Skip to main content
KjaramálViðtal

Íslenskir stéttleysingjar

By 4. október 2021ágúst 31st, 2022No Comments

Þegar ég var ungur drengur í grunnskóla í kringum 1980 var kennsla í trúarbrögðum og framandi samfélögum reglulegur liður í skólastarfseminni. Ég lærði um búddisma og hindúisma rétt eins og kristna trú og fjölbreytileiki trúarbragðanna vakti áhuga minn. Indverskt samfélag samanstóð af nokkrum stéttum og það merkilega er að aðeins ein stétt í indversku þjóðfélagi festist mér í minni. Það voru stéttleysingjarnir.

Mér var kennt að stéttleysingjar í indversku þjóðfélagi væru, eins og felst í orðinu, bæði stétt- og réttlausir. Þeir væru fátækasta og aumasta fólkið í marglaga samfélagi. Skuggi þeirra mátti ekki einu sinni ekki falla á fólk af hærri stétt enda í því fólgin mikil óvirðing.

Ég hef verið öryrki síðan 1995. Ég er íslenskur stéttleysingi því að öryrkjar tilheyra engri stétt. Það er ekkert raunverulegt stéttarfélag og enginn verkfallsréttur. Við erum komin upp á náð og miskunn íslenskra stjórnvalda og íslenskra stjórnmálamanna. Þessir stjórnmálamenn hafa flestir aldrei verið öryrkjar. Þeirra reynsluheimur nær ekki yfir þá lífsreynslu að þú sért svo veikur að þú getur ekki bjargað þér sjálfur. Þeir þurfa ekki að neita sér um almenn lífsgæði eins og að fara til tannlæknis, kaupa sér ný föt, fara reglulega út að borða, ferðast til útlanda og margt fleira. Í raun og veru eru íslenskir alþingismenn líkir hinni indversku yfirstétt sem ég lærði líka um í grunnskóla þegar kemur að ríkidæmi og stöðu. Skuggi neyðarinnar fellur á þá í hvert skipti sem öryrki skrifar þeim bréf og biður um brautargengi svo hann fái dýrt lyf til að honum auðnist að lifa lengur. Örlög slíks málareksturs eru yfirleitt þau að erindinu er ekki svarað. Stjórnmálamaðurinn lifir ekki í neyð og skortir slíka sameiginlega reynslu til að finna sig knúinn til að svara ákalli manneskju sem leitar til hans.

Sveinn Snorri Sveinsson

Ég var beðinn um að skrifa þennan pistil undir þeim formerkjum í hvaða farvegi ég vildi sjá málefni öryrkja eftir tíu ár. Ég vona að ég gerist hvorki of djarfur né róttækur þegar ég segi að eftir tíu ár vildi ég að hlutverk öryrkja verði skilgreint í lögum og litið verði á öryrkja sem stétt.

Ég vildi að þar með ættu öryrkjar rétt á lágmarkslaunum eins og allar aðrar stéttir í þjóðfélaginu. Við gætum stofnað stéttarfélag í líkingu við önnur verkalýðsfélög og jafnvel fengið aðrar stéttir með okkur í verkfall til að knýja fram rétt okkar til sambærilegra lífskjara og flestir aðrir lifa við í samfélaginu. Að sjálfsögðu gæti ÖBÍ aðlagað sig nýjum veruleika og tekið þá stöðu sem ég lýsi eftir hér.

Þá vaknar sú spurning hvaða hlutverk hafa öryrkjar í þjóðfélaginu? Eru þeir ekki bara veikir aumingjar? Í raun og veru mætti segja að hlutverk öryrkja sé að taka á sig sjúkdómana í samfélaginu. Til að taka þetta skrefinu lengra mætti jafnvel orða það þannig að heilbrigði annara samfélagsþegna sé tilkomið vegna öryrkja í íslensku samfélagi. Að sjálfsögðu fær aðeins visst hlutfall þjóðfélagsþegna alvarlega sjúkdóma og vegna eins er annar heilbrigður.

Nú gæti ég orðið aðeins djarfari þegar kemur að hlutverki öryrkja í íslensku samfélagi og bent á þá staðreynd að öryrkjar eru ákaflega atvinnuskapandi. Fjöldinn allur af læknum og íslensku heilbrigðisstarfssfólki hefur meðal annars lífsviðurværi af því að lækna og hjúkra öryrkjum. Öryrkjar stunda mikil viðskipti við lyfjaverslanir og eru góðir kúnnar því margir þeirra læknast ekki. Einnig eru ófá störf í félagsþjónustu tilkomin vegna öryrkja. Ef ég held svona áfram gæti hvarflað að mér að vera pínulítið stoltur af því að vera öryrki. Í staðinn fyrir að finnast ég harla lítils virði í þjóðfélaginu þegar þannig liggur á mér.

Eftir tíu ár vildi ég geta sagt að ég sé öryrki og nýtur þjóðfélagsþegn. Ég má halda áfram að kveljast og þjást af sjúkdómum mínum einmitt vegna þess að kvölin og þjáningin gerir mig einhvers virði. Ég þjáist svo einhvern annar þurfi þess ekki.

„Við gætum stofnað stéttarfélag í líkingu við önnur verkalýðsfélög og jafnvel fengið aðrar stéttir með okkur í verkfall til að knýja fram rétt okkar.“

Texti: Sveinn Skorri Sveinsson.  Mynd: Kormákur Máni Hafsteinsson.

Tímarit ÖBÍ 1. tbl. 2021 | Öryrkjabandalag Íslands (obi.is).