Skip to main content
HúsnæðismálKjaramálUmsögn

80. mál. Vextir og verðtrygging og húsaleigulög (verðbólga á húsnæðislán og húsaleigu)

By 28. janúar 2022september 1st, 2022No Comments

Efnahags- og viðskiptanefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 27. janúar 2022

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu og húsaleigulögum (aðgerðir til að sporna við áhrifum verðbólgu á húsnæðislán og húsaleigu) þingskjal 80 – 80 mál.

ÖBÍ lýsir stuðningi við frumvarpið sem hér er til umsagnar og ætlað er að verja tekjulága fyrir áhrifum verðbólgu á hækkun útgjalda vegna húsnæðis. ÖBÍ leggur áherslu á mikilvægi þess að fram komi úrræði sem ver tekjulágt fólk fyrir síhækkandi verðbólgu.

Samkvæmt 11. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna eiga allir að hafa kost á fullnægjandi og öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði. Húsnæðiskostnaður er stór hluti útgjalda fatlaðs fólks. Samkvæmt leigukönnun1 sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) lét framkvæma árið 2021 hefur hlutfall leigu af ráðstöfunartekjum aukist á milli ára. Meðalhlutfall leigukostnaðar af ráðstöfunartekjum er 44% sem gefur til kynna mjög mikla greiðslubyrði vegna leigukostnaðar. Í könnuninni kemur einnig fram að tæp 30% öryrkja greiða meira en 50% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu.

Dæmi:
Einstaklingur einungis með tekjur frá Tryggingastofnun (TR) og borgar meðal leiguverð á höfuðborgarsvæðinu sem var 193.000 kr. í október 2021. 
Hann hefur 350.000 kr. fyrir skatt. Eftir skatt 243.000 kr. í ráðstöfunartekjur – leiga 193.000 kr.– mínus húsnæðisstuðningur (32.460 kr.) 160.540 kr. – mínus sérstakur húsnæðisstuðningur (32.460 kr.) = 128.080 kr. = 53% af ráðstöfunartekjum í leigu að frádregnum hámarks húsnæðisstuðningi.

Á árinu 2021 setti Seðlabankinn reglur um hámarks greiðslubyrði íbúðarlána sem hlutfall af ráðstöfunartekjum og lækkaði hámarksveðhlutföll fasteignalána. Þessi viðmið takmarka getu fólks til þess að taka húsnæðislán en endurspegla engan veginn það greiðsluhlutfall sem fólk á leigumarkaði þarf að standa straum af. Tekjulágu fólki er gert erfitt eða nær ómögulegt að standast greiðslumat þrátt fyrir að hafa greitt leigu í mörg ár um og yfir 50% af ráðstöfunartekjum, sem er langt yfir reglum um hámarksgreiðslubyrði samkvæmt reglum Seðlabankans.

Fatlað fólk sem fær greiddan lífeyrir frá TR nýtur ekki þeirra lágu vaxta sem boðist hafa til að endurfjármagna húsnæðisláneða til endurbóta á húsnæðinu vegna þess að það stenst ekki greiðslumat bankanna. Það er því nauðsynlegt að komið sé á sérstöku greiðslumati og stuðningi fyrir það fólk sem getur sýnt fram á greiðslusögu á hárri húsaleigu þrátt fyrir lágar tekjur. Það greiðslumat þyrfti einnig að ná yfir þann hóp sem á fasteign en getur ekki endurfjármagnað lán sín líkt og aðrir vegna lágra tekna þrátt fyrir að slík endurfjármögnun myndi leiða til lægri greiðslubyrði.

Tekjulágt fólk tekur frekar verðtryggt húsnæðislán vegna lægri afborgana í því vaxtaumhverfi sem ríkt hefur á húsnæðismarkaði. Nú þegar fyrir liggur að verðbólga muni aukast mjög á næstu misserum, breytast þessar forsendur hratt og greiðslubyrði þyngist. Samkvæmt greiningu BHM juku heimili landsins húsnæðisskuldir sínar um 300 milljarða króna á árinu 2020. Í greiningunni er varað við að áhrif vaxtahækkana á greiðslubyrði og fjárhagslega stöðu heimila þegar Covid er á enda komið gætu orðið töluverð3.

Af gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“. 

Ekkert um okkur án okkar! 

Með vinsemd og virðingu, 

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ 
Valdís Ösp Árnadóttir, verkefnastjóri ÖBÍ