Skip to main content
AlmannatryggingarKjaramálTRUmsögn

Almannatryggingar (skerðing á lífeyri vegna búsetu). 71. mál.

By 28. mars 2022september 27th, 2022No Comments

Nefndasvið Alþingis
Velferðarnefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 28. mars 2022

Umsögn ÖBÍ um frumvarp til laga um almannatryggingar (skerðing á lífeyri vegna búsetu), þingskjal 71 – 71. mál.

Öryrkjabandalag Íslands tekur heilshugar undir mikilvægi þess að tryggja mun betur rétt þeirra sem ekki ná 40 ára búsetu á Íslandi á aldrinum 16-67 ára til framfærslu og draga úr þeim ójöfnuði sem viðgengst. Samkvæmt frumvarpinu á breytingin einungis að ná til íslenskra ríkisborgara, sem er ótækt. Íslenska almannatryggingakerfið tekur til allra sem ávinna sér rétt í gegnum búsetu (lögheimili) á Íslandi, óháð ríkisborgararétti. Auk þess er mismunun á grundvelli ríkisfangs óheimil sem kemur meðal annars fram í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sem Ísland er aðili að. Ákvæðin um þetta í samningunum eru bindandi fyrir aðildarríkin.

Lágmarkstryggingin skert út frá reglugerðarákvæði

Lágmarkstrygging fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, í 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, er skert á grundvelli fyrri búsetu erlendis og þeir einstaklingar skildir eftir í fátækt. Skerðing byggir á reglugerðarákvæði og hefur viðgengist þrátt fyrir lögfestingu ákvæðis um sérstaka uppbót til framfærslu sem ætti að tryggja öllum lífeyristökum ákveðna lágmarksfjárhæð til framfærslu á mánuði eins og fram kemur í svari þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn um lágmarksframfærslu.
ÖBÍ hefur í áraraðir lagt til breytingar á þessu með einfaldri niðurfellingu á reglugerðarákvæði. ÖBÍ rekur nú dómsmál til þess að fá viðurkennt að greiðslur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð skuli ekki búsetuskerða. Ríkið hefur tapað málinu á tveimum dómsstigum, en bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Landsdómur komust að þeirri niðurstöðu að óheimilt hefði verið að skerða sérstaka framfærsluuppbót þar sem reglugerð ráðherra hafi skort lagastoð. Ríkið áfrýjaði málinu til Hæstaréttar og var málið flutt Hæstarétti í 21. mars.

Eins og fram kemur í svari félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn um áfrýjun dóms Landsréttar um útreikning sérstakrar framfærsluuppbótar (213. mál.) var framfærsluuppbótin skert hjá 1379 einstaklingum vegna fyrri búsetu erlendis. Þessi einstaklingar eru með heildartekjur undir og jafnvel langt undir skilgreindu framfærsluviðmiði sem átti að skilgreina lágmarkið og er fjárhagsleg staða þeirra mjög erfið.

Breytingar og staðan í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis nr. 8955/2016

Í greinargerð velferðarnefndar Alþingis með beiðni um skýrslu frá ríkisendurskoðanda um stjórnsýsluúttekt á starfsemi Tryggingastofnunar sem samþykkt var 6. mars 2019 er bent á að nauðsynlegt er að þau lög sem um stofnunina gilda tryggi að ákvarðanir um skerðingu réttinda verði ekki teknar nema fyrir þeim sé viðhlítandi lagaheimild og nefnt sem dæmi „þær skerðingar sem um þúsund manns hafa orðið fyrir vegna túlkunar stofnunarinnar á 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 1. mgr. sömu greinar. Hafa einstaklingar sem búið hafa erlendis, en innan EES-svæðisins, orðið fyrir skerðingum á rétti sínum til örorkulífeyris á grundvelli beitingar ákvæðanna. Umboðsmaður Alþingis komst að því að slíkt væri rangt í áliti í máli nr. 8955/2016. Þannig hefur Tryggingastofnun ríkisins skert lífeyrisgreiðslur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega í um áratug án lagaheimildar.“
Álit umboðsmanns Alþingis nr. 8955/2016 er frá 18. júní 2018. Ári seinna var sett af stað vinna hjá Tryggingastofnun við að leiðrétta þær skerðingar sem fólk hafði orðið fyrir vegna hinna ólögmætu búsetuskerðinga. Tímabil leiðréttingar var hins vegar ákveðið aðeins fjögur ár aftur í tímann frá áliti umboðsmanns, þ.e. leiðrétta á aftur til júní 2014 þrátt fyrir að fyrir liggi og óumdeilt sé, að hinn rangi útreikningur búsetuhlutfalls hefur staðið yfir frá maí 2009.

Enn eru öll þau sem hafa verið búsett innan EES svæðisins og eru að koma „ný inn í kerfið“ sett undir framkvæmd og útreikningsreglu Tryggingarstofnunar fyrir búsetuhlutfall sem samkvæmt ofangreindu áliti umboðsmanns Alþingis er röng. Auk þess hefur einstaklingum sem hafa verið með 75% örorkumat hjá TR árum saman ekki verið bent á að sækja um örorkulífeyri hjá fyrra búsetulandi fyrr en mál þeirra eru tekin til endurskoðunar hjá TR vegna leiðréttingar búsetuhlutfalls. Þá hefst biðin eftir gögnum og niðurstöðum frá fyrra búsetulandi. Þessum einstaklingum er gert að bíða eftir endurskoðun og leiðréttingu þar til svör hafa borist frá fyrra búsetulandi um það hvort viðkomandi eigi rétt á greiðslum vegna örorku í því landi. Getur biðtíminn verið mjög langur eða nokkur ár. Á meðan beðið er þurfa þessir einstaklingar að framfleyta sér á mjög skertum greiðslum frá Tryggingastofnun og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga til framfærslu, ef sá réttur er til staðar.

Lagt er til að í fyrstu grein frumvarpsins verði orðin „íslensks ríkisborgara“ felld út og í þess stað komi „lífeyrisþega. Breytingartillagan er nokkuð óljós og ekki ljóst hvernig ætti að framkvæma hana og tryggja að fólk sem fær búsetuskertar greiðslur fái 100% réttinda sinna.

Ekkert um okkur án okkar

Virðingarfyllst,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi ÖBÍ