Skip to main content
AlmannatryggingarKjaramálUmsögn

Félagsleg aðstoð (heimilisuppbót). 56. mál.

By 28. mars 2022september 1st, 2022No Comments

Nefndasvið Alþingis
Velferðarnefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 28. mars 2022

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð nr. 99/2007 (heimilisuppbót) þingskjal 56 – 56 mál.

ÖBÍ lýsir stuðningi við tilgang og markmið frumvarpsins um að foreldrar sem fá greidda heimilisuppbót fái hana greidda áfram þrátt fyrir að börn þeirra búi heima eftir 18 ára aldur.

Í reglugerð nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri er undanþága sem skilar þessu markmiði vegna ungmenna á aldrinum 18-25 ára sem búa á heimilinu svo lengi sem þau eru í námi. ÖBÍ hefur talað fyrir því að undanþágan gilda án skilyrðisins um nám fyrir börn fatlaðra foreldra til að gæta jafnræðis við ófatlaða foreldra. Aðrir foreldrar verða fyrir tekjumissi þó börn þeirra búi heima fram á fullorðinsár. Í raun er það að veita barni sínu húsaskjól oft það eina sem fatlaðir foreldrar geta gert til að styðja barn sitt, sem jafnvel að safna sér fyrir útborgun í íbúð.

Eins og fram kemur í frumvarpinu er mjög mikilvægt að þessi ungmenni hafi raunverulegt val um að búa heima hjá foreldri meðan á framhaldsnámi stendur án þess að foreldri þeirra missi réttinn til heimilisuppbótar. Eins og fram kemur í greinargerðinni neyðast margir foreldrar til að vísa börnum sínum á dyr til að missa ekki réttinn til heimilisuppbótar. Því eru þessir foreldrar og þeirra börn sett í erfiðari stöðu og í raun mismunað þar sem þau hafa ekki sama val og önnur ungmenni um að búa heima á þessum árum.

Í frumvarpinu er annars vegar ákvæði um að lífeyrisþegi sem býr með einstaklingi sem ekki hefur náð 21 árs aldri telst ekki hafa fjárhagslegt hagræði af sambýlinu eða samlögun um húsnæðisstöðu eða fæðiskostnað. ÖBÍ lýsir stuðningi við að þetta ákvæði verði að lögum að því gefnu að aldursviðmiðið verði hækkað og nái til ungmenna fram að 26 ára aldri.

Með nýjustu reglugerð nr. 1649/2021 var sett inn breyting sem gengur lengra en seinni málsgrein frumvarpsins. Því leggjum við til að seinni málsgrein frumvarpsins verði felld út úr frumvarpinu. Þessi reglugerðarbreytingin tók gildi 1. janúar 2022 og er svohljóðandi

„Ef heimilismaður er á aldrinum 18-25 ára og í námi eða starfsþjálfun skulu aðrir heimilismenn þó ekki teljast hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum við hann.“

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að sambærileg undanþága er nú þegar í reglugerð en gerir kröfu um að barn sé í fullu námi. Það á ekki við lengur þar sem búið er að taka út orðið „fullu“ á undan skólanámi eða starfsþjálfun.

Lagt er til að ákvæði frumvarpsins verði svohljóðandi:

Lífeyrisþegi sem býr með einstaklingi sem ekki hefur náð 26 ára aldri telst ekki hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Ekkert um okkur án okkar.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi ÖBÍ