað lítillega. Telja má augljóst að ríkið hafi staðið gegn því að það svigrúm sem er til staðar skv. fyrrgreindu bráðabirgðaákvæði, hafi nýst fötluðu fólki sem vill og á lögbundinn rétt á að njóta NPA þjónustu.

Á árinu 2021, sem yfirstandandi fjárlagagerð fjallar um, gerir bráðabirgðaákvæðið ráð fyrir að ríkið komi með mótframlag fyrir allt að 150 NPA samninga. Fjárlagafrumvarpið eins og það stendur í dag gerir ráð fyrir aukningu upp á 140 milljónir fyrir þennan málaflokk. Slíkt framlag nægir ekki til að slá á biðlista hjá stærsta sveitarfélagi landsins, hvað þá á landsvísu.

Samkvæmt upplýsingum af vef Stjórnarráðsins var meðalupphæð samninga á ársgrundvelli 22.922.608 krónur. Ríkið greiðir mótframlag upp á 25% fyrir hvern samning sem þýðir að meðalframlag ríkisins á hvern NPA samning var 5.730.652 krónur árið 2019. Útreikningar sína að áætluð aukning skv. fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi nægi einungis fyrir rúmum 24 nýjum NPA samningum samkvæmt meðalkostnaði þeirra. Þetta þýðir að samningar munu mögulega verða rúmlega 100 á árinu 2021. Þetta þýðir að við gætum horft á þá sviðsmynd að samningar yrðu nálægt því takmarki sem til stóð að næðist árið 2019 árið 2021, m.v. forsendur bráðabirgðaákvæðisins. Betur má ef duga skal.

Það er því augljóst að ríkið er ekki að standa við sinn hlut þess samkomulags sem bráðabirgðaákvæðið kveður á um ef fjárlagafrumvarpið verður að óbreyttu að lögum.

Mikilvægt er að árétta að lokum í þessu samhengi að orðalagið „allt að“ sem finna má í umfjöllun um árlegan fjölda samninga í bráðabirgðaákvæðinu er byggt á þeirri hugsun að ef þörfin væri ekki til staðar yrðu samningar augljóslega færri. Hins vegar sést á greinargerð með ákvæðinu að þar er að finna stefnumótun ríkisins um fjölgun samninga eins og ætlast er til að hún verði af hálfu löggjafans.

Nú liggur fyrir að þörfin er sannarlega til staðar og fólk bíður eftir því að hefja sjálfstætt líf með NPA þjónustu og því er mikilvægt að ríkið bregðist tafarlaust við með fjármögnun til þess að hægt verði að standa undir þeim skuldbindingum sem finna má í lögum nr. 38/2018. Hins vegar er rétt að benda á að ef til tekst að fjölga samningum í takt við stefnu bráðabirgðaákvæðis laga nr. 38/2018, þ.e. að þeir verði  alls 150 á næsta ári, má telja að langstærstum hluta NPA þjónustu á Íslandi hafi þar með verið mætt þar sem um uppsafnaða þörf er að ræða en hefur hingað til ekki verið mætt allt frá því að innleiðingarferli NPA þjónustu hófst árið 2012. Það er mat ÖBÍ að með fjölguninni sem um ræðir verði þeir löngu biðlistar sem nú eru við lýði úr sögunni, og við taki hæg fjölgun sem auðveldara er að mæta hvað fjármögnun og áætlunargerð varðar.

Þá skal þess getið að fordæmalausar aðstæður í samfélaginu vegna heimsfaraldurs kórónaveirunnar hafa skapað aukið atvinnuleysi í landinu og ríkið hefur verið í aðgerðum til að stemma gegn atvinnuleysi en tilvalin aðgerð með slíkt markmið væri að útrýma biðlistum um NPA þjónustu. Hér er rétt að árétta að 90% af opinberum framlögum vegna NPA þjónustu fara í launakostnað. Það eru því fáar aðgerðir sem nýtast jafnvel til þess að auka atvinnuþátttöku í landinu auk þess sem um er að ræða mannréttindamál fyrir fatlað fólk sem á lögbundinn rétt til sjálfstæðs lífs.

Að lokum er afar mikilvægt að ríkið sjái til þess að laun aðstoðarfólks sem sinnir NPA þjónustu sæti breytingum í samræmi við hækkanir kjarasamninga og að þær verði ekki notaðar til niðurskurðar á þjónustu við notendur. Lögbinda þarf skyldu sveitarfélaga til að greiða aðstoðarfólki í samræmi við kjarasamninga. Þarf fjárlagagerðin að taka mið af slíkri þróun svo hún bitni ekki á fötluðu fólki sem þegar býr við NPA þjónustu formið.

Hvað rétt til sjálfstæðs lífs varðar er rétt að benda á það að alvarleg mannréttindabrot felist í því að vista fatlað fólk sem vill fá NPA þjónustu og fullnægir skilyrðum laga um að fá slíka þjónustu á hjúkrunarheimilum, eins og nú er raunin. Yfirvofandi er dómsmál vegna slíks tilfellis þar sem sveitarfélagið sem í hlut á hefur ekki getað veitt manneskjunni sem um ræðir NPA þjónustu vegna skorts á mótframlagi frá ríkinu. Sá þrýstingur  er óboðlegur sem nú ríkir gagnvart fötluðu fólki og aðstandendum þess um að sækja um vistun á slíkum stofnunum til að mæta þjónustuþörf. Stofnanavæðing sem þessi er skýrt brot á lögum nr. 38/2018 og Samningi sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk.

Minnt er á skuldbindingu stjórnvalda gagnvart samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, þá sérstaklega ákvæði 19. gr. um að lifa sjálfstæðu lífi án aðgreiningar í samfélaginu og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Tillaga að breytingu:
Aukin verði fjárframlög til að mæta eftirspurn um NPA þjónustu í samræmi við þau viðmið sem lög nr. 38/2018 kveða á um varðandi fjölda samninga.
Ríkið geri ráð fyrir að hægt sé að mæta kjarasamningsbundnum hækkunum launa aðstoðarfólks.
Að fatlað fólk sé ekki vistað á hjúkrunarheimilinum gegn vilja sínum, enda sé slík meðferð – sem viðgengst í dag – brot gegn rétti fólks til sjálfstæðs lífs og þar með lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk.

20 – 22 Menntamál

Menntun er mikilvæg fyrir alla, ekki síst fatlað fólk. Í nútímasamfélagi eiga allir að hafa jafnan rétt og aðgang að námi. Því ber stjórnvöldum og menntastofnunum að greiða leið fólks að menntun, hvort sem um er að ræða námsefni og aðstoð við hæfi eða aðgengi að upplýsingum og byggingum. 

Bundið er í lög að nemendur með sértækar þarfir hafi jöfn tækifæri og jafnan rétt til náms og njóti til þess viðeigandi stuðnings. Jafnframt eru íslensk stjórnvöld skuldbundin til þess að veita og tryggja sömu þjónustu og réttindi skv. alþjóðasamningum, sbr. 24. gr. SRFF um menntun og Barnasáttmála. Framboð til náms fyrir fatlaða nemendur og nemendur með sértækar þarfir á efri skólastigum hefur verið takmarkað og þá hefur aðgengi þeirra að námi og sértækum úrræðum verið af skornum skammti. Samkvæmt stjórnarsáttmálanum boðar ríkisstjórnin til stórsóknar í menntamálum með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi en ekki er að sjá að fjármagn fylgi þeim fyrirheitum.

Leik- og grunnskólastig

Núverandi löggjöf og stefnumótun fræðsluyfirvalda felur í sér stuðning við markmið og áherslur skólakerfis án aðgreiningar og eru í samræmi við alþjóðlega sáttmála og samninga sem Íslendingar hafa undirgengist. Í fjármálaáætlun kemur fram að mikilvægt sé að hafa væntingar til allra um að þeir geti lært, að allir geti lært og að allir skipti máli. Sérstaklega á að hlúa að nemendum í viðkvæmri stöðu vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna eins og við upplifun nú þegar heimsfaraldur geisar. Afar jákvætt er að stjórnvöld hafi áætlanir um að bregðast við þörf fyrir samræmd viðmið um þjónustu og skóla á landsvísu. Slíkt framtak hefur skort lengi og kemur í veg fyrir misrétti gagnvart búsetu. Þó er minnt á samráðsskyldu við hagsmunasamtök fatlaðs fólks þegar kemur að slíkri áætlunargerð.

Afar ánægjulegt er að áhersla sé lögð á að efla útgáfu námsefnis á táknmáli fyrir grunnskólanemendur. Mikilvægt er þó að horfa einnig til þess að nemendur hafa ólíkar þarfir og nauðsynlegt er að að koma til móts við alla nemendur og má þar nefna aðgengi að tæknilegum lausnum.

Tillaga að breytingu:
Lagt er til að auka fjármagn verulega í þennan málaflokk til að tryggja að fatlaðir nemendur og nemendur með sértækar þarfir fái kennslu, stuðning og námsefni við hæfi og geti náð árangri í námi í umhverfi án nokkurrar aðgreiningar.
Lagt er til að framlag til Menntamálastofnunar verði aukið til að koma til móts við námsgagnagerð sem mætir þörfum allra nemenda.

Háskólastig (21)

Hvergi er að sjá fyrirætlanir stjórnvalda um að auka aðgengi fatlaðra nemenda að háskólanámi. Staðreyndin er sú að fatlaðir nemendur hafa þurft að hverfa frá námi vegna þess að þörfum þeirra er ekki sinnt. Nauðsynlegt er að aðlaga háskólaumhverfið að þörfum nemenda með margvíslegar þarfir en ekki er að sjá að fjármagn sé sett í slíkar aðgerðir.

Tillaga að breytingu:
Lagt er til að auka fé verulega í þeim tilgangi að bæta aðgengi fatlaðra nemenda að háskólanámi. Koma þarf til móts við nemendur hvað varðar aðgengi, námsgögn, hvíldarrými, próftöku, sveigjanleika í námi og upptökur á fyrirlestrum.
Framhaldsfræðsla og menntun óflokkuð á skólastig (22.20)

Afar mikilvægt er að efla framhaldsfræðslu og  auka tækifæri fatlaðs fólks til að afla sér viðurkenndrar menntunar. Ljóst er að stór hópur þeirra sem útskrifast af starfsbrautum framhaldsskólanna fær ekki tækifæri til að sækja sér aukna menntun. Of fá úrræði eru í boði og dregið hefur úr framboði.

Undir þennan lið eru framlög til Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH) sem starfar skv. lögum nr. 129/1990 og til Fjölmenntar sem þjónar fullorðnu fötluðu fólki á grundvelli samnings við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Ítrekað hefur verið bent á nauðsyn þess að félagslegur túlkunarsjóður hljóti aukin fjárframlög en slíkt varðar mannréttindi þeirra sem nota félagslegan túlkunarsjóð og rittúlkun svo þeir geti lifað og starfað í samfélaginu til jafns við aðra. Í þessu samhengi má benda á mikilvægi 9.,  21. og 24. gr. SRFF sem fjalla um aðgengi í víðu samhengi, réttinn til tjáningar og skoðanafrelsis og aðgengi að upplýsingum og réttinn til menntunar.

Framlag til Fjölmenntar, símenntunar og þekkingarmiðstöðvar minnkar og er það ekki i takt við stefnu stjórnvalda um að auka virkni fatlaðs fólks.

Minnt er á skuldbindingar hins opinbera gagnvart samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, þá sérstaklega ákvæði 24. gr. um menntun og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 4 um menntun fyrir alla.

Tillaga að breytingu:
Framlag til SHH verði aukið verulega svo tryggt sé að allir sem þess þurfi fái félagslega túlkun og rittúlkun og geti lifað sjálfstæðu lífi og eflt samfélagsþátttöku sína.
Fjármagn verði aukið verulega til Fjölmenntar til að stuðla að auknum og fjölbreyttari námsúrræðum fatlaðs fólks.

30 Vinnumarkaður

Kveðið er á um réttinn til vinnu í 27. gr. SRFF. Þar segir að aðildarríkin verði að vinna að því að skapa inngildan vinnumarkað (e. inclusive employment market) sem stendur öllum opinn og er aðgengilegur. Tryggja verður stöðu allra einstaklinga, líka þeirra sem fatlast á þeim tíma sem þeir gegna starfi. Það skal gert m.a. með skýrri stefnumótun, lagasetningu og aðgerðum. Þörf er á stórsókn í þessum málum til þess að skapa vinnumarkað fyrir alla.

Nauðsynlegt er að skapaðar verði aðstæður þar sem einstaklingar með skerta starfsgetu verði hluti af hinum almenna vinnumarkaði. Einstaklingar með skerta starfsgetu hafa oft litla möguleika á að komast út á vinnumarkaðinn þar sem framboð af hlutastörfum, sveigjanlegum störfum og störfum þar sem viðeigandi aðlögun er í boði er mjög takmarkað.

Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar átti að hefja átak í að skapa störf fyrir fólk með skerta starfsgetu hjá hinu opinbera. Almennur vinnumarkaður átti í kjölfar þess að fylgja fordæmi hins opinbera og veita fólki með skerta starfsgetu tækifæri á vinnumarkaði. Nú þegar líður að lokum kjörtímabilsins bólar ekkert á þeim fyrirheitum. Í ljósi atvinnuástandsins í kjölfar kórónuveirufaraldsins er enn brýnna en áður að standa við gefin loforð og tryggja fólki með skerta starfsgetu fjölbreytt störf hjá hinu opinbera.

Það er stefna stjórnvalda að sem flestir geti verið virkir á vinnumarkaði og leggur ríkisstjórnin áherslu á virkni í námi og starfi. Auka á virkniúrræði fyrir fatlað fólk og koma á viðvarandi samstarfi við menntakerfið hvað varðar stuðning við atvinnuleitendur sem stunda nám á starfsbrautum framhaldsskóla og nemenda er stunda starfstengt nám við Háskóla Íslands. Ef vel á að vera þarf að tryggja aukin fjárframlög til þess að auka tækifæri ungs fatlaðs fólks í samfélaginu.

Tryggja þarf að fjárframlög til málaflokksins séu í samræmi við markmið hans. Fram kemur í fjármálaáætlun að mikilvægt sé að fjölga bæði atvinnutækifærum og vinnumarkaðsaðgerðum fyrir fólk með skerta starfsgetu. Það skýtur skökku við að ekki sé aukið við fjármagn til þess að styðja við þau markmið. Ekki er að sjá að fjármagn verði sett í að tryggja viðeigandi aðlögun fólks á vinnumarkaði þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar ÖBÍ um nauðsyn þess að stofna sjóð sem atvinnurekendur geti leitað í ef viðeigandi aðlögun felur í sér kostnað.

Minnt er á skuldbindingar hins opinbera gagnvart samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, þá sérstaklega ákvæði 2. gr. um atvinnu og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, númer 1 um enga fátækt, númer 2 um ekkert hungur og númer 8 um góða atvinnu og hagvöxt.

Tillaga að breytingu:
Stofnaður verði sjóður sem atvinnurekendur geti fengið greitt úr ef kostnaður hlýst af viðeigandi aðlögun á vinnustað.
Innleitt verði hvatningakerfi fyrir fyrirtæki og stofnanir til að auka starfsmöguleika fólks með skerta starfsgetu.
Aukið fjármagn verði sett í að styðja atvinnuleit nemenda á starfsbrautum framhaldsskóla og nemenda við starfstengt diplómanám í Háskóla Íslands til að tryggja samfellu frá skóla út á vinnumarkað.

31 Húsnæðisstuðningur

Það vekur athygli að fjármagn til þessa málaflokks lækki um tæpar 800 m. kr eða sem svarar 5,9%. Samkvæmt markmiðum málefnisins í frumvarpinu eru aukinn stöðugleiki á húsnæðismarkaði með auknu jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar húsnæðis, aukinn aðgangur að öruggu og viðeigandi húsnæði fyrir fyrstu kaupendur og tekjulága og eignalitla á viðráðanlegu verði og að húsnæðiskostnaður efnaminni fjölskyldna og einstaklinga verði lækkaður. Til að ná þessum markmiðum þá er ætlunin að auka stofnframlög til byggingar leiguhúsnæðis fyrir tekjulægri og einnig  voru samþykkt nýlega lög um hlutdeildarlán. Í þessu samhengi hefði verið eðlilegra að búast við auknu fjármagni í þennan málaflokk. Samkvæmt frumvarpinu þá skýrist þessi lækkun af „lækkun vaxtabóta til samræmis við raunútgreiðslur bóta en lagt er til að framlög til liðarins lækki um 217,5 m. kr.“

Hlutdeildarlán

Ekki verður betur séð að gert sé ráð fyrir fjármagni í hlutdeildarlánin en gert er ráð fyrir fjármagni í húsnæðisbætur, stofnframlög og vaxtabætur. Það er spurning hvort að það sé gert ráð fyrir því fjármagni annarsstaðar í fjárlagafrumvarpinu. Í greinagerð með frumvarpi um hlutdeildarlán er eftirfarandi tekið fram: „Líklegast er þó að umfangið verði um það bil 3,7 milljarðar kr. á ári, eða rétt rúm 400 lán.“ [5]  Ekki er að sjá að þessi upphæð sé tekin inn í fjárlagafrumvarpið. Sérstaklega er komið inn á að fjárþörf Húsnæðissjóðs verði aukin „á árinu 2021 vegna nýrra útlána úr sjóðnum sem fyrirhuguð eru og er þess vegna sótt um allt að 25 m. kr. heimild fyrir endurlánum úr ríkissjóði til Húsnæðissjóðs. Mögulegt er að sjóðurinn nýti þá heimild ekki að fullu heldu ráðstafi uppgreiðslum á eldri lánum í ný útlán.“ Ef ekki er hugsað fyrir fjármagni í þennan málaflokk þá er eins víst að ekki verði lánað fyrir 400 íbúðum árið 2021. Þá stangast það á við jafnræðisreglu að synja fólki um lán á þeim forsendum að fjármagnið sé uppurið.

Eins og ÖBÍ hefur bent á í umsögnum sínum um hlutdeildarlán þá eru þau ekki vænlegur kostur fyrir öryrkja á lægsta tekjubili og því hefði verið nauðsynlegt að sjá eðlilega hækkun á örorkubótum og afnám skerðinga og hækkun á frítekjumarki til jafns við eldri borgara.  Eftir sem áður búa öryrkjar við þá tekjustöðu að eiga bæði erfitt með að ná endum saman á leigumarkaði sem og eiga afar erfitt með að safna sér fyrir útborgun í íbúð og komast í gegnum greiðslumat.

ÖBÍ bendir á skuldbindingar hins opinbera gagnvart samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sérstaklega d. lið 2. tl. 28. gr. um viðunandi lífskjör og félagslega vernd þar sem segir að aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til félagslegrar verndar og til þess að njóta þess réttar án mismununar vegna fötlunar og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika, meðal annars ráðstafanir:   d) til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að húsnæðiskerfi á vegum hins opinbera.

Jafnframt eru stjórnvöld minnt á skuldbindingar sínar um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, s.s. markmið númer 11 um sjálfbærar borgir og samfélög.

Tillaga að breytingu:

Hækka örorkulífeyri svo fatlað fólk og öryrkjar hafi almennt frekar efni á að kaupa og/eða leigja
Setja inn í fjárlagafrumvarpið upplýsingar um áætlað fjármagn til hlutdeildarlána
Rýmka skilyrði til hlutdeildarlána svo að lánaflokkurinn sé valkostur fyrir fatlað fólk og öryrkja

Mikilvægi mismunandi búsetuúrræða fyrir fatlað fólk

Samkvæmt Landlækni þá eru á Íslandi í dag 147 manns undir 67 ára á hjúkrunarheimilum sem eru öll skipulögð með eldra fólk í huga. Mikilvægt er að fólk undir 67 ára sem þurfa mikla þjónustu sé boðin fjölbreyttari búsetuúrræði. Það er mikilvægt að ungt fólk og fjölskyldufólk með fötlun njóti þeirra lífsgæða að búa meðal sinna jafningja eða með fjölskyldum sínum. Það er mikil þörf á að auka valkosti ungs fatlaðs fólks þegar kemur að búsetuúrræðum. Í fyrsta lagi þarf fólki að standa til boða NPA þjónusta í auknum mæli sem og heimaþjónusta fyrir fólk með mikla þjónustuþörf kjósi fólk slíkt fremur. Þá er í öðru lagi mikilvægt að stjórnvöld stofni fleiri úrræði svo sem einhverskonar fjölskylduhús sem væru t.d. sérbýli með samtengdu rými þar sem fólk geti borðað saman í matsal eða nýtt aðra sameiginlega aðstöðu auk sinna íbúða. Í líkingu við þjónustuíbúðir en fyrir yngra fólk með mikla þjónustuþörf en þar sem svigrúm er að fá fjölskyldur sínar í heimsókn svo hægt sé að njóta samvista að vild.

Tillaga að breytingu:
Auka fjármagn í NPA þjónustu til að gera fleira fólki kleift að velja sér búsetu
Setja fjármagn í ný úrræði svo sem eins og fjölskylduhús

Stofnframlög

Í frumvarpinu er minnst á áframhaldandi uppbyggingu almenna íbúðarkerfisins með frekari stofnframlögum ríkis og sveitafélaga. Jafnframt er ætlunin að auka stofnframlög en samkvæmt frumvarpinu er engin aukning í þennan lið heldur helst hann nánast óbreyttur á milli ára þrátt fyrir að gera megi ráð fyrir hækkun á kostnaði við byggingu íbúðarhúsnæðis.

Mikilvægt er að leigufélög líkt og Brynja-hússjóður, sem á og rekur íbúðir fyrir öryrkja, fái aðild að stofnframlögum til þess að ná að koma til móts við mikla þörf fyrir íbúðir á viðráðanlegri leigu. Í dag eru um 500 einstaklingar á biðlista hjá Brynju og lokað hefur verið fyrir nýjar umsóknir í hart nær tvö ár.

Tillaga að breytingu:
Auka fjármagn í stofnstyrki og veita leigufélögum eins og Brynju-hússjóð möguleika á að sækja um styrkina. 

Húsnæðisbætur

Á fjárlögum ársins 2021 eru áætluð framlög til húsnæðisbóta 6,2 m. kr. Í lögum um húsnæðisbætur, nr. 75/2016, kemur fram að fjárhæðir frítekjumarka og fjárhæðir eignamarka komi til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Ekki er að sjá að gert sé ráð fyrir fjármagni til hækkunar á grunnfjárhæðum húsnæðisbóta eða frítekjumarka sem þýðir að stuðningur við leigjendur mun dragast saman að raunvirði og fækka mun í hópi þeirra sem rétt eiga á stuðningi. Árum saman hefur leiguverð hækkað umfram lífeyri almannatrygginga. „Samkvæmt leigukönnunum HMS hefur hlutfall ráðstöfunartekna sem fara í leigu verið í kringum 40% undanfarin ár. Miðað við skilgreiningu Eurostat er húsnæðiskostnaður yfir 40% af ráðstöfunartekjum skilgreindur sem íþyngjandi byrði.“ [6]

Tillaga að breytingu:
Grunnfjárhæðir auk tekju- og eignaviðmiða hækki að lágmarki í samræmi við vísitölu leiguverðs á árinu.

Vaxtabætur

Vaxtabætur hafa mikilvægu hlutverki að gegna fyrir alla þá sem greiða af húsnæðislánum. Vaxtabyrði er of mikil hér á landi. Mjög mikilvægt er að tekjulágir einstaklingar fái greiddar vaxtabætur svo þeir ráði frekar við greiðslu húsnæðislána. Það er því miður ekki raunin. Sökum þess að eignastofnar fyrir útreikning vaxtabóta eru lágir og hafa verið svo til óbreyttir í næstum áratug, hafa fjölmargir tekjulágir einstaklingar ekki fengið greiddar vaxtabætur undanfarin ár. Fasteignamat hefur hækkað verulega síðustu ár og því teljast þessir einstaklingar ekki skulda nægilega mikið í eigninni sinni enda þótt ekki hafi létt á vaxtabyrðinni. Einstaklingar með heildarárstekjur jafnvel undir 3.600.000 kr. fá ekki greiddar vaxtabætur þrátt fyrir að greiða meira en 30% af ráðstöfunartekjum sínum í vexti af húsnæðislánum og þá er eftir annar tilfallandi kostnaður vegna reksturs og viðhalds húsnæðis. Eigið fé í fasteign skiptir í raun ekki máli ef ráðstöfunarfé stendur ekki undir framfærslu. Húsnæðisstuðningur þarf fyrst og fremst að taka mið af tekjum fólks. Þetta er þess valdandi að tekjulágir einstaklingar missa eigið húsnæði og færast yfir á leigumarkaðinn, þar sem leiguverð er enn hærra en afborganir af eigin húsnæði. 

Í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir þá er yfirlýstur vilji stjórnvalda að einblína síður á húsæðisstuðning í formi vaxtabóta og einbeita sér frekar að því að auðvelda fólki enn frekar að eignast húsnæði með skattfrjálsri nýtingu séreignarsparnaðar. Í þessari fjárlagafrumvarpi hefur útgjaldaramminn verið lækkaður töluvert eða úr 3,4 ma kr. Árið 2020 í 2,6 ma fyrir árið 2021. Framlög til vaxtabóta hafa því skerst svo um nemur milli ára.

Hækka þarf eignastofna verulega. Eignastofn til skerðingar er í dag m.v. 5 milljónir króna hjá einstaklingi og 8 milljónir króna hjá hjónum en var árið 2010 (vegna ársins 2009) rúmlega 7,1 milljón króna hjá einstaklingi og tæplega 11,4 milljónir fyrir hjón/sambýlisfólk. Þá fellur réttur til vaxtabóta niður við nettóeign upp á 8 milljónir króna hjá einstaklingi en tæplega 12,8 milljónir króna hjá hjónum/sambýlisfólki. Þessi mörk miðuðust við tæplega 11,4 milljónir króna hjá einstaklingi og rúmlega 18,2 milljónir króna hjá hjónum fyrir árið 2009. Á sama tíma hefur fasteignaverð u.þ.b. tvöfaldast.

Tillaga að breytingu:
Lagt er til að reiknað verði út hversu mikið fasteignamat hefur hækkað frá árinu 2009 og eignamörkin uppfærist í samræmi við þá hækkun.  
Lagt er til að lögfest verði að eignastofn fyrir vaxtabætur hækki árlega í samræmi við þróun fasteignamats. 

Aðgengi að húsnæði

Á hverju ári neyðist fjöldi fólks til að flytjast á hjúkrunarheimili þar sem það er orðið of veikburða til að búa á eigin heimili, því þrátt fyrir aðstoð heima gerir óaðgengileiki heimilisins viðkomandi ókleift að búa þar. En meðan beðið er eftir plássi á hjúkrunarheimili eru viðkomandi  nánast í stofufangelsi á heimili sínu, því þau komast vart út vegna þess hve aðgengi að húsnæðinu er lélegt. Stærstur hluti íbúðarhúsnæðis á Íslandi er óaðgengilegur fólki með líkamlegar skerðingar. Því verður það að hafast þar við, oft í félagslegri einangrun og bíða þess að starfsmenn félagsþjónustunnar eða ættingjar vitji þeirra.

Það felur í sér að fólk verður að bíða eftir því að geta flutt út af heimili sínu, sem það hefur jafnvel átt í áratugi, þegar pláss losnar. Enn er brugðist við löngum biðlistum með því að byggja fleiri hjúkrunarheimili á meðan þjóðin eldist. Enn er ekkert gert til að gefa fólki kost á að lifa mannsæmandi lífi á eigin heimili. Í fjármálaáætlun kemur fram að „framlag Íslands til heimahjúkrunar (sem hlutfall af vergri landsframleiðslu) var árið 2015 0,1% þegar aðrar Norðurlandaþjóðir vörðu 0,8–1,5% af sinni landsframleiðslu til málaflokksins.”1 Það er mun betra að fjárfesta í þjónustuúrræðum í heimahjúkrun en í byggingu fleiri hjúkrunarheimila, sem þó er nauðsynleg eins og staðan er í dag.

Eðlilegast væri þó að veita fólki styrki og lán til að bæta aðgengi að og á heimilum sínum, eins og gert er í öllum nágrannalöndum okkar svo það geti búið þar. Þá myndu margir sleppa við vera í stofufangelsi meðan þeir bíða ef til vill eftir vist á stofnun þegar heilsan hefur versnað til muna. Ef vel ætti að vera gæti það orðið til þess að færri þyrftu að flytja á stofnun ef heimili þeirra yrðu aðgengileg. Styrkveitingar til að bæta aðgengi að og á heimilum munu því minnka þörf á fleiri stofnunum og þannig bæði spara fjármuni og bæta lífsgæði fólks, raunin er sú að flestir vilja búa heima hjá sér. Enga styrki eða lán er að fá til breytinga á húsnæði til að bæta aðgengi fólks að heimilum sínum.

Við yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga í ársbyrjun 2011 var framkvæmdasjóður fatlaðra lagður niður, þar var hægt að sækja um styrki meðal annars til aðgengis úrbóta í íbúðarhúsnæði og á vinnustöðum á almennum markaði. Í staðinn var settur á fót fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem skv. lögum „hefur það hlutverk að jafna aðstöðu sveitarfélaga við uppbyggingu eða breytingar á fasteignum sem nýttar eru í þjónustu við fatlað fólk með miklar og/eða sértækar stuðningsþarfir.”2 Fasteignasjóðurinn hefur því ekki nýst almenningi eða fyrirtækjum, heldur sveitarfélögum til úrbóta á eigin húsnæði.

Síðastliðinn maí voru breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995. Við lögin bættist nýtt bráðabirgðaákvæði, 13. gr. b., sem veitir heimild til að nýta 1.500 m. kr. úr fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til annars reksturs og framlaga, sem verður endurgreiddur smám saman til 2028. Þar með eru allir sjóðir til aðgengis úrbóta á húsnæði tæmdir næstu árin. Þessari þróun verður að snúa við.

Minnt er á skuldbindingar hins opinbera gagnvart ákvæðum samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þá sérstaklega 9. gr. um aðgengi og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, s.s. númer 3 um heilsu og vellíðan og númer 11 um sjálfbærar borgir og samfélög.

Tillaga að breytingu:
Lagt er til að stofnaður verði lána- og styrktarsjóður innan Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem einstaklingar og fyrirtæki geta sótt um til að bæta aðgengi fyrir fólk með hreyfiskerðingu að eldra húsnæði.
Æskilegt er að ríkið greiði a.m.k. helming í kaupum og uppsetningum á lyftu í stigagöngum á móti húsfélögum. Líta má til fyrirmynda á hinum Norðurlandanna, svo sem Husbanken í Noregi.

23 – 26 Heilbrigðismál

Í yfirlýsingu fjármála- og efnahagsráðuneytisins með fjárlagafrumvarpinu segir að “gert [sé] ráð fyrir að áhrif heimsfaraldurs kórónuveirunnar á ríkissjóð verði neikvæð um 192 milljarða króna á næsta ári” og að til þess “að sporna við útgjaldaaukningu er þess gætt að ný aukin útgjöld takmarkist við mótvægisráðstafanir vegna faraldursins.” [7]

Það ætti að þýða stórauknar fjárheimildir í heilbrigðismál til að mæta gríðarmiklu álagi á heilbrigðisstéttir og -stofnanir, sjúklinga og viðkvæma hópa. Óvissa, félagsleg einangrun og stóraukið atvinnuleysi þýðir að það þarf að byggja upp geðheilbrigðiskerfið með bættu aðgengi að sálfræðingum og áætlunum í geðheilbrigðismálum. Það er ánægjulegt að sjá að stjórnvöld hafa veitt 540 m. kr. tímabundið framlag til þess verkefnis, en það er brýnt að gera enn betur í geðheilbrigðismálum. Gera þarf áætlanir til að mæta eftirköstum á heilsu þeirra einstaklinga sem hafa sýkst af kórónuveirunni. Það þarf að gera ráðstafanir til að mæta þeim neikvæðu áhrifum sem faraldurinn hefur haft á sjúklinga sem hafa neitað sér um að sækja heilbrigðisþjónustu vegna ótta við faraldurinn eða til að auka ekki álagið á heilbrigðiskerfið. Það verður að vinna hratt niður biðlista sem síst hafa styst í faraldrinum. Það þarf að gera ráð fyrir talsverðu bakslagi í líkamlegri heilsu fólks sem ekki hefur getað sótt sjúkraþjálfun og aðra endurhæfingu meðan bylgjurnar hafa gengið yfir.

Í tilkynningu segir að framlög til heilbrigðismála aukist á næsta ári um ríflega 15000 m. kr. að frátöldum launa- og verðlagsbreytingum. Ef rýnt er í frumvarpið má sjá að þar af fari ríflega 10000 m. kr. í byggingarframkvæmdir, mest til nýja Landspítalans. Þá eru framlög til reksturs og uppbyggingu hjúkrunarrýma aukin um ríflega 3300 m. kr. Eftir eru um 1700 m. kr. til ráðstöfunar í heilbrigðisþjónustuna, en aðhaldskrafan á málaflokk heilbrigðismála er 2200 m. kr.

Minnt er á skuldbindingar hins opinbera gagnvart ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk, sér í lagi 19. gr. um að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar og 25. gr. um heilsu, ásamt heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sér í lagi númer 3 um heilsu og vellíðan  og númer 10 um aukinn jöfnuð.

Sálfræðiþjónusta

Lengi hefur verið barist fyrir því að sálfræðiþjónusta verði gerð aðgengileg almenningi. Fæstir sem þurfa nauðsynlega á henni að halda geta staðið undir kostnaði vegna hennar, þar sem hún hefur ekki verið niðurgreidd af hinu opinbera. Það voru gleðitíðindi þegar fréttir bárust að Alþingi Íslendinga samþykkti þingmannafrumvarp um að færa sálfræðiþjónustu og aðra gagnreynda samtalsmeðferð undir þak greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu með breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum (aðgengi að sálfræðiþjónustu og annarri klínískri viðtalsmeðferð).

Lögin taka gildi 1. janúar 2021, en ekkert hefur verið gefið út um hvernig undirbúningsvinnu miðar og fyrirspurn ÖBÍ, dags. 8/10.2020, til heilbrigðisráðuneytisins um stöðu reglugerðar og ákvörðun um fjármagn til að standa undir samningum við fagaðila hefur ekki verið svarað, sem gefur ekki góð fyrirheit um framhaldið. Það hefur þó verið staðfest að Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki fengið neitt frá ráðuneytinu til að byggja samninga á.

Í frumvarpinu er ekki eytt einu orði í að útskýra hvernig lögin eiga að koma til framkvæmda á nýju fjárlagaári. Engin hækkun er á lið 24.2 um sérfræðiþjónustu og hjúkrun, sem tekur til sérhæfðrar þjónustu utan sjúkrahúsa, svo ekki er útlit fyrir að samningar verði gerðir við sálfræðinga utan stofnana. Undir lið nr. 24.1 um heilsugæslu má sjá 200 m. kr. hækkun vegna fjölgunar fagstétta innan heilsugæslunnar, en meðal þeirra stétta eru sálfræðingar.  Í hnotskurn: SÍ hefur heimild til að semja, en ekkert regluverk eða fjárheimildir í því sambandi.

Það er mikilvægt að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað sjúklinga í heilbrigðiskerfinu, en heilsugæslan á ekki eftir að ráða við holskeflu fólks í þörf fyrir sálfræðiþjónustu þegar hún loksins er niðurgreidd. Í dag er staðan sú að bið eftir viðtali á þeim fáu heilsugæslustöðvum sem hafa starfandi sálfræðing er margir mánuðir og þá býðst ekki meðferð, né heldur tilvísun í sálfræðimeðferð utan stöðvarinnar. Auk þess er einfaldlega þörf fyrir fleiri heilsugæslustöðvar víða á landinu og því verður ekki breytt um áramótin.

Uppsöfnuð þörf í þjóðfélaginu var algerlega vanmetin þegar kostnaðarþátttaka við sjúkraþjálfun var verulega aukin 2016 með því að taka hana inn í kostnaðarþátttökukerfi með þaki á kostnað sjúklinga. Það er engin ástæða til að ætla annað en að álagið á heilbrigðiskerfið verði með svipuðum hætti þegar Sjúkratryggingar Íslands hafa regluverk og fjármuni til að niðurgreiða sálfræðiþjónustu.

Greiðsluþátttaka lyfja og í heilbrigðisþjónustu

Það vekur furðu og áhyggjur að fjárheimild vegna starfsemi sjúkra-, iðju- og talþjálfunar lækkar milli ára um 83,3 m. kr. og bitnar aðhaldskrafa illa á málaflokknum. Eins og margoft hefur verið sýnt fram á hefur sú staðreynd að aukin niðurgreiðsla þjálfunar frá 2016 hefur orðið til þess að þjakað fólk hefur getað haldið sér virku, enda sýna tölur umtalsverða fækkun í nýgengi örorkulífeyrisþega vegna stoðkerfissjúkdóma á tímabilinu. Þetta kemur enn fremur mjög illa heim og saman við endurhæfingaráætlun þá sem heilbrigðisráðherra hefur boðað. Á þessu ári hefur komið bakslag í endurhæfingu vegna kórónuveirunnar og hætta er á að talsverður vandi hafi safnast upp af þeim sökum. Því mætti ætla að þessi liður á fjárlögum þyrfti hækkunar við.

Greiðsluþátttaka er sáttmáli milli ríkisins, fagstétta og sjúkratryggðra um hámarkskostnað þeirra síðastnefndu. Sjúkratryggðir eru þó eini aðilinn sem ekki á beinan þátt í samningum. Nú eru samningar Sjúkratrygginga Íslands  við marga sérfræðilækna og sjúkraþjálfara lausir, sem þýðir að sáttmáli sá sem gerður var er brostinn og það bitnar eingöngu á sjúkratryggðum. Það er ljóst að sjúkraþjálfarar sjá sér lítinn hag í að ganga að þeim samningum sem Sjúkratryggingar vilja bjóða því aðeins eitt tilboð barst í útboð sem opnað var í byrjun árs. [8]  Fagstéttir með lausa samninga munu alltaf innheimta það sem þær telja að þær eigi inni með einhverjum hætti. Sjúkratryggingar Íslands munu ekki borga þann mismun heldur sjúkratryggðir í formi komugjalda og annars kostnaðar sem lagður er á eftir hentisemi. Allt tal um greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu er því marklaust þegar alls konar aukakostnaður er látinn viðgangast óáreittur.

Það þarf að endurskoða kerfin tvö. Mörg mikilvæg og nauðsynleg lyf eru enn ekki niðurgreidd og þá vantar enn margt undir þak greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu til að tryggja fólki samfellda og markvissa meðferð. Síðast en ekki síst er nauðsynlegt að lækka fyrsta skrefið inn í greiðsluþátttökukerfin. Kostnaður sjúkratryggðra í upphafi hvers tímabils veldur því að fólk þarf oft á tíðum að neita sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu vegna þess að reikningurinn er of hár áður en niðurgreiðsla Sjúkratrygginga fer að lækka hann. Það er mikil og óþarfa hindrun að setja upp slíka þröskulda í gættina.

Hjálpartæki

Það veldur vonbrigðum að sjá ekki hækkun á lið 26.3 um hjálpartæki, en starfshópur skilaði heilbrigðisráðherra tillögum um framtíðarfyrirkomulag hjálpartækja haustið 2019. Undirbúningur á endurskoðun kerfisins, með breytingum á lögum og reglugerðum auk heildstæðrar áætlunar í málaflokknum, hefði átt að fara fram í ár svo að breytingar á úthlutun hjálpartækja kæmu til framkvæmda árið 2021. Sá undirbúningur á nú að fara fram á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi, sem er ánægjulegt en hér hefur heilt ár glatast.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF)

Ísland varð aðili að SRFF með fullgildingu 20. september 2016. Í því felst skuldbinding ríkisins til þess tryggja öllu fötluðu fólki þann rétt sem í samningnum felst. Fjárlagafrumvarpið felur ekki í sér að taka eigi þessi mál sérstökum tökum og tryggja trúverðuga innleiðingu samningsins í íslenskan rétt og þar með fötluðu fólki þá aðstoð og þjónustu sem það á rétt á. Þörf er á stórátaki í þessum málum og sérstaklega í ljósi þess að á næstu misserum munu stjórnvöld senda frá sér sína fyrstu skýrslu til sérfræðinefndar samningsins sem á að gefa raunsanna mynd af þeim ráðstöfunum sem gerðar hafa verið í því skyni að efna skuldbindingar samkvæmt samningnum.

Samkvæmt  ályktun Alþingis frá 2019 þess efnis að frumvarp, sem feli í sér lögfestingu samningsins og aðlögun íslenskra laga að honum, verði lagt fram á Alþingi með það að markmiði að samningurinn verði lögfestur eigi síðar en 13. desember 2020. Því þarf einnig að fylgja fjármagn.

Tillaga að breytingu:
Stórátak í mannréttindamálum verður að hefjast án tafar og leggja verður nægilegt fjármagn til þess.

Niðurlag

Fjárlögin eru fötluðu fólki og langveiku mikil vonbrigði. Þau uppfylla ekki að fólk með skerta starfsgetu geti lifað sjálfstæðu lífi á eigin forsendum og framfleytt sér á tekjum sínum. Fjárlögin ná ekki að uppfylla grunn mannréttindi fatlaðs fólks.

Einstaklingar sem reiða sig á matargjafir, ekki öðru hvoru, heldur reglulega eru ekki að lifa sjálfstæðu lífi. Einstaklingar sem ekki eiga fyrir mat þegar liðið er á mánuðinn, njóta ekki mannréttinda, og eru langt frá því að lifa á eigin forsendum, þar sem það getur ekki framfleytt sér á eigin tekjum, og nýtur ekki viðeigandi stuðning, þjónustu eða greiðslna.

Allir málaflokkar sem varða fatlað fólk og örorkulífeyrisþega eru sveltir, og þrátt fyrir að stjórnvöld tali fjálglega um kaupmáttaraukningu öryrkja og að verulegu fjármagni hafi verið bætt við málaflokka fatlaðs fólks og öryrkja þá vantar enn stórlega upp á að fólk geti lifað með reisn í íslensku samfélagi. Afar brýnt er að litið verði sérstaklega til mannréttinda þessa hóps. Íslenska ríkinu ber að tryggja samfélag án mismununar, samfélag þar sem fatlað og langveikt fólk á rétt til lífs til jafns við aðra. Til þess að svo megi verða þarf að gera ráð fyrir verulegri aukningu fjármagns inn í alla málaflokka er varða fatlað fólk.

Í því ástandi sem nú ríkir er enn ríkari krafa en nokkru sinni að stjórnvöld horfi sérstaklega til jaðarsettra hópa og tryggi að þeir sé ekki skildir eftir. Fatlað og langveikt fólk er eins og áður segir, lang stærstur hluti þeirra sem neyddir eru til að sækja sér daglegar nauðsynjar hjá hjálparsamtökum. Þar eru biðraðir stöðugt að lengjast, þar er augljóst að fátækt er vaxandi, þar eru sjáanlegar vísbendingar um hvar skóinn kreppi, og að stjórnvöld verða að grípa til aðgerða. Fatlað fólk upplifir nú örvæntingu sem aldrei fyrr, og ljóst að ekki má að bíða lengur með aðgerðir. Í upphafi þessarar umsagnar minntum við á skýrslu starfshóps um skattundanskot. Það er því ljóst að nægt fjármagn er til að breyta nú rétt og bæta kjör öryrkja, það þarf aðeins að sækja það.

Hér er einnig minnt á að ríkisstjórnin starfar í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, hvar efst á blaði, markmið númer 1, er að útrýma fátækt. Það er ekki að ástæðulausu sem það markmið er fremst í röðinni. Við eigum ekki að láta bjóða  okkur fátækt í íslensku samfélagi.

Ekkert um okkur, án okkar.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir,
formaður Öryrkjabandalags Íslands.

[1] Fjármálaáætlun 2021-2025 bls 370, Framtíðarsýn og meginmarkmið

[2 Bls 108
[3] Sanngjörn dreifing skattbyrði. Hvernig leiðrétta má stóru skattatilfærsluna án þess að veikja velferðarkerfið. Skýrsla til Eflingar–stéttarfélags eftir Stefán Ólafsson og Indriða H. Þorláksson, febrúar 2019. Skattbyrði launafólks 1998-2016. Hagdeild ASÍ, ágúst 2017.
[4] Bls. 88.
[5] Frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998 (hlutdeildarlán): https://www.althingi.is/altext/150/s/1662.html
[6] Húsnæðismarkaðurinn – mánaðarskýrsla, október 2020: https://www.hms.is/media/7905/manadarskyrsla2_okt.pdf 
[7] https://www.stjornarradid.is/verkefni/efnahagsmal-og-opinber-fjarmal/fjarlog/fjarlog-fyrir-arid-2021/
[8] Fjármálaáætlun 2021-25, bls. 352.